Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hlutverk heilags anda í fyrirætlun Jehóva

Hlutverk heilags anda í fyrirætlun Jehóva

Hlutverk heilags anda í fyrirætlun Jehóva

„Orð mitt sem kemur af munni mínum . . . framkvæmir það sem ég fel því.“ — JES. 55:11.

1. Lýstu með dæmi hvernig Jehóva lætur fyrirætlun sína ná fram að ganga.

HUGSUM okkur tvo menn sem eru hvor í sínu lagi að búa sig undir ökuferð. Annar kortleggur í smáatriðum hvernig hann ætlar að komast á áfangastað. Hinn hefur skýrt í huga hvert hann ætlar en veit að hann getur valið um margar leiðir. Hann er reiðubúinn að fara aðra leið ef ófyrirséðar aðstæður útheimta það. Að sumu leyti lýsir þetta dæmi vel fyrirætlun Jehóva því að hann hefur ákveðið markmið í huga en er ekki endilega búinn að ákveða í smáatriðum hvernig hann ætlar að ná því.

2, 3. (a) Hvað er fólgið í fyrirætlun Jehóva og hvernig brást hann við þegar Adam og Eva syndguðu? (b) Af hverju ættum við að vera samstiga fyrirætlun Jehóva?

2 Jehóva gefur sér alllangan tíma til að hrinda fyrirætlun sinni í framkvæmd. (Ef. 3:11) Hún felur í sér það sem hann hugðist fyrir í upphafi með mannkynið og jörðina. Jörðin átti að vera paradís þar sem fullkomnir menn myndu búa að eilífu í friði og hamingju. (1. Mós. 1:28) Þegar Adam og Eva syndguðu brást hann við því og gerði ráðstafanir til að tryggja að fyrirætlun sín næði fram að ganga. (Lestu 1. Mósebók 3:15.) Jehóva ákvað að táknræn kona sín skyldi eignast „niðja“ eða son sem myndi að lokum tortíma Satan, sem hóf uppreisnina, og bæta allt það tjón sem hann olli. — Hebr. 2:14; 1. Jóh. 3:8.

3 Enginn máttur á himni eða jörð getur komið í veg fyrir að yfirlýst fyrirætlun Jehóva nái fram að ganga. (Jes. 46:9-11) Af hverju getum við fullyrt það? Af því að heilagur andi Jehóva á hlut að máli og ekkert getur staðið gegn honum. Hann „framkvæmir“ það sem Guð ætlast fyrir. (Jes. 55:10, 11) Við þurfum að vera fullkomlega samstiga fyrirætlun Guðs og framvindu hennar. Líf okkar í framtíðinni er undir því komið að hún nái fram að ganga. Og það er trústyrkjandi að sjá hvernig Jehóva beitir anda sínum. Við skulum því kynna okkur hlutverk heilags anda í fyrirætlun Jehóva — í fortíð, nútíð og framtíð.

Hlutverk heilags anda í fortíð

4. Hvernig hefur Jehóva smám saman opinberað fyrirætlun sína?

4 Jehóva opinberaði fyrirætlun sína smám saman á biblíutímanum. Í fyrstu var það leyndardómur hver væri hinn fyrirheitni niðji. (1. Kor. 2:7) Það liðu heil 2.000 ár þangað til Jehóva minntist aftur á niðjann. (Lestu 1. Mósebók 12:7; 22:15-18.) Þá gaf Jehóva Abraham loforð sem átti að hljóta víðtæka uppfyllingu. Orðin „af niðjum þínum“ voru skýr vísbending um að niðjinn yrði maður og afkomandi Abrahams. Það leikur enginn vafi á að Satan fylgdist af athygli með þessari opinberun. Óvininum hefur eflaust verið mikið í mun að tortíma eða spilla afkomendum Abrahams og koma í veg fyrir að vilji Guðs næði fram að ganga. En það var enginn möguleiki á að honum tækist það vegna þess að ósýnilegur andi Guðs var að verki. Hvernig?

5, 6. Hvernig beitti Jehóva anda sínum til að vernda einstaklinga í ættlegg niðjans?

5 Jehóva beitti anda sínum til að vernda einstaklinga í ættlegg niðjans. Hann sagði við Abram (Abraham): „Ég er skjöldur þinn.“ (1. Mós. 15:1) Þetta voru ekki orðin tóm. Lítum til dæmis á atburði sem áttu sér stað árið 1919 f.Kr. þegar Abraham og Sara settust að um tíma í Gerar. Abímelek, konungur í Gerar, vissi ekki að Sara væri eiginkona Abrahams og tók hana í þeim tilgangi að eignast hana fyrir konu. Stóð Satan á bak við þetta til að reyna að koma í veg fyrir að Sara eignaðist niðja með Abraham? Það er ósagt látið í Biblíunni. Hins vegar kemur fram að Jehóva skarst í leikinn og varaði Abímelek við því í draumi að snerta Söru. — 1. Mós. 20:1-18.

6 Þetta var ekkert einsdæmi. Jehóva frelsaði Abraham og ættingja hans oftar en einu sinni. (1. Mós. 12:14-20; 14:13-20; 26:26-29) Sálmaskáldið gat því sagt um Abraham og afkomendur hans: „Hann [Jehóva] leið engum að kúga þá en hegndi konungum þeirra vegna. ,Snertið eigi mína smurðu og gerið eigi spámönnum mínum mein.‘“ — Sálm. 105:14, 15.

7. Hvernig verndaði Jehóva Ísraelsmenn?

7 Jehóva beitti anda sínum til að vernda Ísraelsmenn sem hinn fyrirheitni niðji átti að fæðast af. Hann gaf þeim lögmálið fyrir atbeina anda síns og það varðveitti sanna tilbeiðslu og kom í veg fyrir að þeir spilltust trúarlega, siðferðilega og líkamlega. (2. Mós. 31:18; 2. Kor. 3:3) Á dómaratímanum veitti Jehóva vissum mönnum anda sinn svo að þeir fengju kraft til að frelsa Ísraelsmenn frá óvinum þeirra. (Dóm. 3:9, 10) Á síðustu öldunum áður en Jesús fæddist hlýtur heilagur andi að hafa átt þátt í að vernda Jerúsalem, Betlehem og musterið. Þessir staðir áttu að gegna ákveðnu hlutverki í uppfyllingu spádómanna um Jesú sem var aðalniðji Abrahams.

8. Hvað sýnir að heilagur andi hafði bein áhrif á líf og þjónustu sonar Guðs?

8 Heilagur andi hafði bein áhrif á líf og þjónustu Jesú. Hann starfaði í móðurkviði meyjarinnar Maríu og kom til leiðar nokkru sem hafði aldrei gerst áður og hefur aldrei gerst aftur. Hann hafði þau áhrif að ófullkomin kona eignaðist fullkominn son sem var ekki undirorpinn dauðanum. (Lúk. 1:26-31, 34, 35) Andinn verndaði síðar Jesú og kom í veg fyrir að hann dæi sem barn. (Matt. 2:7, 8, 12, 13) Þegar Jesús var um þrítugt smurði Guð hann með heilögum anda, skipaði hann erfingja að hásæti Davíðs og fól honum það verkefni að prédika. (Lúk. 1:32, 33; 4:16-21) Heilagur andi gaf Jesú mátt til að vinna kraftaverk, meðal annars að lækna sjúka, metta mannfjöldann og reisa upp dána. Þessi máttarverk voru forsmekkur þeirrar blessunar sem er í vændum þegar Jesús hefur tekið við völdum sem konungur.

9, 10. (a) Hvernig sýndi það sig að heilagur andi starfaði með lærisveinum Jesú á fyrstu öld? (b) Hvaða þáttaskil urðu varðandi fyrirætlun Jehóva á fyrstu öld?

9 Frá hvítasunnu árið 33 notaði Jehóva heilagan anda til að smyrja þá niðja konunnar sem bættust við, en margir þeirra voru ekki afkomendur Abrahams. (Rómv. 8:15-17; Gal. 3:29) Heilagur andi starfaði með lærisveinum Jesú á fyrstu öld og gerði þeim kleift að prédika af miklu kappi og vinna kraftaverk. (Post. 1:8; 2:1-4; 1. Kor. 12:7-11) Með þessum náðargáfum opinberaði heilagur andi að það hefðu orðið þáttaskil í fyrirætlun Jehóva. Hann notaði ekki lengur hið aldagamla fyrirkomulag að musterið í Jerúsalem væri miðstöð tilbeiðslunnar á honum. Nú var það hinn nýstofnaði kristni söfnuður sem hafði velþóknun hans. Upp frá því hefur þessi andasmurði söfnuður þjónað fyrirætlun Jehóva.

10 Við höfum skoðað hvernig Jehóva verndaði, veitti kraft og smurði með anda sínum. Þetta eru aðeins nokkur dæmi um hvernig hann notaði heilagan anda á biblíutímanum til að tryggja að fyrirætlun sín næði fram að ganga. En hvað um okkar tíma? Hvernig notar Jehóva heilagan anda núna til að hrinda fyrirætlun sinni í framkvæmd? Við þurfum að fá svar við því vegna þess að okkur langar til að vinna með heilögum anda. Við skulum nú líta á fjögur dæmi um hvernig Jehóva notar anda sinn nú á dögum.

Hlutverk heilags anda í nútíð

11. Hvað sýnir að heilagur andi stuðlar að því að fólk Guðs sé hreint og hvernig geturðu sýnt að þú látir andann hafa sterk áhrif á þig?

11 Í fyrsta lagi hjálpar heilagur andi fólki Guðs að vera hreint. Þeir sem njóta góðs af fyrirætlun Guðs verða að vera siðferðilega hreinir. (Lestu 1. Korintubréf 6:9-11.) Sumir sem snerust til sannrar kristni höfðu lifað í siðleysi eins saurlifnaði, hórdómi og kynvillu. Þær langanir, sem eru kveikjan að syndsamlegum verkum, geta verið djúpstæðar. (Jak. 1:14, 15) En þetta fólk ,lét laugast‘ sem merkir að það hafi gert nauðsynlegar breytingar á líferni sínu til að þóknast Guði. Hvað gerir þeim sem elska Guð kleift að standast skyndilega löngun til að láta undan röngum tilhneigingum? „Andi vors Guðs,“ segir í 1. Korintubréfi 6:11. Með því að halda þér siðferðilega hreinum sýnirðu að þú lætur andann hafa sterk áhrif á líf þitt.

12. (a) Hvernig stýrir Jehóva alheimssöfnuði sínum samkvæmt sýn Esekíels? (b) Hvernig geturðu sýnt að þú starfir með heilögum anda?

12 Í öðru lagi notar Jehóva anda sinn til að leiða söfnuð sinn í þá átt sem hann vill að hann stefni. Í sýn Esekíels birtist himneskur hluti alheimssafnaðar Jehóva sem óstöðvandi stríðsvagn sem er á ferð til að framfylgja fyrirætlun hans. Hvað ræður því að vagninn stefnir í ákveðna átt? Það er heilagur andi. (Esek. 1:20, 21) Munum að alheimssöfnuður Jehóva er tvíþættur. Annar hlutinn er á himni en hinn á jörð. Fyrst heilagur andi stjórnar himneska hlutanum hlýtur hann að stjórna þeim jarðneska líka. Með því að vera trú og hlýðin leiðsögninni sem við fáum frá jarðneskum hluta alheimssafnaðar Guðs sýnum við að við erum samstiga himneskum stríðsvagni hans og störfum með heilögum anda. — Hebr. 13:17.

13, 14. (a) Hverjir mynda ,kynslóðina‘ sem Jesús nefndi? (b) Nefndu dæmi sem sýnir að heilagur andi varpar nýju ljósi á sannindi Biblíunnar. (Sjá rammagreinina „Fylgistu með nýjum skilningi á sannindum Biblíunnar?“)

13 Í þriðja lagi á heilagur andi þátt í því að varpa ljósi á sannindi Biblíunnar. (Orðskv. 4:18) Hinn „trúi og hyggni þjónn“ hefur árum saman notað þetta tímarit til að varpa skýrara ljósi á Biblíuna. (Matt. 24:45) Tökum sem dæmi skilning okkar á ,kynslóðinni‘ sem Jesús nefndi. (Lestu Matteus 24:32-34.) Hvaða kynslóð átti Jesús við? Í greininni „Hvaða þýðingu hefur nærvera Krists fyrir okkur?“ kemur fram að Jesús hafi ekki verið að tala um óguðlega menn heldur lærisveina sína sem yrðu smurðir heilögum anda innan skamms. * Það yrðu andasmurðir fylgjendur Jesú, bæði á fyrstu öld og okkar dögum, sem myndu sjá táknið og skilja hvað það merkti, það er að segja að Jesús væri „í nánd, fyrir dyrum“.

14 Hvaða þýðingu hefur þessi skýring fyrir okkur? Þó að við getum ekki mælt nákvæmlega hve langt tímabil „þessi kynslóð“ spannar er gott að hafa í huga nokkur atriði varðandi orðið „kynslóð“: Það er yfirleitt notað um fólk á ýmsum aldri sem er samtíða á ákveðnu tímabili. Tímabilið er ekki lengra en góðu hófi gegnir og það tekur enda. (2. Mós. 1:6) Hvernig eigum við þá að skilja orð Jesú um ,þessa kynslóð‘? Hann er greinilega að tala um að þeir af hinum andasmurðu, sem væru á jörðinni árið 1914 þegar táknið kæmi í ljós, yrðu um tíma samtíða öðrum andasmurðum sem myndu sjá þrenginguna miklu hefjast. Sú kynslóð átti sér upphaf og hún á sér örugglega endi. Uppfylling hinna ýmsu þátta táknsins sýnir svo ekki verður um villst að þrengingin mikla hlýtur að vera nærri. Með því að halda vöku þinni geturðu sýnt að þú fylgist vel með nýjum skilningi á sannindum Biblíunnar og fylgir leiðsögn heilags anda. — Mark. 13:37.

15. Hvað sýnir að það er heilagur andi sem gefur okkur kraft til að boða fagnaðarerindið?

15 Í fjórða lagi gefur heilagur andi okkur kraft til að boða fagnaðarerindið. (Post. 1:8) Hvaða önnur skýring getur verið á því að fagnaðarerindið skuli hafa verið boðað um alla jörðina? Hugleiddu málið. Þú ert kannski feiminn og óframfærinn að eðlisfari og hélst einu sinni að þú gætir aldrei prédikað hús úr húsi. En núna boðarðu fagnaðarerindið af kappi. * Margir dyggir vottar Jehóva hafa haldið áfram að prédika þrátt fyrir andstöðu eða ofsóknir. Ekkert nema heilagur andi getur gefið okkur kraft til að yfirstíga fjallháar hindranir og gera hluti sem við gætum alls ekki gert í eigin krafti. (Míka 3:8; Matt. 17:20) Með því að taka fullan þátt í boðunarstarfinu sýnirðu að þú vinnur með heilögum anda.

Hlutverk heilags anda í framtíð

16. Af hverju getum við treyst að Jehóva verndi fólk sitt í þrengingunni miklu?

16 Í framtíðinni beitir Jehóva anda sínum á einstæðan hátt til að láta fyrirætlun sína ná fram að ganga. Lítum fyrst á vernd hans. Eins og fram hefur komið beitti Jehóva anda sínum forðum daga til að vernda bæði einstaklinga og Ísraelsmenn sem þjóð. Við höfum því fulla ástæðu til að treysta að hann beiti sama öfluga andanum til að vernda fólk sitt í þrengingunni miklu sem er fram undan. Við þurfum ekki að velta vöngum yfir því með hvaða hætti Jehóva muni annast okkur á þeim tíma. Við skulum heldur horfa fram á veginn með trúartrausti því að við vitum að Jehóva fylgist alltaf með þeim sem elska hann og andi hans nær alltaf til þeirra. — 2. Kron. 16:9; Sálm. 139:7-12.

17. Hvernig mun Jehóva beita heilögum anda sínum í nýja heiminum?

17 Hvernig á Jehóva eftir að beita heilögum anda sínum í nýja heiminum? Það er fyrir atbeina andans sem ritaðar verða nýjar bækur sem verður lokið upp á þeim tíma. (Opinb. 20:12) Hvað verður að finna í þeim? Greinilega ítarlegar leiðbeiningar Jehóva handa okkur í þúsundáraríkinu. Hlakkarðu ekki til að kynna þér efni þessara bóka? Við bíðum nýja heimsins með óþreyju. Við getum ekki einu sinni ímyndað okkur hvernig það verður að lifa á þeim tíma þegar Jehóva beitir heilögum anda sínum til að fyrirætlun hans með jörðina og mannkynið nái fram að ganga.

18. Hverju ættum við að vera staðráðin í?

18 Gleymum aldrei að það er öruggt að fyrirætlun Jehóva nær fram að ganga því að hann beitir heilögum anda sínum, sterkasta afli í alheiminum, til að hrinda henni í framkvæmd. Fyrirætlun hans nær til þín. Vertu því staðráðinn í að biðja Jehóva að gefa þér anda sinn og vinna í samræmi við leiðsögn hans. (Lúk. 11:13) Þá áttu í vændum að lifa eins og Jehóva ætlaði mönnum að lifa — að eilífu í paradís á jörð.

[Neðanmáls]

^ gr. 15 Í Varðturninum, 1. mars 1994, bls. 32, er sagt frá dæmi um boðbera sem var feiminn með afbrigðum en sigraðist á því og varð ötull boðberi.

Manstu?

• Hvernig beitti Jehóva heilögum anda sínum á biblíutímanum til að vinna að fyrirætlun sinni?

• Hvernig beitir Jehóva anda sínum núna?

• Hvernig mun Jehóva beita anda sínum í framtíðinni til að fyrirætlun hans nái fram að ganga?

[Spurningar]

[Rammi á bls. 10]

Fylgistu með nýjum skilningi á sannindum Biblíunnar?

Jehóva heldur áfram að skýra sannindi Biblíunnar fyrir fólki sínu. Lítum á dæmi um nákvæmari skýringar sem hafa birst í Varðturninum.

▪ Hvaða jákvæða lærdóm má draga af dæmisögu Jesú um súrdegið varðandi það þegar einhver tekur við sannleikanum? (Matt. 13:33) — 15. júlí 2008, bls. 19-20.

▪ Hvenær lýkur himneskri köllun kristinna manna? — 1. október 2007, bls. 30-31.

▪ Hvað merkir það að tilbiðja Jehóva „í anda“? (Jóh. 4:24) — 1. september 2002, bls. 13.

▪ Í hvaða forgarði þjónar múgurinn mikli? (Opinb. 7:15) — 1. júlí 2006, bls. 17.

▪ Hvenær eru sauðirnir og hafrarnir aðgreindir? (Matt. 25:31-33) — 1. febrúar 1996, bls. 8-18.