Bréfið til Hebrea 2:1–18

  • Gefum sérstakan gaum að því sem við höfum heyrt (1–4)

  • Allt lagt undir Jesú (5–9)

  • Jesús og bræður hans (10–18)

    • Höfðinginn sem frelsar þá (10)

    • Miskunnsamur æðstiprestur (17)

2  Þess vegna þurfum við að gefa sérstakan gaum að því sem við höfum heyrt svo að við berumst aldrei af leið.  Fyrst orðið sem englar fluttu reyndist áreiðanlegt og refsað var fyrir hvert afbrot og óhlýðni í samræmi við réttlætið,  hvernig getum við þá komist undan ef við höfum verið kærulaus um svo stórkostlega björgun? Drottinn okkar boðaði hana fyrst og við fengum hana staðfesta hjá þeim sem hlustuðu á hann.  Og Guð vitnaði með þeim með táknum, undrum* og ýmsum máttarverkum og með því að útbýta heilögum anda að vild sinni.  Hann fól ekki englum að ráða yfir hinum komandi heimi* sem við tölum um.  En á einum stað segir vottur nokkur: „Hvað er maður að þú minnist hans eða mannssonur að þú takir hann að þér?  Þú gerðir hann ögn lægri englunum. Þú krýndir hann dýrð og heiðri og settir hann yfir verk handa þinna.  Þú lagðir allt undir fætur hans.“ Með því að leggja allt undir hann er ekkert undanskilið sem Guð lagði ekki undir hann. Við sjáum þó ekki enn að allt sé lagt undir hann.  En við sjáum að Jesús, sem var gerður ögn lægri englunum, er nú krýndur dýrð og heiðri vegna þess að hann þjáðist og dó. Svo er einstakri góðvild Guðs fyrir að þakka að hann dó fyrir alla. 10  Allt sem er til er Guði til dýrðar og er honum að þakka. Hann vildi leiða marga syni til dýrðar. Þess vegna var viðeigandi að hann fullkomnaði með þjáningum höfðingjann sem frelsar þá. 11  Sá sem helgar og þeir sem eru helgaðir eiga allir sama föður og þess vegna skammast hann sín ekki fyrir að kalla þá bræður 12  heldur segir: „Ég kunngeri bræðrum mínum nafn þitt, ég syng þér lof í söfnuðinum.“ 13  Annars staðar segir: „Ég legg traust mitt á hann.“ Og: „Sjáið! Ég og börnin sem Jehóva* gaf mér.“ 14  Fyrst „börnin“ eru af holdi og blóði varð hann líka hold og blóð svo að hann gæti með dauða sínum gert að engu þann sem hefur mátt til að valda dauða, það er að segja Djöfulinn, 15  og frelsað alla sem hafa verið í þrælkun alla sína ævi af því að þeir óttuðust dauðann. 16  Hann kom ekki til að aðstoða engla heldur afkomendur Abrahams. 17  Þar af leiðandi þurfti hann að verða eins og „bræður“ sínir að öllu leyti til að geta orðið miskunnsamur og trúr æðstiprestur í þjónustu Guðs og fært friðþægingarfórn* fyrir syndir fólksins. 18  Fyrst hann þjáðist sjálfur þegar hann var reyndur er hann fær um að hjálpa þeim sem verða fyrir prófraunum.

Neðanmáls

Það er, fyrirboðum.
Eða „hinni komandi heimsbyggð“.
Sjá orðaskýringar.
Eða „fært sáttarfórn; friðþægt“.