Dómarabókin 3:1–31

  • Jehóva reynir Ísraelsmenn (1–6)

  • Otníel, fyrsti dómarinn (7–11)

  • Ehúð dómari drepur hinn feita Eglon konung (12–30)

  • Samgar dómari (31)

3  Þetta eru þjóðirnar sem Jehóva leyfði að væru eftir til að reyna þá Ísraelsmenn sem höfðu ekki upplifað nein af stríðsátökunum í Kanaan  (þannig fengju komandi kynslóðir Ísraelsmanna að kynnast stríði, þeir sem höfðu ekki kynnst því áður):  fimm höfðingjar Filistea og allir Kanverjar, Sídoningar og Hevítar sem bjuggu á Líbanonsfjöllum frá fjallinu Baal Hermon allt til Lebó Hamat.*  Þessar þjóðir skyldu vera prófsteinn á það hvort Ísraelsmenn myndu hlýða boðorðum Jehóva sem hann hafði gefið feðrum þeirra fyrir milligöngu Móse.  Ísraelsmenn bjuggu því meðal Kanverja, Hetíta, Amoríta, Peresíta, Hevíta og Jebúsíta.  Þeir giftust dætrum þeirra og gáfu sonum þeirra dætur sínar, og þeir fóru að þjóna guðum þeirra.  Ísraelsmenn gerðu það sem var illt í augum Jehóva, þeir gleymdu Jehóva Guði sínum og þjónuðu Baölunum og helgistólpunum.*  Þá blossaði reiði Jehóva upp gegn Ísraelsmönnum og hann gaf þá á vald Kúsan Rísjataím, konungi í Mesópótamíu.* Ísraelsmenn þjónuðu Kúsan Rísjataím í átta ár.  Þegar Ísraelsmenn hrópuðu til Jehóva á hjálp gaf Jehóva þeim mann til að frelsa þá, Otníel, son Kenasar yngri bróður Kalebs. 10  Andi Jehóva kom yfir hann og hann varð dómari Ísraels. Hann fór í stríð og Jehóva gaf Kúsan Rísjataím, konung í Mesópótamíu,* í hendur hans svo að hann sigraði hann. 11  Eftir það var friður í landinu í 40 ár. Síðan dó Otníel Kenasson. 12  Ísraelsmenn fóru enn á ný að gera það sem var illt í augum Jehóva. Jehóva lét þá Eglon, konung í Móab, ná Ísraelsmönnum á sitt vald því að þeir gerðu það sem var illt í augum Jehóva. 13  Hann fékk Ammóníta og Amalekíta í lið með sér. Þeir réðust á Ísrael og tóku pálmaborgina. 14  Ísraelsmenn þjónuðu Eglon konungi Móabs í 18 ár. 15  Þá hrópuðu þeir til Jehóva á hjálp og Jehóva gaf þeim mann til að frelsa þá, Ehúð Gerason Benjamíníta, en hann var örvhentur. Einu sinni sendu Ísraelsmenn hann með skatt til Eglons Móabskonungs. 16  Ehúð hafði gert sér tvíeggjað sverð, alin* á lengd, og hann gyrti sig því innanklæða á hægri hlið. 17  Hann færði Eglon Móabskonungi skattinn, en Eglon var spikfeitur. 18  Þegar Ehúð hafði afhent skattinn fór hann með mönnunum* sem höfðu borið skattinn. 19  En þegar þeir komu að steinstyttunum* við Gilgal sneri hann aftur til konungs og sagði: „Ég er með leynileg boð til þín, konungur.“ „Þögn!“ skipaði konungur. Allir þjónar hans gengu þá út. 20  Ehúð gekk nú til hans þar sem hann sat einn í svölu þakherbergi sínu og sagði: „Ég er með boð til þín frá Guði.“ Konungur stóð þá upp úr hásæti* sínu. 21  Ehúð greip sverðið á hægri hlið sér með vinstri hendinni og rak það í kvið hans. 22  Sverðið fór á kaf ásamt handfanginu og spikið huldi það. Hann dró ekki sverðið úr kviðnum og saurinn vall út. 23  Ehúð fór út um veröndina,* lokaði dyrunum á þakherberginu á eftir sér og læsti. 24  Þegar hann var farinn komu þjónarnir aftur og sáu að dyrnar á þakherberginu voru læstar. Þeir sögðu þá: „Hann hlýtur að vera að gera þarfir sínar* inni í svala herberginu.“ 25  Þeir biðu þangað til það var orðið vandræðalegt en fyrst hann opnaði ekki dyrnar að þakherberginu tóku þeir lykilinn og opnuðu. Þá sáu þeir að herra þeirra lá dauður á gólfinu. 26  Ehúð komst undan meðan þeir biðu. Hann fór fram hjá steinstyttunum* og komst heilu og höldnu til Seíra. 27  Þegar hann kom þangað, í fjalllendi Efraíms, blés hann í horn. Ísraelsmenn fóru ofan af fjalllendinu með hann í fararbroddi. 28  Hann sagði við þá: „Fylgið mér því að Jehóva hefur gefið óvini ykkar, Móabítana, ykkur á vald.“ Þeir fylgdu honum og náðu vöðunum á Jórdan yfir til Móabíta og þeir leyfðu engum að fara yfir. 29  Þeir felldu um 10.000 Móabíta, allt sterka og hugrakka menn. Ekki einn einasti komst undan. 30  Þennan dag yfirbuguðu Ísraelsmenn Móabíta og friður var í landinu í 80 ár. 31  Eftir Ehúð kom Samgar Anatsson sem felldi 600 Filistea með nautrekstrarstaf. Hann frelsaði einnig Ísrael.

Neðanmáls

Eða „staðarins þar sem farið er inn í Hamat“.
Sjá orðaskýringar.
Orðrétt „Aram Naharaím“.
Orðrétt „Aram“.
Ef til vill stutt alin, um 38 cm. Sjá viðauka B14.
Orðrétt „sendi hann burt mennina“.
Eða hugsanl. „grjótnámunum“.
Eða „sæti“.
Eða hugsanl. „loftopið“.
Orðrétt „hylja fætur sína“.
Eða hugsanl. „grjótnámunum“.