Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Hvenær lýkur himneskri köllun kristinna manna?

Biblían veitir ekki ákveðið svar við þessari spurningu. Við vitum hins vegar að frá og með árinu 33 voru lærisveinar Jesú smurðir heilögum anda með von um arfleið á himnum. (Postulasagan 2:1-4) Við vitum líka að eftir dauða postulanna voru andasmurðir menn, það er að segja „hveitið“, og falskristnir menn, eða „illgresið“, látnir „vaxa saman“. (Matteus 13:24-30) Síðan, undir lok 19. aldar, komu hinir andasmurðu aftur fram á sjónarsviðið og urðu virkir. Árið 1919 var byrjað að uppskera „sáðland jarðarinnar“ og safna saman hinum síðustu úr hópi andasmurðra kristinna manna. — Opinberunarbókin 14:15, 16.

Frá lokum 19. aldar og fram til ársins 1931 snerist boðunarstarfið aðallega um að safna saman þeim sem eftir voru af líkama Krists. Árið 1931 tóku Biblíunemendurnir sér heitið Vottar Jehóva, sem byggt er á Biblíunni, og í Varðturninum 15. nóvember 1933 var sú hugmynd sett fram að þetta sérstaka nafn væri „denarinn“ sem Jesús talaði um í dæmisögunni í Matteusi 20:1-16. Vinnustundirnar 12 í dæmisögunni voru taldar samsvara árunum 12 frá 1919 til 1931. Í mörg ár eftir þetta var álitið að himnesku kölluninni hefði lokið árið 1931 og að þeir sem kallaðir voru til að ríkja sem samerfingjar Krists árið 1930 og 1931 hefðu verið þeir „síðustu“ sem kallaðir voru. (Matteus 20:6-8) En árið 1966 kom nýr skilningur á þessari dæmisögu og ljóst varð að hún tengdist á engan hátt köllun hinna síðustu úr hópi andasmurðra manna.

Árið 1935 skildu menn að ‚múgurinn mikli‘ í Opinberunarbókinni 7:9-15 táknaði „aðra sauði“ eða kristna menn með jarðneska von sem myndu koma fram á sjónarsviðið á „síðustu dögum“, og að þeir sem hópur myndu lifa af Harmagedón. (Jóhannes 10:16; 2. Tímóteusarbréf 3:1; Opinberunarbókin 21:3, 4) Eftir það ár beindist boðunarstarfið aðallega að því að safna saman múginum mikla. Þess vegna var talið, sérstaklega eftir 1966, að himnesku kölluninni hefði lokið 1935. Það sem virtist staðfesta þetta var að næstum allir sem létu skírast eftir 1935 töldu sig hafa jarðneska von. Álitið var að þeir sem fengu himneska von eftir 1935 kæmu í staðinn fyrir andasmurða menn sem höfðu fallið frá trúnni.

Ef andasmurður einstaklingur fellur frá og iðrast ekki velur Jehóva vissulega annan í hans stað. (Rómverjabréfið 11:17-22) Það er hins vegar ekki líklegt að stór hópur andasmurðra manna hafi fallið frá trúnni. En eftir því sem tíminn hefur liðið hefur andinn vitnað með sumum sem skírðust eftir 1935 að þeir hafi himneska von. (Rómverjabréfið 8:16, 17) Það lítur því ekki út fyrir að hægt sé að nefna neina ákveðna dagsetningu þegar köllun andasmurðra kristinna manna lýkur.

En hvernig ætti að líta á einstakling sem hefur fundið í hjarta sér að nú sé hann andasmurður og fer því að taka af brauðinu og víninu á minningarhátíðinni? Það ætti ekki að dæma hann. Þetta er á milli hans og Jehóva. (Rómverjabréfið 14:12) En þeir sem eru í raun andasmurðir fara ekki fram á neina sérstaka athygli. Þeir trúa því ekki að þeir hafi sérstakt „innsæi“ jafnvel umfram reynda einstaklinga af múginum mikla. Og þeir telja ekki endilega að þeir hafi meiri heilagan anda en félagar þeirra af öðrum sauðum. Þeir vilja ekki að komið sé öðruvísi fram við þá en aðra og halda því ekki fram að fyrst þeir taki af brauðinu og víninu séu þeir æðri útnefndum öldungum safnaðarins. Þeir eru auðmjúkir og muna að sumir andasmurðir menn á fyrstu öldinni voru ekki hæfir til að þjóna sem öldungar eða safnaðarþjónar. (1. Tímóteusarbréf 3:1-10, 12, 13; Títusarbréfið 1:5-9; Jakobsbréfið 3:1) Sumir hinna andasmurðu voru jafnvel veikir í trúnni. (1. Þessaloníkubréf 5:14) Og systur kenndu ekki í söfnuðinum þótt þær væru andasmurðar. — 1. Tímóteusarbréf 2:11, 12.

Andasmurðir kristnir menn leggja sig því fram um að vera sterkir í trúnni, þroska með sér ávöxt andans og stuðla að friði innan safnaðarins alveg eins og félagar þeirra af öðrum sauðum. Allir kristnir menn, hvort sem þeir eru andasmurðir eða af öðrum sauðum, vinna kappsamlega að því að prédika fagnaðarerindið og gera menn að lærisveinum undir leiðsögn hins stjórnandi ráðs. Andasmurðir menn eru fúsir til að sinna þessu verki eins lengi og það er vilji Guðs að þeir þjóni honum hér á jörð.