Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Höfuðþættir Daníelsbókar

Höfuðþættir Daníelsbókar

Orð Jehóva er lifandi

Höfuðþættir Daníelsbókar

„DANÍELSBÓK er ein forvitnilegasta bók Biblíunnar. . . . Hún er yfirfull af eilífum sannindum.“ Svo er komist að orði í handbókinni Holman Illustrated Bible Dictionary. Frásaga Daníels hefst árið 618 f.Kr. þegar Nebúkadnesar, konungur Babýlonar, sest um Jerúsalem og tekur suma af Ísraelsmönnum og flytur þá í útlegð til Babýlonar. (Daníel 1:1-3) Þeirra á meðal er Daníel sem er þá sennilega á unglingsaldri. Hann er enn þá í Babýlon þegar frásögn bókarinnar lýkur og er þá um tírætt. Hann fær þá eftirfarandi loforð frá Guði: „Þú munt hvílast og upp rísa til að taka þitt hlutskipti við endi daganna.“ — Daníel 12:13.

Daníel ritar fyrri hluta bókarinnar í tímaröð og talar um sjálfan sig í þriðju persónu. Í síðari hlutanum skiptir hann hins vegar yfir í fyrstu persónu þegar hann talar um sjálfan sig. Bókin hefur að geyma spádóma um uppgang og fall heimsvelda, um komutíma Messíasar og atburði sem eiga sér stað á okkar dögum. * Sem aldraður maður lítur spámaðurinn um öxl og segir frá atburðum sem hvetja okkur til að vera ráðvönd í þjónustu Guðs. Boðskapur Daníelsbókar er lifandi og kröftugur. — Hebreabréfið 4:12.

HVAÐ MÁ LÆRA AF FYRRI HLUTA BÓKARINNAR?

(Daníel 1:1–6:28)

Við erum stödd á árinu 617 f.Kr. Daníel og þrír ungir vinir hans, þeir Sadrak, Mesak og Abed-Negó, þjóna við hirðina í Babýlon. Þeir eru settir til þriggja ára náms í siðum og menningu Babýlonar. Allan tímann eru þeir ráðvandir Guði. Um átta árum síðar dreymir Nebúkadnesar dularfullan draum. Daníel endursegir drauminn og túlkar hann. Konungur viðurkennir að Jehóva sé „yfirguð guðanna og herra konunganna og opinberari leyndra hluta“. (Daníel 2:47) En hann virðist fljótur að gleyma þessum lærdómi. Þegar vinir Daníels neita að tilbiðja risastórt líkneski lætur konungur kasta þeim í ofurheitan eldsofn. Hinn sanni Guð bjargar þremenningunum og Nebúkadnesar neyðist til að viðurkenna að ‚enginn annar guð sé til, sem eins geti frelsað og hann‘. — Daníel 3:29.

Nebúkadnesar dreymir annan þýðingarmikinn draum. Hann sér risavaxið tré sem er höggvið niður og fjötrað svo að það geti ekki vaxið á ný. Daníel túlkar drauminn sem rætist að hluta til þegar konungur missir vitið og nær sér á ný. Áratugum síðar heldur Belsasar konungur veislu handa stórmennum sínum og sýnir þá óvirðingu að nota þar kerin sem tekin höfðu verið úr musteri Jehóva. Þessa sömu nótt er Belsasar drepinn og Daríus frá Medíu tekur við ríkinu. (Daníel 5:30, 31) Það er í stjórnartíð Daríusar sem öfundarmenn Daníels reyna að ráða hann af dögum en Jehóva bjargar honum „undan ljónunum“. Spámaðurinn er þá um nírætt. — Daníel 6:28.

Biblíuspurningar og svör:

1:11-15 — Var það grænmetisfæðinu að þakka að yfirbragð fjórmenninganna frá Júda var betra en hinna? Nei, það er ekki hægt að ná fram slíkri breytingu á tíu dögum með sérstöku mataræði. Breytingin á yfirbragði Hebreanna ungu var Jehóva að þakka því að hann blessaði þá fyrir að treysta sér. — Orðskviðirnir 10:22.

2:1 — Hvenær dreymdi Nebúkadnesar drauminn um líkneskið mikla? Í Daníelsbók kemur fram að það hafi verið „á öðru ríkisári Nebúkadnesars“. Hann tók við völdum í Babýlon árið 624 f.Kr. Annað ríkisárið hefði þá hafist árið 623 f.Kr., nokkrum árum áður en hann réðst inn í Júda. Daníel var ekki í Babýlon á þeim tíma til að ráða drauminn. Þegar hann talar um annað ríkisárið hlýtur hann þar af leiðandi að telja frá 607 f.Kr. þegar konungur Babýlonar eyddi Jerúsalem og varð heimsstjórnandi.

2:32, 39 — Að hvaða leyti var ríkið af silfri lakara gullhöfðinu og hvernig var ríkið af eiri lakara hinu sem var af silfri? Medía-Persía (silfurhluti líkneskisins) var eftirbátur Babýlonar (gullhöfuðsins) að því leyti að það naut ekki þeirrar sérstöðu að fá að vinna Júda. Í kjölfarið kom svo Grikkland sem táknað var með eiri. Grikkland stóð Medíu-Persíu að baki rétt eins og eir er lakara efni en silfur. Þótt gríska heimsveldið hafi náð yfir stærra svæði fékk það ekki þann heiður að leysa þjóð Guðs úr haldi eins og Medía-Persía gerði.

4:8, 9 — Gerðist Daníel spásagnamaður að hætti Babýloníumanna? Nei, nafngiftin „æðsti forstjóri spásagnamannanna“ lýsir einungis stöðu hans sem „æðsta forstjóra yfir öllum vitringum í Babýlon“. — Daníel 2:48.

4:10, 11, 20-22 — Hvað táknaði tréð mikla í draumi Nebúkadnesars? Í upphafi táknaði tréð Nebúkadnesar í hlutverki heimsstjórnanda. En þar eð stjórnin nær „til endimarka jarðar“ hlýtur tréð að tákna meira en það. Í Daníel 4:17 er draumurinn settur í samband við stjórn ‚Hins hæsta‘ yfir mannkyni. Tréð táknar því einnig drottinvald Jehóva yfir alheimi, einkum gagnvart jörðinni. Draumurinn uppfyllist því á tvo vegu, í sambandi við stjórn Nebúkadnesars og drottinvald Jehóva.

4:16, 23, 25, 32, 33 — Hve langar voru hinar „sjö tíðir“? Breytingarnar á útliti Nebúkadnesars voru slíkar að tíðirnar hljóta að hafa verið mun lengri en sjö dagar. Í þessu tilviki er átt við sjö ár sem talin eru 360 dagar hvert, eða alls 2520 dagar. Í meiri uppfyllingunni eru hinar „sjö tíðir“ 2520 ár. (Esekíel 4:6, 7) Þær hófust með eyðingu Jerúsalem árið 607 f.Kr. og þeim lauk þegar Jesús tók völd sem konungur á himnum árið 1914. — Lúkas 21:24.

6:6-10 — Hefði ekki verið skynsamlegt af Daníel að biðjast fyrir með leynd þessa 30 daga fyrst ekki er nauðsynlegt að vera í sérstökum stellingum til að biðja til Jehóva? Alkunna var að Daníel baðst fyrir þrisvar á dag. Það var þess vegna sem samsærismennirnir fengu þá hugmynd að láta takmarka bænahald með lögum. Ef Daníel hefði brugðið út af venju sinni varðandi bænahald hefðu aðrir getað túlkað það svo að hann hafi látið undan og það hefði mátt skilja þannig að hann sýndi ekki Jehóva óskipta hollustu.

Lærdómur:

1:3-8. Daníel og félagar hans voru ákveðnir í því að vera Jehóva trúir og það segir allt sem segja þarf um kennsluna sem þeir hljóta að hafa fengið í foreldrahúsum. Þegar guðhræddir foreldrar láta andlegu málin sitja í fyrirrúmi í lífinu og kenna börnunum að gera slíkt hið sama er mjög sennilegt að börnin standist allar freistingar og allan þrýsting sem þau verða fyrir í skólanum eða annars staðar.

1:10-12. Daníel skildi mætavel hvers vegna „hirðstjórinn“ var hræddur við konung svo að hann minntist ekki frekar á málið við hann. Í staðinn talaði hann við „tilsjónarmanninn“ sem hafði ef til vill tök á að hliðra meira til. Þegar við lendum í vandasamri aðstöðu ættum við að sýna sams konar visku og skilning.

2:29, 30. Við ættum að líkja eftir Daníel og gefa Jehóva allan heiður af þeirri þekkingu og þeim hæfileikum sem biblíufræðslan hefur veitt okkur.

3:16-18. Ólíklegt er að Hebrearnir þrír hefðu sýnt slíka sannfæringu ef þeir hefðu verið tilbúnir til að gefa eftir þegar reyndi á hollustu þeirra varðandi mataræðið. Við ættum sömuleiðis að gera okkar ýtrasta til að vera ‚trú í öllu‘. — 1. Tímóteusarbréf 3:11.

4:24-27. Daníel þurfti að sýna af sér trú og hugrekki til að segja Nebúkadnesari hvað hann ætti í vændum og benda honum á hvað hann ætti að gera til að ‚hamingja hans yrði langærri‘. Við þurfum að sýna sams konar trú og hugrekki til að boða ríki Guðs og dóma hans.

5:30, 31. ‚Háðkvæðið um konunginn í Babýlon‘ rættist. (Jesaja 14:3, 4, 12-15) Satan djöfullinn hlýtur einnig skammarleg endalok en hann er hrokafullur líkt og konungsætt Babýlonar var. — Daníel 4:30; 5:2-4, 23.

HVAÐ OPINBERA SÝNIR DANÍELS?

(Daníel 7:1–12:13)

Daníel er kominn á áttræðisaldur þegar hann sér fyrstu sýnina í draumi. Það er árið 553 f.Kr. Hann sér þá fjögur stór dýr sem tákna heimsveldin hvert af öðru frá því að hann var uppi fram á okkar daga. Fyrst sér hann inn í himininn og sér þá einhvern „sem mannssyni líktist“. Honum er gefið „eilíft vald“. (Daníel 7:13, 14) Tveim árum síðar sér Daníel sýn um Medíu-Persíu, Grikkland og ‚illúðlegan konung‘. — Daníel 8:23.

Babýlon er fallin árið 539 f.Kr. og Daríus frá Medíu tekinn við ríki Kaldea. Daníel biður til Jehóva um endurreisn ættjarðar sinnar. Hann er enn á bæn þegar Jehóva sendir Gabríel engil til hans til að veita honum „glöggan skilning“ á komu Messíasar. (Daníel 9:20-25) Tíminn líður og komið er fram á árabilið 536-535 f.Kr. Fámennur hópur Gyðinga er snúinn heim til Jerúsalem. En endurreisn musterisins mætir andstöðu og þetta veldur Daníel þungum áhyggjum. Hann leggur málið fyrir Jehóva í bæn og Jehóva sendir háttsettan engil til hans. Eftir að hafa styrkt spámanninn flytur engillinn spádóm þar sem lýst er átökum konungsins norður frá og konungsins suður frá. Átök konunganna tveggja standa allt frá því að ríki Alexanders mikla skiptist milli fjögurra hershöfðingja hans fram til þess tíma þegar Míkael, hinn mikli verndarengill, gengur fram. — Daníel 12:1.

Biblíuspurningar og svör:

8:9 — Hvað táknar „prýði landanna“? Í þessu tilfelli er átt við jarðneskt ástand andasmurðra kristinna manna á valdatíma ensk-ameríska heimsveldisins.

8:25 — Hver er ‚höfðingi höfðingjanna‘? Hebreska orðið sar, sem er þýtt „höfðingi“, merkir „foringi“ eða „sá sem er æðstur“. Titillinn ‚höfðingi höfðingjanna‘ á aðeins við Jehóva Guð en hann er yfir öllum englahöfðingjum, þeirra á meðal Míkael sem er „einn af fremstu verndarenglunum“. — Daníel 10:13.

9:21 — Af hverju talar Daníel um Gabríel engil sem ‚manninn‘? Það kemur til af því að Gabríel birtist í mannsmynd eins og hann hafði birst Daníel áður. — Daníel 8:15-17.

9:27 — Hvaða sáttmáli var ‚fastur‘ þangað til sjötugustu áravikunni lauk árið 36? Lagasáttmálinn féll úr gildi árið 33 þegar Jesús var tekinn af lífi. En með því að láta Abrahamssáttmálann vera í gildi gagnvart Ísraelsmönnum fram til ársins 36 sýndi Jehóva Gyðingum sérstaka velvild enn um sinn vegna þess að þeir voru afkomendur Abrahams. Abrahamssáttmálinn er enn í gildi gagnvart „Ísrael Guðs“. — Galatabréfið 3:7-9, 14-18, 29; 6:16.

Lærdómur:

9:1-23; 10:11. Daníel er kallaður „ástmögur Guðs“ vegna auðmýktar sinnar, guðrækni, ástundunarsemi og bænrækni. Þessir eiginleikar hjálpuðu honum að vera Guði trúr allt til dauðadags. Verum staðráðin í að líkja eftir dæmi Daníels.

9:17-19. Þegar við biðjum þess að nýr heimur Guðs, „þar sem réttlæti býr“, gangi í garð ættum við að leggja meiri áherslu á að nafn Jehóva og drottinvald hans verði réttlætt heldur en að okkar eigin þjáningar og erfiðleikar taki enda. — 2. Pétursbréf 3:13.

10:9-11, 18, 19. Við ættum að rétta hvert öðru hjálparhönd, hughreysta, styrkja og hvetja líkt og engillinn sem kom til Daníels.

12:3. „Hinir vitru,“ það er að segja hinir andasmurðu, hafa ‚skinið eins og ljós‘ núna á síðustu dögum og „leitt . . . marga til réttlætis“. Þeirra á meðal er „mikill múgur“ af ‚öðrum sauðum‘. (Filippíbréfið 2:15; Opinberunarbókin 7:9; Jóhannes 10:16) Í þúsundáraríkinu skína hinir andasmurðu í fyllsta skilningi ‚eins og stjörnurnar‘ en þá vinna þeir að því með Kristi að miðla hlýðnum mönnum á jörðinni af gæðum lausnarfórnarinnar. ‚Aðrir sauðir‘ ættu að styðja hina andasmurðu með ráðum og dáð.

Jehóva ‚blessar þá sem óttast hann‘

Hvað kennir Daníelsbók um þann Guð sem við dýrkum? Spádómar hennar hafa sumir uppfyllst en aðrir eiga það eftir og þeir draga skýrt fram að Jehóva lætur orð sín alltaf rætast. — Jesaja 55:11.

Hvaða mynd er dregin upp af Guði í frásögn Daníelsbókar? Hebresku unglingarnir fjórir, sem neituðu að samlaga sig hirðinni í Babýlon, fengu alls konar „kunnáttu og skilning“. (Daníel 1:17) Hinn sanni Guð sendi engil sinn til að bjarga Sadrak, Mesak og Abed-Negó úr eldsofninum. Daníel var frelsaður úr ljónagryfjunni. Jehóva er „hjálp . . . og skjöldur“ þeirra sem óttast hann og hann blessar þá. — Sálmur 115:9, 13.

[Neðanmáls]

^ gr. 2 Farið er vers fyrir vers yfir Daníelsbók í bókinni Gefðu gaum að spádómi Daníelsbókar, gefin út af Vottum Jehóva.

[Mynd á blaðsíðu 18]

Af hverju var Daníel kallaður „ástmögur Guðs“?