Jakobsbréfið 3:1–18

  • Að temja tunguna (1–12)

    • Það ættu ekki allir að verða kennarar (1)

  • Viskan sem kemur ofan að (13–18)

3  Þið ættuð ekki allir að verða kennarar, bræður mínir, því að þið vitið að við fáum þyngri* dóm.  Við hrösum allir* margsinnis. Ef einhver hrasar ekki í orði er hann fullkominn maður og fær um að hafa taumhald á öllum líkama sínum.  Ef við setjum beisli í munn hestanna til að þeir hlýði okkur stýrum við líka öllum líkama þeirra.  Lítið einnig á skipin: Þótt þau séu stór og mikil og knúin áfram af sterkum vindum er þeim stýrt með mjög litlu stýri, hvert sem stýrimaðurinn vill fara.  Þannig er líka tungan lítil miðað við líkamann en er samt býsna stærilát. Hugsið ykkur hve lítinn eld þarf til að kveikja í stórum skógi.  Tungan er líka eldur. Hún er heill heimur ranglætis meðal lima líkamans því að hún flekkar allan líkamann, kveikir í allri tilverunni* og er sjálf tendruð af Gehenna.*  Hægt er að temja alls konar villidýr, fugla, skriðdýr og sjávardýr og mennirnir hafa tamið þau.  En enginn maður getur tamið tunguna. Hún er óstýrilát og skaðleg, full af banvænu eitri.  Með henni lofum við Jehóva,* föðurinn, en með henni formælum við líka mönnum sem eru gerðir „eftir mynd Guðs“. 10  Af sama munni kemur blessun og bölvun. Bræður mínir, slíkt á ekki að eiga sér stað. 11  Rennur bæði ferskt* og beiskt vatn úr sömu lindinni? 12  Bræður mínir, geta ólífur vaxið á fíkjutré eða fíkjur á vínviði? Ekki rennur heldur ferskt vatn úr saltri lind. 13  Hver er vitur og skynsamur á meðal ykkar? Hann ætti að hegða sér vel og sýna þannig með verkum sínum að hann búi yfir hógværð* sem er sprottin af visku. 14  En ef þið eruð afbrýðisamir og þrætugjarnir* í hjörtum ykkar skuluð þið ekki stæra ykkur og ljúga gegn sannleikanum. 15  Sú viska kemur ekki ofan að heldur er hún jarðnesk, holdleg og djöfulleg 16  því að alls staðar þar sem er afbrýðisemi og þrætugirni* verður líka upplausn og alls konar illska. 17  En viskan sem kemur ofan að er fyrst og fremst hrein, síðan friðsöm, sanngjörn, fús til að hlýða, full miskunnar og góðra ávaxta, óhlutdræg og hræsnislaus. 18  Og réttlætið ber ávöxt þegar því er sáð við friðsæl skilyrði handa* þeim sem stuðla að friði.

Neðanmáls

Eða „strangari“.
Eða „gerum allir mistök“.
Orðrétt „hjóli fæðingarinnar (upphafsins)“.
Sjá orðaskýringar.
Sjá orðaskýringar.
Orðrétt „sætt“.
Eða „mildi“.
Eða hugsanl. „metnaðargjarnir“.
Eða hugsanl. „metnaðargirni“.
Eða hugsanl. „af“.