Bréfið til Rómverja 11:1–36

  • Ísrael ekki hafnað með öllu (1–16)

  • Líking um ólífutré (17–32)

  • Djúpstæð viska Guðs (33–36)

11  Nú spyr ég: Hefur Guð þá hafnað fólki sínu? Alls ekki. Ég er sjálfur Ísraelsmaður, afkomandi Abrahams og af ættkvísl Benjamíns.  Guð hafnaði ekki fólki sínu sem hann viðurkenndi í upphafi. Vitið þið ekki hvað segir í Ritningunni um Elía þegar hann ákærir Ísrael í innilegri bæn til Guðs?  „Jehóva,* þeir hafa drepið spámenn þína og rifið niður ölturu þín. Ég er einn eftir og nú sitja þeir um líf* mitt.“  En hverju svaraði Guð honum? „Ég á enn þá 7.000 menn sem hafa ekki kropið fyrir Baal.“  Núna er sömuleiðis eftir lítill hópur manna sem Guð valdi af einstakri góðvild sinni.  Fyrst þeir voru valdir sökum einstakrar góðvildar var það ekki vegna verka. Annars væri hin einstaka góðvild ekki einstök góðvild.  Hvað þýðir þetta? Ísraelsmenn fengu ekki það sem þeir sóttust svo ákaft eftir en þeir útvöldu fengu það. Hinir urðu skilningssljóir  eins og skrifað er: „Guð hefur svæft þá djúpum andlegum svefni, gefið þeim augu sem sjá ekki og eyru sem heyra ekki allt fram á þennan dag.“  Og Davíð segir: „Borðhald þeirra verði þeim snara og gildra, hrösunarhella og til refsingar. 10  Augu þeirra myrkvist svo að þeir sjái ekki og gangi þeir alltaf bognir í baki.“ 11  Ég spyr því: Hrösuðu þeir svo illa að þeir féllu flatir? Alls ekki. En þar sem þeir misstigu sig getur fólk af þjóðunum bjargast og það vekur afbrýði Ísraels. 12  Ef hrösun þeirra færir heiminum auð og afturför þeirra auðgar fólk af þjóðunum þá verður auðurinn enn meiri þegar tölu þeirra er náð. 13  Nú tala ég til ykkar sem eruð af þjóðunum. Ég er postuli meðal þjóðanna og sýni að ég met þjónustu mína mikils* 14  því að ég vona að ég geti á einn eða annan hátt vakið afbrýði ættmanna minna og orðið einhverjum þeirra til bjargar. 15  Guð hafnaði þeim og við það opnaðist leið fyrir heiminn til að sættast við hann. Hvað gerist þá þegar Guð tekur aftur við þeim, annað en að þeir lifna frá dauðum? 16  Ef sá hluti deigsins sem er frumgróðafórn er heilagur þá er allt deigið heilagt, og ef rótin er heilög eru greinarnar það líka. 17  En þótt sumar greinarnar hafi verið brotnar af og þú sem ert villiólífuviður hafir verið græddur inn á meðal hinna greinanna og fengið hlutdeild í rótarsafa ólífutrésins 18  skaltu ekki líta niður á þær.* En ef þú gerir það* skaltu muna að þú berð ekki rótina heldur rótin þig. 19  Þú segir kannski: „Greinar voru brotnar af til að hægt væri að græða mig á tréð.“ 20  Rétt er það. Þær voru brotnar af vegna þess að þær voru vantrúaðar en þú stendur stöðugur vegna trúar. Vertu ekki stoltur heldur gættu þín. 21  Fyrst Guð þyrmdi ekki náttúrulegu greinunum mun hann ekki heldur þyrma þér. 22  Taktu eftir að Guð er bæði góður og strangur. Hann er strangur við þá sem féllu en góður við þig, svo framarlega sem þú verðskuldar áfram góðvild hans. Annars verður þú líka höggvinn af. 23  Og ef þeir láta af vantrú sinni verða þeir líka græddir á tréð því að Guð getur grætt þá aftur á. 24  Þú varst höggvinn af ólífutré sem er villt að eðli til og græddur á ræktaða ólífutréð gagnstætt eðli náttúrunnar. Fyrst svo er hlýtur að vera hægt að græða náttúrulegu greinarnar aftur á sitt eigið ólífutré. 25  Ég vil, bræður og systur, að þið vitið um þennan heilaga leyndardóm til að þið verðið ekki vitur í eigin augum: Nokkur hluti Ísraels er orðinn skilningssljór og það varir þangað til tölu fólks af þjóðunum er náð. 26  Þannig bjargast allur Ísrael eins og skrifað er: „Bjargvætturinn* kemur frá Síon og snýr Jakobi frá óguðlegum verkum. 27  Og þegar ég fjarlægi syndir þeirra geri ég sáttmála við þá.“ 28  Þeir hafa vissulega hafnað fagnaðarboðskapnum og eru þar með óvinir Guðs, en það er ykkur til góðs. Guð valdi þó suma þeirra og elskar þá vegna þess sem hann lofaði forfeðrum þeirra. 29  Guð sér ekki eftir gjöfum sínum og köllun. 30  Þið voruð einu sinni óhlýðin Guði en ykkur hefur nú verið miskunnað vegna óhlýðni Gyðinga. 31  Þeir voru sem sagt óhlýðnir og það varð til þess að ykkur var miskunnað. Þar af leiðandi er líka hægt að miskunna þeim núna. 32  Guð hefur látið alla menn vera í fjötrum óhlýðninnar til að geta sýnt þeim öllum miskunn. 33  Hve ríkuleg er ekki blessun Guðs og djúpstæð viska hans og þekking! Dómar hans eru ofar okkar skilningi og vegir hans órekjandi. 34  „Hver hefur kynnst huga Jehóva* og hver hefur verið ráðgjafi hans?“ 35  Eða „hver hefur að fyrra bragði gefið honum svo að hann þurfi að endurgjalda það?“ 36  Allt er frá honum og allt er til vegna hans og fyrir hann. Honum sé dýrðin að eilífu. Amen.

Neðanmáls

Sjá orðaskýringar.
Eða „sál“.
Eða „og heiðra þjónustu mína“.
Eða „stæra þig gegn þeim“.
Eða „stærir þig gegn þeim“.
Eða „Frelsarinn“.
Sjá orðaskýringar.