Lúkas segir frá 11:1–54

  • Að biðja bæna (1–13)

    • Fyrirmynd að bæn (2–4)

  • Illir andar reknir út með fingri Guðs (14–23)

  • Óhreinn andi snýr aftur (24–26)

  • Sönn hamingja (27, 28)

  • Tákn Jónasar (29–32)

  • Lampi líkamans (33–36)

  • Illa fer fyrir trúarhræsnurum (37–54)

11  Nú var Jesús á stað nokkrum að biðjast fyrir. Þegar hann lauk bæninni sagði einn lærisveinanna við hann: „Drottinn, kenndu okkur að biðja eins og Jóhannes kenndi lærisveinum sínum.“  Hann sagði við þá: „Þegar þið biðjið skuluð þið segja: ‚Faðir, við biðjum að nafn þitt helgist.* Láttu ríki þitt koma.  Gefðu okkur daglega það brauð sem við þurfum hvern dag.  Fyrirgefðu syndir okkar því að við fyrirgefum líka öllum sem skulda okkur. Og leiddu okkur ekki í freistingu.‘“*  Síðan sagði hann: „Segjum að einhver ykkar eigi vin og fari til hans um miðja nótt og segi við hann: ‚Vinur, lánaðu mér þrjú brauð  því að vinur minn er á ferðalagi og er nýkominn til mín en ég á ekkert til að bjóða honum.‘  Hinn svarar inni: ‚Hættu að ónáða mig. Það er búið að læsa dyrunum og börnin og ég erum komin í rúmið. Ég get ekki farið á fætur til að gefa þér brauð.‘  Ég segi ykkur að þótt hann fari ekki á fætur og gefi honum brauð vegna vináttu þeirra fer hann samt fram úr vegna ágengni hans og gefur honum það sem hann þarf.  Því segi ég ykkur: Haldið áfram að biðja og ykkur verður gefið, haldið áfram að leita og þið munuð finna, haldið áfram að banka og það verður opnað fyrir ykkur, 10  því að allir fá sem biðja, allir finna sem leita og opnað verður fyrir öllum sem banka. 11  Myndi nokkur faðir á meðal ykkar gefa syni sínum höggorm ef hann bæði um fisk? 12  Eða myndi hann gefa honum sporðdreka ef hann bæði um egg? 13  Fyrst þið, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum ykkar góðar gjafir hlýtur faðirinn á himnum miklu frekar að gefa þeim heilagan anda sem biðja hann.“ 14  Síðar rak Jesús út illan anda sem olli málleysi hjá manni nokkrum. Eftir að illi andinn var farinn út gat mállausi maðurinn talað og fólkið undraðist mjög. 15  En sumir sögðu: „Hann rekur út illu andana með hjálp Beelsebúls,* höfðingja illu andanna.“ 16  Aðrir vildu reyna hann og heimtuðu að hann gæfi þeim tákn af himni. 17  Hann vissi hvað þeir hugsuðu og sagði við þá: „Hvert það ríki sem er sundrað líður undir lok og hver sú fjölskylda sem er sundruð leysist upp. 18  Ef Satan hefur snúist gegn sjálfum sér hvernig getur ríki hans þá staðist? Þið segið að ég reki illu andana út með hjálp Beelsebúls. 19  Ef ég rek út illu andana með hjálp Beelsebúls, hver hjálpar þá fylgjendum* ykkar að reka þá út? Þeir skulu því dæma ykkur. 20  En ef ég rek út illu andana með fingri Guðs þá er ríki Guðs komið, ykkur að óvörum. 21  Þegar sterkur og vel vopnaður maður gætir hallar sinnar eru eigur hans óhultar. 22  En þegar annar honum sterkari ræðst á hann og sigrar hann tekur sá öll vopnin sem hinn treysti á og deilir út því sem hann tekur frá honum. 23  Hver sem stendur ekki með mér er á móti mér og hver sem safnar ekki saman með mér, hann tvístrar. 24  Þegar óhreinn andi fer út af manni flakkar hann um þurrar auðnir í leit að hvíldarstað og þegar hann finnur engan segir hann: ‚Ég fer aftur í hús mitt sem ég flutti úr.‘ 25  Hann kemur þangað og finnur það sópað og skreytt. 26  Hann fer þá og tekur með sér sjö aðra anda sem eru verri en hann sjálfur. Þeir fara inn og setjast þar að svo að maðurinn er enn verr staddur en í upphafi.“ 27  Þegar hann sagði þetta kallaði kona meðal mannfjöldans til hans: „Hamingjusöm er sú móðir sem gekk með þig og gaf þér brjóst.“ 28  En hann sagði: „Nei, þeir sem heyra orð Guðs og fara eftir því, þeir eru hamingjusamir.“ 29  Þegar fólkið þyrptist að sagði hann: „Þessi kynslóð er vond kynslóð. Hún heimtar tákn en hún fær ekkert annað en tákn Jónasar. 30  Eins og Jónas varð tákn fyrir Nínívebúa þannig verður Mannssonurinn tákn fyrir þessa kynslóð. 31  Drottningin í suðri verður reist upp í dóminum ásamt fólki af þessari kynslóð og sakfellir það því að hún kom frá endimörkum jarðar til að hlusta á visku Salómons. En hér er meira en Salómon. 32  Nínívemenn rísa upp í dóminum ásamt þessari kynslóð og dæma hana seka því að boðun Jónasar varð til þess að þeir iðruðust. En hér er meira en Jónas. 33  Sá sem kveikir á lampa fer ekki með hann í felur eða setur hann undir körfu* heldur á ljósastand svo að þeir sem koma inn sjái ljósið. 34  Augað er lampi líkamans. Þegar augað sér skýrt* er allur líkami þinn bjartur.* En þegar það beinist að hinu illa* er líkami þinn dimmur. 35  Gættu því þess að ljósið í þér sé ekki myrkur. 36  Ef allur líkami þinn er bjartur og ekkert myrkur er í honum verður hann allur eins bjartur og þegar lampi lýsir þér.“ 37  Eftir að hann hafði sagt þetta bauð farísei nokkur honum til sín í mat. Hann fór inn til hans og lagðist til borðs. 38  En faríseinn furðaði sig á að hann skyldi ekki þvo sér* fyrir matinn. 39  Drottinn sagði þá við hann: „Þið farísear, þið hreinsið bikarinn og diskinn að utan en að innan eruð þið fullir græðgi og illsku. 40  Þið óskynsömu menn! Hefur ekki sá sem gerði hið ytra einnig gert hið innra? 41  Þegar þið gefið fátækum gjafir* á það að koma innan frá og þá verðið þið hreinir að öllu öðru leyti. 42  En illa fer fyrir ykkur, farísear, því að þið gefið tíund af myntu og rúðu og öllum öðrum kryddjurtum* en skeytið ekki um réttlæti og kærleika til Guðs. Ykkur var skylt að gjalda tíundina en þið áttuð ekki að sleppa hinu. 43  Illa fer fyrir ykkur, farísear, því að þið njótið þess að sitja í fremstu* sætunum í samkunduhúsum og láta heilsa ykkur á torgunum. 44  Illa fer fyrir ykkur því að þið eruð eins og grafir* sem sjást illa* og menn ganga yfir án þess að vita það.“ 45  Löglærður maður sagði þá við hann: „Kennari, þú misbýður okkur líka með því sem þú segir.“ 46  Jesús svaraði: „Illa fer fyrir ykkur líka, þið löglærðu, því að þið íþyngið mönnum með þungum byrðum en sjálfir snertið þið þær ekki einum fingri. 47  Illa fer fyrir ykkur því að þið hlaðið upp grafir* spámannanna sem forfeður ykkar drápu. 48  Þið vitið mætavel hvað forfeður ykkar gerðu en þið látið ykkur það vel líka. Þeir drápu spámennina og þið hlaðið upp grafir þeirra. 49  Þess vegna sagði Guð í visku sinni: ‚Ég mun senda þeim spámenn og postula og þeir munu drepa og ofsækja suma þeirra. 50  Þessi kynslóð verður því gerð ábyrg fyrir* blóði allra spámanna sem hefur verið úthellt frá grundvöllun heims, 51  frá blóði Abels til blóðs Sakaría sem var drepinn milli altarisins og musterisins.‘* Já, ég segi ykkur að þessi kynslóð verður gerð ábyrg fyrir því.* 52  Illa fer fyrir ykkur, þið löglærðu, því að þið hafið fjarlægt lykil þekkingarinnar. Sjálfir hafið þið ekki gengið inn og þið aftrið þeim að komast inn sem eru á leiðinni!“ 53  Hann fór út þaðan og fræðimennirnir og farísearnir gengu þá hart að honum og létu spurningarnar dynja á honum. 54  Þeir sátu fyrir honum til að reyna að hanka hann á einhverju sem hann segði.

Neðanmáls

Eða „verði upphafið; verði virt sem heilagt“.
Eða „leyfðu ekki að við látum undan freistingu“.
Heiti sem er notað um Satan.
Orðrétt „sonum“.
Eða „mæliker“.
Eða „augað beinist að einu“. Orðrétt „er einfalt“.
Eða „upplýstur“.
Eða „er öfundsjúkt“. Orðrétt „er illt“.
Það er, þvo sér eftir helgisiðareglum Gyðinga.
Eða „gefið miskunnargjafir“. Sjá orðaskýringar.
Eða „öllu öðru grænmeti“.
Eða „bestu“.
Eða „minningargrafir“.
Eða „eins og ómerktar grafir“.
Eða „minningargrafir“.
Eða „verður því krafin um“.
Orðrétt „hússins“.
Eða „verður krafin um það“.