Lúkas segir frá 4:1–44

  • Djöfullinn freistar Jesú (1–13)

  • Jesús byrjar boðun í Galíleu (14, 15)

  • Jesú hafnað í Nasaret (16–30)

  • Í samkunduhúsinu í Kapernaúm (31–37)

  • Jesús læknar tengdamóður Símonar og fleiri (38–41)

  • Fólk finnur Jesú á óbyggðum stað (42–44)

4  Jesús yfirgaf síðan Jórdan, fullur af heilögum anda, og andinn leiddi hann um óbyggðina  í 40 daga og Djöfullinn freistaði hans. Hann borðaði ekkert þessa daga og var í lokin orðinn sársvangur.  Djöfullinn sagði þá við hann: „Ef þú ert sonur Guðs segðu þá þessum steini að verða að brauði.“  En Jesús svaraði: „Skrifað stendur: ‚Maðurinn lifir ekki aðeins á brauði.‘“  Djöfullinn fór þá með hann og sýndi honum á augabragði öll ríki jarðar.  Þá sagði Djöfullinn við hann: „Ég skal gefa þér vald yfir öllum þessum ríkjum og dýrð þeirra því að mér hefur verið fengið það og ég gef það hverjum sem ég vil.  Ef þú tilbiður mig einu sinni færðu allt þetta.“  Jesús svaraði honum: „Skrifað stendur: ‚Þú skalt tilbiðja Jehóva* Guð þinn og honum einum skaltu veita heilaga þjónustu.‘“  Þá fór Djöfullinn með hann inn í Jerúsalem, setti hann upp á virkisvegg* musterisins og sagði við hann: „Ef þú ert sonur Guðs kastaðu þér þá fram af, 10  því að skrifað stendur: ‚Hann sendir engla sína til að vernda þig,‘ 11  og: ‚Þeir munu bera þig á höndum sér til að þú hnjótir ekki um stein.‘“ 12  Jesús svaraði honum: „Sagt er: ‚Þú skalt ekki ögra Jehóva* Guði þínum.‘“ 13  Þá hætti Djöfullinn að freista hans, fór frá honum og beið færis að freista hans síðar. 14  Jesús sneri nú aftur til Galíleu í krafti andans og það fréttist af góðum verkum hans um allt svæðið í kring. 15  Hann fór að kenna í samkunduhúsunum og allir lofuðu hann. 16  Hann kom nú til Nasaret þar sem hann hafði alist upp. Hann fór í samkunduhúsið á hvíldardegi eins og hann var vanur og stóð upp til að lesa. 17  Honum var fengin bókrolla Jesaja spámanns, og hann opnaði hana og fann staðinn þar sem stendur skrifað: 18  „Andi Jehóva* er yfir mér því að hann smurði mig til að flytja fátækum fagnaðarboðskap. Hann sendi mig til að boða að fangar fái frelsi og blindir sjón, að leysa undirokaða úr ánauð 19  og boða þann tíma þegar fólk nýtur velvildar Jehóva.“* 20  Að svo búnu rúllaði hann bókrollunni upp, afhenti þjóninum hana og settist niður en allir í samkunduhúsinu horfðu eftirvæntingarfullir á hann. 21  Þá sagði hann: „Í dag hefur ræst þessi ritningarstaður sem þið heyrðuð.“ 22  Allir töluðu lofsamlega um hann og undruðust hrífandi orð hans. „Er þetta ekki sonur Jósefs?“ sögðu þeir. 23  En hann sagði við þá: „Þið munuð eflaust heimfæra upp á mig það sem máltækið segir: ‚Læknir, læknaðu sjálfan þig,‘ og bæta við: ‚Við höfum heyrt um það sem þú gerðir í Kapernaúm. Gerðu nú það sama hér í heimabyggð þinni.‘“ 24  Síðan sagði hann: „Trúið mér, engum spámanni er vel tekið í heimabyggð sinni. 25  Það segi ég ykkur satt að margar ekkjur voru í Ísrael á dögum Elía þegar himinninn var lokaður í þrjú ár og sex mánuði og mikil hungursneyð varð í öllu landinu. 26  Elía var þó ekki sendur til neinnar þeirra heldur aðeins til ekkju í Sarefta í Sídonlandi. 27  Sömuleiðis voru margir holdsveikir í Ísrael á dögum Elísa spámanns en þó var enginn þeirra læknaður* heldur aðeins Naaman Sýrlendingur.“ 28  Allir í samkunduhúsinu reiddust heiftarlega þegar þeir heyrðu þetta, 29  spruttu á fætur, hröktu hann út úr borginni fram á brún fjallsins þar sem hún stóð og ætluðu að henda honum fram af. 30  En hann gekk mitt í gegnum mannþröngina og fór sína leið. 31  Hann hélt síðan niður til Kapernaúm sem er borg í Galíleu. Hann kenndi þar á hvíldardegi 32  og fólk var agndofa yfir kennslu hans því að hann talaði eins og sá sem hefur vald. 33  Í samkunduhúsinu var maður haldinn óhreinum illum anda og hann hrópaði hárri röddu: 34  „Ó, nei! Hvað viltu okkur, Jesús frá Nasaret? Ertu kominn til að tortíma okkur? Ég veit vel hver þú ert, hinn heilagi sem er sendur af Guði.“ 35  En Jesús ávítaði andann og sagði: „Þegi þú og farðu út af honum.“ Illi andinn slengdi honum í gólfið fyrir framan þá og fór út af honum án þess að verða honum að meini. 36  Allir voru furðu lostnir og sögðu sín á milli: „Heyrið hvernig hann talar! Með valdi og krafti skipar hann óhreinu öndunum fyrir og þeir fara út!“ 37  Og fréttirnar af honum bárust út um allt svæðið í kring. 38  Jesús yfirgaf nú samkunduhúsið og fór heim til Símonar. Tengdamóðir Símonar var með háan hita og þeir báðu hann að hjálpa henni. 39  Hann beygði sig yfir hana, skipaði hitanum að hverfa frá henni og hitinn hvarf. Hún fór samstundis á fætur og fór að matbúa handa þeim. 40  En um sólsetur komu allir sem voru með sjúklinga á sínum vegum með þá til Jesú. Þeir voru haldnir ýmsum sjúkdómum en hann lagði hendur yfir hvern og einn og læknaði þá. 41  Einnig fóru illir andar út af mörgum og æptu: „Þú ert sonur Guðs.“ En hann ávítaði þá og bannaði þeim að tala því að þeir vissu að hann var Kristur. 42  Snemma næsta morgun fór hann burt á óbyggðan stað. En fólkið fór að leita að honum* og fann hann. Það reyndi að telja hann á að fara ekki 43  en hann sagði: „Ég þarf líka að flytja öðrum borgum fagnaðarboðskapinn um ríki Guðs því að til þess var ég sendur.“ 44  Hann hélt því áfram og boðaði fagnaðarboðskapinn í samkunduhúsunum í Júdeu.

Neðanmáls

Sjá orðaskýringar.
Eða „brjóstrið; efstu brún“.
Sjá orðaskýringar.
Sjá orðaskýringar.
Sjá orðaskýringar.
Eða „hreinsaður“.
Eða „fólkið elti hann uppi“.