Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Getur Biblían hjálpað þér að sigrast á eiturlyfjafíkn?

Getur Biblían hjálpað þér að sigrast á eiturlyfjafíkn?

 Á hverju ári deyja milljónir manna beint eða óbeint af völdum vímuefna, þar með talinna eiturlyfja. Þetta varð enn stærra vandamál í COVID-19 faraldrinum. Viska Biblíunnar hefur hjálpað mörgum að sigrast á eiturlyfjafíkn. Ef þú glímir við þetta vandamál getur þessi viska líka hjálpað þér. a

Í þessari grein

 Hvers vegna ættum við að leita hjálpar í Biblíunni til að sigrast á fíkn?

 Rannsóknir hafa leitt í ljós að fíkn stafi oft af djúpstæðum vandamálum eins og einmanaleika, streitu, kvíða og þunglyndi. Biblían getur hjálpað þér að byggja upp þá trú sem þú þarft til að takast á við vandamál sem geta leitt til fíknar. Hún sýnir að við getum átt náið vináttusamband við Guð. (Sálmur 25:14) Með hjálp hans geturðu sigrast á vandamálum sem virðist kannski ómögulegt að takast á við sjálfur. – Markús 11:22–24.

 Fjögur ráð úr Biblíunni til að sigrast á fíkn

  1.  1. Kynnstu Jehóva Guði. b (Jóhannes 17:3) Hann er skaparinn og uppspretta ótakmarkaðs máttar. Og þar að auki er hann kærleiksríkur faðir þinn á himnum. Hann vill eiga náið samband við þig og nota mátt sinn í þína þágu. (Jesaja 40:29–31; Jakobsbréfið 4:8) Ef þú þiggur kærleikann frá honum lofar hann þér dásamlegri framtíð. – Jeremía 29:11; Jóhannes 3:16.

  2.  2. Biddu Jehóva um hjálp. Leitaðu til Guðs í bæn og biddu hann að hjálpa þér að sigrast á fíkn þinni svo að þú getir verið ,heilög [eða hrein] fórn sem hann hefur velþóknun á‘. (Rómverjabréfið 12:1) Hann mun gefa þér ,kraft sem er ofar mannlegum mætti‘ með heilögum anda sínum, eða starfskrafti. (2. Korintubréf 4:7; Lúkas 11:13) Þessi kraftur hjálpar þér að hætta að neyta eiturlyfja og rækta ,hinn nýja mann‘ í samræmi við vilja Guðs. – Kólossubréfið 3:9, 10.

  3.  3. Fylltu hugann að hugsunum Guðs. (Jesaja 55:9) Hann hjálpar þér að „endurnýja hugsunarhátt“ þinn, eða breyta því hvernig þú hugsar, en það hjálpar þér að slíta þig frá fíkninni. (Efesusbréfið 4:23) Hugsunum Guðs er lýst í Biblíunni og það er því mikilvægt að lesa reglulega í henni. (Sálmur 1:1–3) Margir hafa haft gagn af því að fá hjálp við að skilja það sem Biblían kennir. (Postulasagan 8:30, 31) Vottar Jehóva bjóða ókeypis biblíunámskeið. Við bjóðum þér líka að sækja samkomur okkar þar sem við rannsökum það sem Biblían segir og hvernig við getum heimfært kenningar hennar upp á líf okkar.

  4.  4. Veldu góðan félagsskap. Vinir þínir geta haft sterk áhrif á þig og annað hvort gert þér auðveldara eða erfiðara fyrir að sigrast á fíkninni. (Orðskviðirnir 13:20) Þú getur fundið góða vini meðal þeirra sem þjóna Guði. Hann veit að það er þér til góðs að eiga slíka vini. (Sálmur 119:63; Rómverjabréfið 1:12) Vandaðu líka valið á afþreyingarefni þar sem þú ert í rauninni að umgangast persónurnar sem þú horfir á, hlustar á eða lest um. Forðastu allt sem gerir þér erfiðara fyrir að gera það sem er rétt. – Sálmur 101:3; Amos 5:14.

 Biblíuvers sem geta hjálpað þér að sigrast á fíkn

 Sálmur 27:10: „Jafnvel þótt faðir minn og móðir yfirgæfu mig tæki Jehóva mig að sér.“

 „Ég þekkti aldrei kynföður minn og það fyllti mig tómleika. Þegar ég kynntist Jehóva Guði sem raunverulegri persónu sem elskaði mig fann ég tilgang í lífinu og gat sigrast á fíkninni.“ – Wilby frá Haítí.

 Sálmur 50:15: „Kallaðu á mig á erfiðum tímum, ég bjarga þér.“

 „Þetta vers gaf mér oft styrk til að gefast ekki upp, jafnvel eftir að hafa fallið. Jehóva stóð við loforð sitt.“ – Serhíj frá Úkraínu.

 Orðskviðirnir 3:5, 6: „Treystu Jehóva af öllu hjarta og reiddu þig ekki á eigin vitsmuni. Hafðu hann alltaf með í ráðum, þá mun hann greiða götu þína.“

 „Þessi vers hjálpuðu mér að treysta Jehóva en ekki sjálfum mér. Með krafti frá honum gat ég snúið lífi mínu algerlega við.“ – Michele frá Ítalíu.

 Jesaja 41:10: „Vertu ekki hræddur því að ég er með þér. Hafðu ekki áhyggjur því að ég er Guð þinn. Ég styrki þig, ég hjálpa þér, ég styð þig með hægri hendi réttlætis míns.“

 „Ég fann fyrir miklum kvíða þegar ég komst ekki í eiturlyf. Þetta vers sannfærði mig um að Guð myndi hjálpa mér að sigrast á kvíðanum, og hann gerði það.“ – Andy frá Suður-Afríku.

 1. Korintubréf 15:33, neðanmáls: „Látið ekki blekkjast. Vondur félagsskapur spillir góðu siðferði.“

 „Vondur félagsskapur kynnti mig fyrir eiturlyfjum og leiddi mig út í fíkn. Ég gat aðeins sagt skilið við eiturlyfin eftir að ég sleit samskipti við þennan félagsskap og vingaðist við hreint fólk sem hafði aðdáunarverðan lífsstíl.“ – Isaac frá Kenía.

 2. Korintubréf 7:1: ,Við skulum hreinsa okkur af öllu sem óhreinkar líkama og huga.‘

 „Þetta hvatti mig til að gefast ekki upp í baráttunni við að hreinsa líkama minn og segja skilið við fíknina og sjálfsskaðann.“ – Rosa frá Kólumbíu.

 Filippíbréfið 4:13: „Ég get tekist á við hvað sem er vegna hans sem gefur mér kraft.“

 „Ég vissi að ég væri ekki nógu sterk sjálf til að hætta að neyta eiturlyfja þannig að ég bað um hjálp Guðs. Hann gaf mér þann styrk sem ég þurfti.“ – Patrizia frá Ítalíu.

 Fleiri reynslusögur: Að sigrast á fíkn með hjálp Biblíunnar

 Joseph Ehrenbogen ólst upp við ofbeldi og varð háður áfengi, tóbaki, marijúana og heróíni. Oftar en einu sinni dó hann næstum úr of stórum skammti. Það var einn ritningarstaður sem fullvissaði hann sérstaklega um að hann gæti breytt sér. Lestu söguna hans í greininni „Ég lærði að bera virðingu fyrir konum og sjálfum mér“.

 Dmítríj Korshúnov féll oft í sama farið þegar hann reyndi að sigrast á áfengisfíkn. Horfðu á myndbandið „Ég var mjög óhamingjusamur“ til að sjá hvað hjálpaði honum að ná árangri.

 Bannar Biblían læknismeðferð við fíkn?

 Nei. Biblían viðurkennir: „Heilbrigðir þurfa ekki á lækni að halda heldur þeir sem eru veikir.“ (Matteus 9:12) Og í bæklingi sem er gefinn út af bandarískri stofnun sem berst gegn eiturlyfjaneyslu segir: „Eiturlyfjafíkn er flókinn sjúkdómur og það þarf yfirleitt meira en bara góðan ásetning eða sterkan vilja til að hætta.“ Auðvitað er hjálpin sem Guð gefur langtum sterkari en viljastyrkur manns. En samt sem áður hafa margir sem vinna bug á eiturlyfjafíkn með því að fylgja ráðum Biblíunnar líka þurft að fá læknismeðferð. c Maður að nafni Allen segir til dæmis: „Þegar ég var að hætta að drekka fann ég fyrir miklum líkamlegum fráhvarfseinkennum. Þá skildi ég að ég þurfti að fá læknismeðferð auk þeirrar andlegu hjálpar sem ég var að fá.“

 Bannar Biblían notkun lyfja í lækningaskyni?

 Nei. Reyndar nefnir Biblían að vín geti læknað veikindi eða deyft sársauka einhvers sem er að deyja. (Orðskviðirnir 31:6; 1. Tímóteusarbréf 5:23) En rétt eins og með áfengi geta verkjalyf verið mjög ávanabindandi. Það er því viturlegt að gera sér grein fyrir hættunni og fara gætilega þegar maður tekur lyfseðilsskyld verkjalyf. – Orðskviðirnir 22:3.

a Þó að þessi grein beini athyglinni að því að sigrast á eiturlyfjafíkn geta meginreglur Biblíunnar sem rætt er um líka hjálpað þeim sem glíma við annars konar vandamál, meðal annars sem tengjast áfengi, tóbaki, mat, fjárhættuspilum, klámi eða samskiptasíðum.

b Jehóva er eiginnafn Guðs. (Sálmur 83:18) Sjá greinina „Hver er Jehóva?

c Ýmsar meðferðarstofnanir, sjúkrahús og endurhæfingarsamtök geta hjálpað. Hver og einn ætti að skoða vandlega það sem er í boði og ákveða hvaða meðferð henti best. – Orðskviðirnir 14:15.