Jóhannes segir frá 3:1–36

  • Jesús og Nikódemus (1–21)

    • Fæðast að nýju (3–8)

    • Guð elskaði heiminn (16)

  • Jóhannes vitnar um Jesú í síðasta sinn (22–30)

  • Sá sem kemur að ofan (31–36)

3  Maður nokkur hét Nikódemus. Hann var farísei og einn af leiðtogum Gyðinga.  Hann kom til Jesú að næturlagi og sagði við hann: „Rabbí, við vitum að þú ert kennari sendur af Guði því að enginn getur unnið kraftaverkin sem þú gerir nema Guð sé með honum.“  Jesús svaraði: „Ég segi þér með sanni að enginn getur séð ríki Guðs nema hann fæðist að nýju.“*  Þá sagði Nikódemus: „Hvernig getur maður fæðst þegar hann er orðinn gamall? Varla getur hann snúið aftur í kvið móður sinnar og fæðst á ný.“  Jesús svaraði: „Ég segi þér með sanni að enginn getur komist inn í ríki Guðs nema hann fæðist af vatni og anda.  Það sem fæðist af mönnum* er mennskt* og það sem fæðist af andanum er andi.  Vertu ekki undrandi að ég skyldi segja þér: Þið þurfið að fæðast að nýju.  Vindurinn blæs þangað sem hann vill og þið heyrið þytinn í honum en þið vitið ekki hvaðan hann kemur né hvert hann fer. Hið sama má segja um alla sem eru fæddir af andanum.“  Þá spurði Nikódemus: „Hvernig getur þetta verið?“ 10  Jesús svaraði: „Þú ert kennari í Ísrael og samt veistu þetta ekki! 11  Ég segi þér með sanni að við tölum um það sem við þekkjum og við vitnum um það sem við höfum séð en þið takið ekki við því sem við vitnum um. 12  Ég hef sagt ykkur frá jarðneskum málum og þið trúið mér ekki. Hvernig getið þið þá trúað mér þegar ég segi ykkur frá himneskum málum? 13  Auk þess hefur enginn stigið upp til himins nema sá sem steig niður af himni, Mannssonurinn. 14  Og eins og Móse lyfti upp höggorminum í eyðimörkinni, þannig þarf að lyfta upp Mannssyninum 15  til að allir sem trúa á hann hljóti eilíft líf. 16  Guð elskaði heiminn svo heitt að hann gaf einkason sinn til þess að þeir sem trúa á hann farist ekki heldur hljóti eilíft líf. 17  Guð sendi ekki son sinn í heiminn til að dæma heiminn heldur til að heimurinn bjargaðist fyrir atbeina hans. 18  Sá sem trúir á hann verður ekki dæmdur. Sá sem trúir ekki er þegar dæmdur því að hann hefur ekki trúað á nafn einkasonar Guðs. 19  Dómurinn byggist á því að ljósið er komið í heiminn en menn elskuðu myrkrið í stað ljóssins því að verk þeirra voru vond. 20  Sá sem stundar hið illa hatar ljósið og kemur ekki til ljóssins svo að verk hans verði ekki afhjúpuð. 21  En sá sem gerir rétt kemur til ljóssins svo að augljóst verði að verk hans eru í samræmi við vilja Guðs.“ 22  Eftir þetta fóru Jesús og lærisveinar hans um sveitir Júdeu. Hann var með þeim þar um tíma og skírði. 23  En Jóhannes skírði einnig. Það var í Aínon nálægt Salím því að þar var mikið vatn. Fólk kom þangað og lét skírast 24  en þetta var áður en Jóhannesi var varpað í fangelsi. 25  Nú deildu lærisveinar Jóhannesar um hreinsun við Gyðing nokkurn. 26  Þeir komu síðan til Jóhannesar og sögðu við hann: „Rabbí, maðurinn sem var með þér handan við Jórdan og þú vitnaðir um, hann er að skíra og allir fara til hans.“ 27  Jóhannes svaraði: „Enginn getur fengið neitt nema honum sé gefið það af himni. 28  Þið voruð sjálfir vitni að því að ég sagði: ‚Ég er ekki Kristur heldur var ég sendur á undan honum.‘ 29  Brúðguminn á brúðina. En vinur brúðgumans gleðst mjög þegar hann stendur hjá honum og heyrir rödd hans. Gleði mín er því orðin fullkomin. 30  Hann á að vaxa en ég á að minnka.“ 31  Sá sem kemur að ofan er yfir öllum öðrum. Sá sem er frá jörðinni er frá jörðinni og talar um jarðnesk mál. Sá sem kemur af himni er yfir öllum öðrum. 32  Hann vitnar um það sem hann hefur séð og heyrt en enginn viðurkennir vitnisburð hans. 33  Sá sem viðurkennir vitnisburð hans hefur staðfest* að Guð er sannorður. 34  Sá sem Guð sendi talar orð hans því að Guð er ekki spar á andann.* 35  Faðirinn elskar soninn og hefur lagt allt í hendur hans. 36  Sá sem trúir á soninn hlýtur eilíft líf. Sá sem óhlýðnast syninum mun ekki lifa heldur hvílir reiði Guðs varanlega yfir honum.

Neðanmáls

Eða hugsanl. „fæðist að ofan“.
Orðrétt „holdi“.
Orðrétt „hold“.
Orðrétt „hefur innsiglað“.
Eða „gefur ómælt af andanum“.