Jakobsbréfið 4:1–17

  • Vertu ekki vinur heimsins (1–12)

    • Standið gegn Djöflinum (7)

    • Nálgist Guð (8)

  • Varað við stærilæti (13–17)

    • „Ef Jehóva vill“ (15)

4  Af hverju stafa stríð og átök á meðal ykkar? Koma þau ekki til af girndum holdsins sem takast á innra með ykkur?*  Þið þráið ýmislegt en fáið þó ekki. Þið myrðið og girnist en getið samt ekki eignast neitt. Þið eigið í stöðugu stríði og átökum. Þið fáið ekki því að þið biðjið ekki.  Og þegar þið biðjið fáið þið ekki því að þið biðjið af röngu tilefni. Þið viljið bara fullnægja girndum holdsins.  Þið ótrúu,* vitið þið ekki að vinátta við heiminn er fjandskapur gegn Guði? Hver sem vill vera vinur heimsins gerir sig þess vegna að óvini Guðs.  Eða haldið þið að það sé að ástæðulausu sem ritningarstaðurinn segir: „Innra með okkur býr öfund sem girnist margt“?  En einstök góðvild Guðs er henni yfirsterkari. Þess vegna segir ritningarstaðurinn: „Guð stendur gegn hrokafullum en sýnir auðmjúkum einstaka góðvild.“  Verið því undirgefin Guði en standið gegn Djöflinum og þá mun hann flýja ykkur.  Nálgist Guð og þá mun hann nálgast ykkur. Hreinsið hendur ykkar, þið syndarar, og hreinsið hjörtu ykkar, þið sem eruð tvístígandi.  Verið vansæl, syrgið og grátið. Breytið hlátri ykkar í sorg og gleði ykkar í örvæntingu. 10  Auðmýkið ykkur frammi fyrir Jehóva* og þá mun hann upphefja ykkur. 11  Bræður og systur, hættið að tala illa hvert um annað. Sá sem talar illa um trúsystkini sitt eða dæmir það andmælir lögunum* og dæmir þau. En ef þú dæmir lögin ertu orðinn dómari en ferð ekki eftir lögunum. 12  Það er aðeins einn löggjafi og dómari, sá sem getur bæði bjargað og tortímt. En hver ert þú sem dæmir náunga þinn? 13  Heyrið nú, þið sem segið: „Í dag eða á morgun skulum við fara til ákveðinnar borgar og vera þar í ár, og við ætlum að stunda viðskipti og hagnast.“ 14  Þið vitið ekki hvernig líf ykkar verður á morgun því að þið eruð gufa sem sést um stutta stund en hverfur svo. 15  Þið ættuð frekar að segja: „Ef Jehóva* vill lifum við og gerum þetta eða hitt.“ 16  En nú eruð þið stolt og stærið ykkur. Allt slíkt stærilæti er skaðlegt. 17  Ef því einhver hefur vit á að gera rétt en gerir það ekki syndgar hann.

Neðanmáls

Orðrétt „í limum líkamans“.
Orðrétt „Þið sem fremjið hjúskaparbrot“.
Sjá orðaskýringar.
Hér virðist átt við lög Guðs almennt.
Sjá orðaskýringar.