Bréfið til Rómverja 12:1–21

  • Bjóðið fram líkama ykkar að lifandi fórn (1, 2)

  • Ólíkar gjafir en einn líkami (3–8)

  • Leiðbeiningar um kristið líferni (9–21)

12  Bræður og systur, ég hvet ykkur því vegna miskunnar Guðs til að bjóða fram líkama ykkar að lifandi og heilagri fórn sem hann hefur velþóknun á, að beita skynseminni í heilagri þjónustu hans.  Látið ekki heiminn* móta ykkur lengur heldur umbreytist með því að endurnýja hugarfarið svo að þið getið sannreynt hver sé hinn góði og fullkomni vilji Guðs og hvað honum sé þóknanlegt.  Vegna þeirrar einstöku góðvildar sem mér er gefin segi ég ykkur öllum að líta ekki of stórt á sjálf ykkur heldur vera raunsæ í samræmi við þá trú sem Guð hefur gefið* ykkur hverju og einu.  Á einum líkama eru margir limir en þeir hafa ekki allir sama hlutverk.  Eins er með okkur: Þó að við séum mörg erum við einn líkami sem er sameinaður Kristi. En hvert og eitt erum við limir sem eru háðir hver öðrum.  Við höfum fengið ólíkar gjafir í samræmi við einstaka góðvild Guðs. Ef það er spádómsgáfa skulum við spá í samræmi við trú okkar  og ef það er þjónusta skulum við sinna henni. Sá sem kennir skal annast kennsluna,  sá sem uppörvar* skal uppörva,* sá sem gefur* sé örlátur, sá sem veitir forstöðu* geri það dyggilega* og sá sem sýnir miskunn geri það með gleði.  Kærleikur ykkar sé hræsnislaus. Hafið andstyggð á hinu illa. Haldið fast við það sem er gott. 10  Sýnið hvert öðru bróðurkærleika og ástúð. Eigið frumkvæðið að því að sýna hvert öðru virðingu. 11  Verið iðin* en ekki löt. Verið brennandi í andanum. Þjónið Jehóva* af kappi.* 12  Gleðjist í voninni. Verið þolgóð í erfiðleikum. Haldið áfram að biðja. 13  Deilið því sem þið eigið með hinum heilögu eftir þörfum þeirra. Temjið ykkur gestrisni. 14  Blessið þá sem ofsækja ykkur, blessið þá en bölvið þeim ekki. 15  Gleðjist með þeim sem gleðjast. Grátið með þeim sem gráta. 16  Lítið aðra sömu augum og sjálf ykkur. Sækist ekki eftir því sem ýtir undir hroka* heldur hafið hógværðina að leiðarljósi. Verið ekki vitur í eigin augum. 17  Gjaldið engum illt með illu. Reynið að gera það sem er gott í augum allra manna. 18  Ef hægt er skuluð þið halda frið við alla menn að svo miklu leyti sem það er á ykkar valdi. 19  Hefnið ykkar ekki sjálf, þið elskuðu, heldur leyfið reiði Guðs að komast að, því að skrifað er: „‚Mín er hefndin, ég mun endurgjalda,‘ segir Jehóva.“* 20  En „ef óvinur þinn er svangur skaltu gefa honum að borða, ef hann er þyrstur skaltu gefa honum að drekka. Með því að gera það hleðurðu glóandi kolum á höfuð hans.“* 21  Láttu ekki hið illa sigra þig heldur sigraðu alltaf illt með góðu.

Neðanmáls

Eða „þessa öld“. Sjá orðaskýringar, „heimsskipan“.
Eða „úthlutað“.
Eða „áminnir“.
Eða „áminna“.
Eða „útbýtir“.
Eða „fer með forystu“.
Eða „sé kappsamur“.
Eða „dugleg; kappsöm“.
Sjá orðaskýringar.
Eða „Vinnið fyrir Jehóva sem þrælar“.
Eða „Verið ekki stórhuga“.
Sjá orðaskýringar.
Hugsunin er að mýkja hjarta hans og „bræða“ hann.