Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hroki er undanfari smánar

Hroki er undanfari smánar

Hroki er undanfari smánar

„Komi hroki, kemur smán, en hjá lítillátum er viska.“ — ORÐSKVIÐIRNIR 11:2.

1, 2. Hvað er hroki og hvaða hrikalegar afleiðingar hefur hann haft?

ÖFUNDSJÚKUR levíti hleypir af stað uppreisn gegn þeim yfirvöldum sem Jehóva hefur skipað. Metnaðargjarn prins bruggar launráð gegn föður sínum í því skyni að hrifsa af honum völdin. Óþolinmóður konungur hunsar skýr fyrirmæli frá spámanni Guðs. Þessum þrem Ísraelsmönnum er eitt sameiginlegt — hroki.

2 Hroki er hættulegur eiginleiki fyrir hvern sem er. (Sálmur 19:13, NW) Hinn hrokafulli tekur sér ýmiss konar bessaleyfi, oft með hrikalegum afleiðingum. Konungar hafa fallið og heimsveldi hrunið sökum hroka og drambs. (Jeremía 50:29, 31, 32; Daníel 5:20) Hroki hefur meira að segja orðið sumum þjónum Jehóva til mikils tjóns.

3. Hvernig getum við fræðst um hætturnar af hroka?

3 Það er ekki að tilefnislausu sem Biblían segir: „Komi hroki, kemur smán, en hjá lítillátum er viska,“ og hún staðfestir sannleiksgildi þessa orðskviðar með dæmum sem sýna glögglega fram á hve hættulegt það er að fara út fyrir viðeigandi mörk. (Orðskviðirnir 11:2) Við skulum kanna hvernig öfund, metnaðargirni og óþolinmæði kom mönnunum þrem, sem getið var í byrjun, til að sýna ósvífni og hroka sér til smánar.

Kóra — öfundsjúkur uppreisnarmaður

4. (a) Hver var Kóra og hvaða sögufrægum atburðum var hann eflaust vitni að? (b) Hverju hleypti Kóra af stað á efri æviárum?

4 Kóra var levíti af ætt Kahats, og þeir Móse, Aron og hann voru systkinabörn. Að því er best verður séð þjónaði hann Jehóva trúfastur um áratuga skeið. Hann var í hópi þeirra sem Jehóva frelsaði með undramætti við Rauðahaf, og líklega átti hann hlutdeild í því að fullnægja dómi hans yfir kálfadýrkendunum við Sínaífjall. (2. Mósebók 32:26) En síðar gerðist hann forsprakki uppreisnar gegn Móse og Aroni, ásamt Rúbenítunum Datan, Abíram og Ón og 250 höfðingjum Ísraelsmanna. * „Nú er nóg komið!“ sögðu þeir við Móse og Aron. „Allur söfnuðurinn er heilagur, og [Jehóva] er meðal þeirra. Hví hefjið þið ykkur þá upp yfir söfnuð [Jehóva]?“ — 4. Mósebók 16:1-3.

5, 6. (a) Af hverju gerði Kóra uppreisn gegn Móse og Aroni? (b) Af hverju má segja að Kóra hafi trúlega vanmetið hlutverk sitt í fyrirkomulagi Jehóva?

5 Hvers vegna gerði Kóra uppreisn eftir áralanga trúfesti? Ekki var forysta Móse neitt harðræði því að hann var „einkar hógvær, framar öllum mönnum á jörðu.“ (4. Mósebók 12:3) Kóra virðist hafa öfundað Móse og Aron og gramist frami þeirra, og það varð til þess að hann fullyrti — ranglega þó — að þeir hefðu gerræðislega upphafið sig yfir söfnuðinn. — Sálmur 106:16.

6 Að öllum líkindum hefur Kóra ekki verið mjög annt um sérréttindi sín í fyrirkomulagi Guðs. Levítar af ætt Kahats voru ekki prestar en voru engu að síður kennarar í lögmáli Guðs og báru húsgögn og áhöld tjaldbúðarinnar þegar þurfti að flytja þau. Þetta var ekkert ómerkilegt starf því að enginn mátti meðhöndla hin helgu áhöld nema hann væri trúarlega og siðferðilega hreinn. (Jesaja 52:11) Þegar Móse tók Kóra til bæna var hann raunverlega að spyrja hann hvort honum fyndist verkefni sitt svo ómerkilegt að hann þyrfti líka að ná í prestsembættið? (4. Mósebók 16:9, 10) Kóra skildi ekki að mesti heiðurinn er fólginn í því að þjóna Jehóva trúfastur í samræmi við fyrirkomulag hans en ekki að komast í einhverja sérstaka stöðu. — Sálmur 84:11.

7. (a) Hvernig tók Móse á uppreisn Kóra og manna hans? (b) Hvaða endalok hlaut uppreisn Kóra?

7 Móse bauð Kóra og mönnum hans að koma til samfundatjaldsins morguninn eftir og hafa með sér eldpönnur og reykelsi. Kóra og menn hans höfðu ekki leyfi til að bera fram reykelsisfórn af því að þeir voru ekki prestar. Kæmu þeir með eldpönnur og reykelsi væri það skýr vísbending um að þeim fyndist þeir eiga rétt á að gegna prestsstörfum — jafnvel eftir að hafa haft alla nóttina til að hugsa sinn gang. Þegar þeir komu þangað morguninn eftir lét Jehóva reiði sína í ljós og það með réttu. „Jörðin lauk upp munni sínum og svalg“ Rúbenítana en eldur frá Guði eyddi hinum, þeirra á meðal Kóra. (5. Mósebók 11:6; 4. Mósebók 16:16-35; 26:10) Hroki Kóra varð honum til mikillar smánar þegar yfir lauk — hann kallaði yfir sig vanþóknun Guðs.

Varastu „öfundartilhneigingu“

8. Hvernig getur ‚öfundartilhneiging‘ gert vart við sig meðal kristinna manna?

8 Saga Kóra er okkur til varnaðar. Þar eð ‚öfundartilhneiging‘ blundar í ófullkomnum mönnum getur hennar jafnvel orðið vart í kristna söfnuðinum. (Jakobsbréfið 4:5, NW) Við gætum til dæmis hugsað töluvert um virðingu og stöðu. Við þráum kannski einhver sérréttindi sem aðrir hafa, og öfundum þá líkt og Kóra gerði. Við gætum jafnvel orðið eins og Díótrefes sem var kristinn maður á fyrstu öld. Hann gagnrýndi harðlega forystu postulanna og vildi greinilega sjálfur halda um stjórnvölinn. Hann ‚vildi vera fremstur‘ eins og Jóhannes skrifaði. — 3. Jóhannesarbréf 9.

9. (a) Hvaða afstöðu til safnaðarábyrgðar þurfum við að forðast? (b) Hver er rétta afstaðan til hlutverks okkar í fyrirkomulagi Guðs?

9 Það er auðvitað ekki rangt af kristnum karlmanni að sækjast eftir ábyrgðarstarfi í söfnuðinum. Páll hvatti jafnvel til þess. (1. Tímóteusarbréf 3:1) En við ættum aldrei að líta á þjónustusérréttindi sem viðurkenningarstimpil, rétt eins og við höfum hækkað um eitt þrep í einhverjum virðingarstiga við það að fá þau. Munum hvað Jesús sagði: „Sá, sem mikill vill verða meðal yðar, [sé] þjónn yðar. Og sá er vill fremstur vera meðal yðar, sé þræll yðar.“ (Matteus 20:26, 27) Það er augljóslega rangt að öfunda þá sem gegna meiri ábyrgð en við, rétt eins og gildi okkar í augum Guðs ráðist af „stöðu“ okkar í skipulagi hans. ‚Þið eruð allir bræður,‘ sagði Jesús. (Matteus 23:8) Allir gegna verðmætu hlutverki innan fyrirkomulags Jehóva ef þeir þjóna honum af allri sálu, og gildir þá einu hvort menn eru boðberar eða brautryðjendur, nýlega skírðir vottar eða gamalreyndir. (Lúkas 10:27; 12:6, 7; Galatabréfið 3:28; Hebreabréfið 6:10) Það er mikil blessun að mega starfa með milljónum manna sem leggja sig einhuga fram um að ‚skrýðast lítillætinu hver gagnvart öðrum‘ eins og Biblían ráðleggur. — 1. Pétursbréf 5:5.

Absalon — metnaðargjarn tækifærissinni

10. Hver var Absalon og hvernig reyndi hann að vinna sér hylli þeirra sem leituðu til konungs?

10 Ferill Absalons, þriðja sonar Davíðs, er skólabókardæmi um metnaðargirni. Hann var undirförull tækifærissinni og reyndi með fagurgala að vinna sér hylli þeirra sem leituðu til konungs til að fá skorið úr málum sínum. Fyrst dylgjaði hann með það að Davíð léti sér ekki annt um þarfir þeirra. Síðan lét hann af lymskunni og afhjúpaði raunverulega ætlun sína. „Ég vildi óska að ég væri skipaður dómari í landinu,“ kvakaði hann, „svo að hver maður, sem ætti í þrætu eða hefði mál að sækja, gæti komið til mín. Þá skyldi ég láta hann ná rétti sínum.“ Klækjum hans voru engin takmörk sett. „Þegar einhver kom til hans til þess að lúta honum, rétti hann fram höndina, dró hann að sér og kyssti hann,“ segir Biblían. „Svo gjörði Absalon við alla Ísraelsmenn, þá er leituðu á konungs fund til þess að fá úrskurð hans.“ Og með þessum hætti „stal Absalon hjörtum Ísraelsmanna.“ — 2. Samúelsbók 15:1-6.

11. Hvernig reyndi Absalon að hrifsa völdin af Davíð?

11 Absalon var ákveðinn í að hrifsa völdin af föður sínum. Fimm árum áður hafði hann látið myrða Amnon, elsta bróður sinn. Amnon hafði nauðgað Tamar, alsystur Absalons, og Absalon lét sem hann væri að hefna þess með morðinu. (2. Samúelsbók 13:28, 29) En vel má vera að hann hafi þá þegar haft augastað á hásætinu, og morðið á Amnon verið þægileg leið til að ryðja keppinaut úr vegi. * Að minnsta kosti lét hann til skarar skríða þegar hann taldi það tímabært og gerði heyrinkunnugt um land allt að hann væri orðinn konungur. — 2. Samúelsbók 15:10.

12. Hvernig varð hroki Absalons til smánar?

12 Absalon vegnaði vel fyrst um sinn. „Samsærið magnaðist og æ fleiri og fleiri menn gengu í lið með Absalon.“ Svo fór að Davíð mátti flýja til að forða lífi sínu. (2. Samúelsbók 15:12-17) En valdaferill Absalons var endasleppur því að Jóab drap hann, kastaði honum í gryfju og hlóð steindys yfir. Hugsaðu þér! Þessi metnaðargjarni maður vildi verða konungur en fékk ekki einu sinni sómasamlega greftrun! * Hroki hans varð honum sannarlega til smánar. — 2. Samúelsbók 18:9-17.

Forðastu metnaðargirni

13. Hvernig getur metnaðargirni skotið rótum í hjarta kristins manns?

13 Uppgangur og fall Absalons er okkur víti til varnaðar. Það er algengt í hörðum heimi nútímans að fólk smjaðri fyrir yfirboðurum sínum og reyni að koma sér í mjúkinn hjá þeim, annaðhvort til að hafa einhver áhrif á þá eða til að næla sér í forréttindi eða stöðuhækkun. Og jafnframt lætur það drýgindalega við undirmenn sína og reynir að vinna sér hylli þeirra og stuðning. Þess konar metnaðargirni getur skotið rótum í hjörtum okkar ef við erum ekki varkár. Ljóst er að hún gerði það hjá sumum á fyrstu öld svo að postularnir þurftu að vara sterklega við slíkum mönnum. — Galatabréfið 4:17; 3. Jóhannesarbréf 9, 10.

14. Af hverju ber okkur að forðast metnaðargirni og sjálfsupphafningu?

14 Þeir sem reyna með undirferli að hygla sjálfum sér og upphefja sig eiga ekki heima í skipulagi Jehóva. (Orðskviðirnir 25:27, NW) Biblían segir í varnaðartón: „Ó að [Jehóva] vildi eyða öllum mjúkfláum vörum, öllum tungum er tala drambsamleg orð.“ (Sálmur 12:4) Absalon var tungumjúkur og smjaðraði fyrir þeim sem hann þurfti að ávinna sér hylli hjá til að krækja sér í valdastöðuna sem hann girntist. Gleymum ekki hvílík blessun það er að vera í bræðrafélagi þar sem farið er eftir ráðum Páls: „Gjörið ekkert af eigingirni eða hégómagirnd. Verið lítillátir og metið aðra meira en sjálfa yður.“ — Filippíbréfið 2:3.

Sál — óþolinmóður konungur

15. Hvernig sýndi Sál hógværð á yngri æviárum?

15 Sál, er síðar var Ísraelskonungur, var upphaflega hógvær maður. Tökum sem dæmi atvik er átti sér stað skömmu áður en hann varð konungur. Þegar Samúel spámaður talaði lofsamlega um hann svaraði hann hógværlega: „Er ég ekki Benjamíníti, kominn af einni af hinum minnstu kynkvíslum Ísraels, og ætt mín hin lítilmótlegasta af öllum ættum Benjamíns kynkvíslar? Hví mælir þú þá slíkt við mig?“ — 1. Samúelsbók 9:21.

16. Hvernig birtist óþolinmæði Sáls?

16 En Sál glataði hógværðinni með tímanum. Einhverju sinni átti hann í stríði við Filista en hörfaði til Gilgal þar sem hann átti að bíða þess að Samúel kæmi til að ákalla Guð með fórnum. Samúel kom ekki á tilteknum tíma og Sál sýndi þann hroka að færa sjálfur brennifórn. Hann var ekki fyrr búinn að því en Samúel birtist. „Hvað hefir þú gjört?“ spurði spámaðurinn. Sál svaraði: „Þegar ég sá, að liðið dreifðist burt frá mér og að þú komst ekki á tilteknum tíma . . . herti ég upp hugann og fórnaði brennifórninni.“ — 1. Samúelsbók 13:7-12.

17. (a) Af hverju kann atferli Sáls að virðast réttlætanlegt við fyrstu sýn? (b) Hvers vegna atyrti Jehóva Sál fyrir óþolinmæðina?

17 Atferli Sáls kann að hafa virst réttlætanlegt við fyrstu sýn. Þegar allt kom til alls voru þjónar Guðs „komnir í kreppu,“ það ‚þrengdi að þeim‘ og þeir voru hræddir. (1. Samúelsbók 13:6, 7) Það er auðvitað ekki rangt að eiga frumkvæðið þegar aðstæður leyfa. * En höfum hugfast að Jehóva getur lesið það sem í hjartanu býr og skynjað innstu hvatir okkar. (1. Samúelsbók 16:7) Hann hlýtur að hafa séð eitthvað í fari Sáls sem Biblían segir ekki frá berum orðum. Kannski sá hann að óþolinmæði Sáls átti rætur sínar að rekja til hroka. Kannski fór það verulega í taugarnar á Sál að hann — konungur Ísraels — skyldi þurfa að bíða eftir, að honum fannst, gömlum og hægfara spámanni. Að minnsta kosti fannst Sál hægagangur Samúels réttlæta það að hann tæki málið í sínar hendur og hunsaði skýr fyrirmæli. En Samúel hrósaði ekki Sál fyrir frumkvæðið heldur ávítaði hann: „Nú mun konungdómur þinn ekki standa . . . því að þú hefir ekki gætt þess, er [Jehóva] fyrir þig lagði.“ (1. Samúelsbók 13:13, 14) Enn og aftur kom smán í kjölfar hroka.

Vertu ekki óþolinmóður

18, 19. (a) Lýstu hvernig óþolinmæði gæti brotist út í hroka og ósvífni hjá nútímaþjóni Guðs. (b) Hvað þarf að hafa hugfast í sambandi við starfsemi kristna safnaðarins?

18 Frásagan af drambi og framhleypni Sáls er geymd í orði Guðs til gagns fyrir okkur. (1. Korintubréf 10:11) Það er ósköp auðvelt að láta ófullkomleika bræðranna fara í taugarnar á sér. Við verðum kannski óþolinmóð eins og Sál og finnst við þurfa að taka málið í okkar hendur ef ekki er rétt að farið. Segjum sem svo að ákveðinn bróðir hafi framúrskarandi skipulagsgáfu. Hann er stundvís, gjörþekkir starfsreglur safnaðarins og er prýðiskennari og ræðumaður. En honum finnst aðrir ekki uppfylla þær ströngu kröfur sem hann gerir, og þeir eru hvergi nærri eins skilvirkir og hann. Getur hann þá leyft sér að vera óþolinmóður? Má hann gagnrýna bræður sína og kannski ýja að því að það kæmist ekkert í verk og söfnuðurinn yrði varla starfhæfur ef hans nyti ekki við? Það væri hroki!

19 Hvað er það eiginlega sem heldur söfnuði kristinna manna saman? Stjórnkunnátta? Skilvirkni? Djúp þekking? Auðvitað stuðlar allt þetta að snurðulausri starfsemi safnaðarins. (1. Korintubréf 14:40; Filippíbréfið 3:16; 2. Pétursbréf 3:18) En Jesús sagði að fylgjendur hans myndu fyrst og fremst þekkjast á kærleikanum. (Jóhannes 13:35) Umhyggjusamir öldungar vita að skipulagning og skilvirkni er góð, en þeir vita líka að söfnuðurinn er ekki fyrirtæki sem þarf að vera undir strangri stjórn heldur er hann eins og hjörð sem þarf að annast og gæta. (Jesaja 32:1, 2; 40:11) Það er hætta á sundrung og deilum ef það gleymist og hroki ræður ferðinni. Góð regla byggð á leiðbeiningum Guðs stuðlar aftur á móti að friði. — 1. Korintubréf 14:33; Galatabréfið 6:16.

20. Um hvað er fjallað í greininni á eftir?

20 Frásögur Biblíunnar af Kóra, Absalon og Sál bera því glögglega vitni að dramb er undanfari smánar eins og Orðskviðirnir 11:2 segja. En versið bætir því við að ‚hjá lítillátum sé viska.‘ Hvað er lítillæti? Hvaða biblíudæmi geta varpað ljósi á þennan eiginleika og hvernig getum við sýnt hann? Um þetta er fjallað í greininni á eftir.

[Neðanmáls]

^ gr. 4 Rúben var frumburður Jakobs. Þeim afkomendum hans, sem létu leiðast með Kóra út í uppreisn, kann að hafa gramist það að Móse skyldi fara með stjórnvald yfir þeim en hann var afkomandi Leví.

^ gr. 11 Kíleab, annar sonur Davíðs, er nefndur við fæðingu en ekki eftir það. Vera má að hann hafi látist einhvern tíma fyrir uppreisn Absalons.

^ gr. 12 Það var álitið mikilvægt á biblíutímanum að látinn maður hlyti sómasamlega greftrun og ógæfulegt að hljóta ekki greftrun. Oft var það merki um vanþóknun Guðs. — Jeremía 25:32, 33.

^ gr. 17 Til dæmis gekk Pínehas skjótt til verks til að stöðva plágu sem drap tugþúsundir Ísraelsmanna, og Davíð hvatti banhungraða menn sína til að borða skoðunarbrauðin í ‚Guðs húsi.‘ Guð fordæmdi hvorugt sem dramb. — Matteus 12:2-4; 4. Mósebók 25:7-9; 1. Samúelsbók 21:1-6.

Manstu?

• Hvað er hroki?

• Hvernig gerðist Kóra hrokafullur sökum öfundar?

• Hvað má læra af frásögunni af hinum metnaðargjarna Absalon?

• Hvernig getum við forðast óþolinmæði Sáls?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 9]

Sál varð óþolinmóður og ósvífinn.