Matteus segir frá 23:1–39

  • Líkið ekki eftir fræðimönnum og faríseum (1–12)

  • Illa fer fyrir fræðimönnum og faríseum (13–36)

  • Jesús harmar örlög Jerúsalem (37–39)

23  Jesús talaði nú til mannfjöldans og lærisveinanna og sagði:  „Fræðimenn og farísear hafa sest á stól Móse.  Þið skuluð því gera og halda allt sem þeir segja ykkur, en líkið ekki eftir verkum þeirra því að þeir segja eitt en gera annað.  Þeir binda þungar byrðar og leggja fólki á herðar en sjálfir vilja þeir ekki snerta þær einum fingri.  Öll verk sín gera þeir til að sýnast fyrir mönnum. Þeir stækka hylkin með ritningarstöðunum sem þeir bera sér til verndar og lengja kögrið á fötunum.  Þeim finnst gott að sitja í hefðarsætum í veislum og fremstu* sætunum í samkunduhúsum,  láta heilsa sér á torgunum og láta kalla sig rabbí.*  En þið skuluð ekki láta kalla ykkur rabbí því að einn er kennari ykkar og þið eruð öll bræður og systur.  Kallið engan föður ykkar á jörð því að einn er faðir ykkar og hann er á himnum. 10  Látið ekki heldur kalla ykkur leiðtoga því að einn er leiðtogi ykkar, Kristur. 11  En sá mesti á meðal ykkar á að vera þjónn ykkar. 12  Hver sem upphefur sjálfan sig verður auðmýktur og hver sem auðmýkir sjálfan sig verður upphafinn. 13  Illa fer fyrir ykkur, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þið lokið himnaríki fyrir fólki. Sjálfir gangið þið ekki inn og leyfið ekki heldur þeim sem eru á leiðinni þangað að komast inn. 14  *—— 15  Illa fer fyrir ykkur, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þið ferðist um sjó og land til að snúa einum til ykkar trúar og þegar það tekst valdið þið því að hann verðskuldar enn frekar en þið að lenda í Gehenna.* 16  Illa fer fyrir ykkur, blindu leiðtogar, sem segið: ‚Ef einhver sver við musterið er það ógilt en ef einhver sver við gullið í musterinu þarf hann að halda eiðinn.‘ 17  Blindu og heimsku menn! Hvort er meira, gullið eða musterið sem helgar gullið? 18  Þið segið líka: ‚Ef einhver sver við altarið er það ógilt en ef einhver sver við fórnina á altarinu þarf hann að halda eiðinn.‘ 19  Blindu menn! Hvort er meira, fórnin eða altarið sem helgar fórnina? 20  Sá sem sver við altarið sver við það og allt sem er á því, 21  sá sem sver við musterið sver við það og þann sem býr í því 22  og sá sem sver við himininn sver við hásæti Guðs og þann sem situr í því. 23  Illa fer fyrir ykkur, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þið gefið tíund af myntu, dilli og broddkúmeni en vanrækið það sem meira máli skiptir í lögunum, það er að segja réttlæti, miskunn og trúfesti. Þið áttuð vissulega að gjalda tíundina en ekki sleppa hinu. 24  Blindu leiðtogar, þið síið mýfluguna frá en gleypið úlfaldann! 25  Illa fer fyrir ykkur, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þið hreinsið bikarinn og diskinn að utan en að innan eru þeir fullir græðgi* og óhófs. 26  Blindi farísei, hreinsaðu fyrst bikarinn og diskinn að innan svo að þeir geti líka orðið hreinir að utan. 27  Illa fer fyrir ykkur, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þið líkist hvítkölkuðum gröfum sem eru fallegar að sjá að utan en að innan eru þær fullar af dauðra manna beinum og alls konar óhreinindum. 28  Á sama hátt virðist þið út á við vera réttlátir en innra með ykkur eruð þið fullir hræsni og illsku. 29  Illa fer fyrir ykkur, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þið hlaðið upp leiði spámannanna og skreytið grafir* hinna réttlátu. 30  Þið segið: ‚Ef við hefðum verið uppi á dögum forfeðra okkar hefðum við ekki úthellt blóði spámannanna eins og þeir.‘ 31  Þar með vitnið þið gegn sjálfum ykkur þar sem þið játið að þið séuð synir þeirra sem myrtu spámennina. 32  Ljúkið þá verkinu sem forfeður ykkar hófu.* 33  Höggormar, nöðruafkvæmi, hvernig ætlið þið að komast hjá þeim dómi að lenda í Gehenna?* 34  Þess vegna sendi ég til ykkar spámenn, vitra menn og kennara. Suma þeirra munuð þið drepa og staurfesta, og suma þeirra munuð þið húðstrýkja í samkunduhúsum ykkar og ofsækja borg úr borg. 35  Þess vegna kemur yfir ykkur blóð allra réttlátra sem hafa verið drepnir á jörð, frá blóði hins réttláta Abels til blóðs Sakaría Barakíasonar sem þið myrtuð milli musterisins og altarisins. 36  Trúið mér, allt þetta kemur yfir þessa kynslóð. 37  Jerúsalem, Jerúsalem, þú sem drepur spámennina og grýtir þá sem eru sendir til þín, hve oft vildi ég ekki safna saman börnum þínum eins og hæna safnar ungum sínum undir vængi sér. En þið vilduð það ekki. 38  Hús ykkar verður yfirgefið og verður í ykkar höndum.* 39  Ég segi ykkur að þið munuð alls ekki sjá mig aftur fyrr en þið segið: ‚Blessaður sé sá sem kemur í nafni Jehóva.‘“*

Neðanmáls

Eða „bestu“.
Sem þýðir ‚kennari‘.
Þetta vers er ekki í sumum fornum handritum og tilheyrir greinilega ekki innblásinni frásögn Biblíunnar.
Sjá orðaskýringar.
Eða „ráns“.
Eða „minningargrafir“.
Orðrétt „Fyllið þá mæli forfeðra ykkar“.
Sjá orðaskýringar.
Eða hugsanl. „og lagt í eyði“.
Sjá orðaskýringar.