Lúkas segir frá 10:1–42

  • Jesús sendir út 70 lærisveina (1–12)

  • Aumar borgir sem iðrast ekki (13–16)

  • Lærisveinarnir 70 snúa aftur (17–20)

  • Jesús lofar föður sinn fyrir að sýna auðmjúkum velvild (21–24)

  • Dæmisagan um miskunnsama Samverjann (25–37)

  • Jesús heimsækir Mörtu og Maríu (38–42)

10  Eftir þetta valdi Drottinn 70 aðra og sendi þá tvo og tvo á undan sér til allra borga og staða sem hann ætlaði sjálfur að koma til.  Hann sagði við þá: „Uppskeran er mikil en verkamennirnir fáir. Biðjið því herra uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar.  Farið! Ég sendi ykkur út eins og lömb meðal úlfa.  Takið hvorki með ykkur peningapyngju, nestispoka né ilskó, og heilsið engum* á leiðinni.  Hvar sem þið komið inn í hús skuluð þið byrja á því að segja: ‚Friður sé með þessu húsi.‘  Og sé þar friðarvinur skal friður ykkar hvíla yfir honum. Annars skal friðurinn snúa aftur til ykkar.  Dveljið í því húsi og borðið og drekkið það sem borið er fram því að verkamaðurinn er verður launa sinna. Flytjið ykkur ekki sífellt hús úr húsi.  Og þegar þið komið í borg og tekið er við ykkur skuluð þið borða það sem er borið fram fyrir ykkur,  lækna þá sem eru veikir og segja þeim: ‚Ríki Guðs er komið í nánd við ykkur.‘ 10  En þegar þið komið í borg og ekki er tekið við ykkur skuluð þið fara út á aðalgöturnar og segja: 11  ‚Við þurrkum jafnvel rykið úr borginni af fótum okkar til merkis um sekt ykkar. Vitið samt að ríki Guðs er komið í nánd.‘ 12  Ég segi ykkur að bærilegra verður fyrir Sódómu á þeim degi en þá borg. 13  Þú auma Korasín! Þú auma Betsaída! Ef máttarverkin sem hafa gerst í ykkur hefðu átt sér stað í Týrus og Sídon hefðu íbúar þeirra fyrir löngu iðrast og setið í sekk og ösku. 14  Bærilegra verður því fyrir Týrus og Sídon í dóminum en ykkur. 15  Og þú, Kapernaúm, verður þú kannski hafin upp til himins? Nei, þú ferð niður í gröfina.* 16  Hver sem hlustar á ykkur hlustar á mig og hver sem lítilsvirðir ykkur lítilsvirðir einnig mig. En hver sem lítilsvirðir mig lítilsvirðir einnig þann sem sendi mig.“ 17  Þeir 70 sneru nú aftur fagnandi og sögðu: „Drottinn, jafnvel illu andarnir hlýða okkur þegar við notum nafn þitt.“ 18  Þá sagði hann við þá: „Ég sé Satan nú þegar fallinn af himni eins og eldingu. 19  Ég hef gefið ykkur vald til að fótumtroða höggorma og sporðdreka og mátt til að yfirbuga óvininn, og alls ekkert getur orðið ykkur að meini. 20  Gleðjist samt ekki yfir því að andarnir hlýða ykkur. Gleðjist frekar yfir því að nöfn ykkar eru skráð á himnum.“ 21  Á sömu stundu fylltist hann fögnuði vegna heilags anda og sagði: „Faðir, Drottinn himins og jarðar, ég lofa þig í áheyrn annarra því að þú hefur hulið þetta vandlega fyrir vitrum og gáfuðum mönnum en opinberað það börnum. Já, faðir, þetta er samkvæmt vilja þínum. 22  Faðir minn hefur lagt allt í hendur mér. Enginn veit hver sonurinn er nema faðirinn og enginn veit hver faðirinn er nema sonurinn og þeir sem sonurinn vill opinbera hann.“ 23  Hann sneri sér nú að lærisveinunum og sagði við þá einslega: „Þeir sem sjá það sem þið sjáið eru hamingjusamir. 24  Ég segi ykkur að margir spámenn og konungar þráðu að sjá það sem þið sjáið en sáu það ekki, og heyra það sem þið heyrið en heyrðu það ekki.“ 25  Nú stóð löglærður maður upp og vildi reyna hann. Hann spurði: „Kennari, hvað þarf ég að gera til að hljóta eilíft líf?“ 26  „Hvað stendur í lögunum? Hvað lestu út úr þeim?“ sagði Jesús. 27  Hann svaraði: „‚Þú skalt elska Jehóva* Guð þinn af öllu hjarta þínu, allri sál* þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum‘ og ‚náunga þinn eins og sjálfan þig‘.“ 28  „Þú svaraðir rétt,“ sagði Jesús. „Haltu þessu áfram og þú færð að lifa.“ 29  En maðurinn vildi réttlæta sjálfan sig og sagði við Jesú: „Hver er þá náungi minn?“ 30  Jesús svaraði: „Maður var á leið frá Jerúsalem niður til Jeríkó þegar ræningjar réðust á hann, afklæddu hann og börðu. Þeir fóru síðan og skildu hann eftir nær dauða en lífi. 31  Nú vildi svo til að prestur var á leið niður eftir veginum en þegar hann sá manninn sveigði hann fram hjá. 32  Levíti kom einnig þar að, sá hann og sveigði fram hjá. 33  En Samverji nokkur, sem var líka á leið eftir veginum, kom að honum og þegar hann sá hann kenndi hann í brjósti um hann. 34  Hann gekk til hans, batt um sár hans og hellti í þau olíu og víni. Síðan setti hann manninn á asna sinn, fór með hann á gistihús og annaðist hann. 35  Daginn eftir tók hann upp tvo denara,* fékk gestgjafanum og sagði: ‚Viltu annast hann? Það sem þú eyðir umfram þetta skal ég endurgreiða þér þegar ég kem aftur.‘ 36  Hver þessara þriggja finnst þér hafa reynst náungi mannsins sem ræningjarnir réðust á?“ 37  Hann svaraði: „Sá sem vann miskunnarverkið.“ Jesús sagði þá við hann: „Farðu og gerðu eins og hann.“ 38  Þeir héldu nú ferð sinni áfram og komu í þorp nokkurt. Kona sem hét Marta tók vel á móti Jesú á heimili sínu. 39  Hún átti systur sem hét María og hún settist við fætur Drottins til að hlusta á það sem hann sagði.* 40  Marta var hins vegar önnum kafin við að gera sem best við hann. Hún kom til hans og sagði: „Drottinn, er þér sama um að systir mín skuli láta mig eina um alla vinnuna? Segðu henni að koma og hjálpa mér.“ 41  Drottinn svaraði henni: „Marta, Marta, þú ert áhyggjufull og upptekin af mörgu. 42  Við þurfum ekki margt, jafnvel eitt væri nóg. María valdi góða* hlutskiptið og það verður ekki tekið frá henni.“

Neðanmáls

Eða „heilsið engum með faðmlagi“.
Eða „Hades“, það er, sameiginlega gröf mannkyns. Sjá orðaskýringar.
Sjá orðaskýringar.
Sjá orðaskýringar.
Sjá orðaskýringar.
Orðrétt „á orð hans“.
Eða „besta“.