Bréfið til Hebrea 6:1–20

  • Sækjum fram til þroska (1–3)

  • Þeir sem falla frá staurfesta soninn að nýju (4–8)

  • Verið sannfærð um að vonin rætist (9–12)

  • Loforð Guðs eru örugg (13–20)

    • Loforð Guðs og eiður eru óbreytanleg (17, 18)

6  Nú höfum við sagt skilið við byrjendafræðsluna um Krist. Við skulum því sækja fram til þroska en ekki fara að leggja grunninn að nýju með því að ræða um iðrun vegna dauðra verka og trú á Guð,  eða þá kenningar um skírnir, handayfirlagningar, upprisu dauðra og eilífan dóm.  Þetta gerum við ef Guð leyfir.  Ef menn hafa einu sinni verið upplýstir, smakkað hina himnesku gjöf og fengið hlutdeild í heilögum anda,  og hafa reynt hið góða orð Guðs og krafta komandi heimsskipanar*  en síðan fallið frá er ekki hægt að fá þá til að snúa við og iðrast. Þeir staurfesta son Guðs að nýju svo að hann er smánaður opinberlega.  Jörðin hlýtur blessun frá Guði þegar hún drekkur í sig regnið sem fellur ríkulega á hana og ber gróður til gagns fyrir þá sem yrkja hana.  En ef hún ber þyrna og þistla er hún yfirgefin. Bölvun vofir yfir henni og að lokum verður hún brennd.  En þótt við segjum þetta erum við sannfærðir um að þið, elskuðu bræður og systur, séuð betur á vegi stödd og séuð á leið til frelsunar. 10  Guð er ekki ranglátur. Hann gleymir ekki verki ykkar og kærleikanum sem þið sýnduð nafni hans með því að þjóna hinum heilögu eins og þið gerið enn. 11  Það er ósk okkar að þið séuð öll jafn kappsöm og þið voruð í byrjun svo að þið getið verið algerlega örugg allt til enda um að vonin rætist. 12  Við viljum ekki að þið verðið sljó heldur að þið líkið eftir þeim sem vegna trúar og þolinmæði erfa það sem lofað hefur verið. 13  Þegar Guð gaf Abraham loforðið sór hann við sjálfan sig því að hann hafði engan æðri til að sverja við, 14  og sagði: „Ég mun vissulega blessa þig og margfalda afkomendur þína.“ 15  Það var eftir að Abraham hafði beðið þolinmóður sem hann fékk þetta loforð. 16  Menn sverja við þann sem er þeim æðri og eiðurinn bindur enda á allar deilur þar sem hann veitir þeim lagalega tryggingu. 17  Guð fór eins að. Þegar hann ákvað að sýna erfingjum loforðsins enn skýrar fram á að fyrirætlun* sín væri óbreytanleg ábyrgðist hann loforðið* með eiði. 18  Þetta tvennt er óbreytanlegt því að Guð getur ekki logið. Það er okkur sem höfum leitað athvarfs hjá honum mikil hvatning til að halda fast í vonina sem okkur er gefin. 19  Þessi von okkar er eins og akkeri fyrir sálina,* bæði traust og örugg, og nær inn fyrir fortjaldið 20  þangað sem Jesús gekk inn á undan okkur og opnaði okkur leið, en hann er orðinn eilífur æðstiprestur á sama hátt og Melkísedek.

Neðanmáls

Eða „aldar“. Sjá orðaskýringar.
Eða „ákvörðun“.
Eða „skarst hann í leikinn“.
Eða „líf okkar“.