Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Virðing fyrir yfirvaldi — af hverju á undanhaldi?

Virðing fyrir yfirvaldi — af hverju á undanhaldi?

Virðing fyrir yfirvaldi — af hverju á undanhaldi?

„Vera má að einhvern tíma verði litið svo á að mótþrói við yfirvöld, jafnt trúarleg sem veraldleg, þjóðfélagsleg sem pólitísk, hafi verið merkasta heimsfyrirbæri síðasta áratugar.“

ÞANNIG lýsti sagnfræðingurinn og heimspekingurinn Hannah Arendt sjöunda áratugnum. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan og óhætt er að segja að virðingarleysi fyrir yfirvaldi sé meira og magnaðra nú en nokkru sinni fyrr.

Til dæmis mátti lesa eftirfarandi í frétt í Lundúnablaðinu The Times fyrir nokkru: „Sumir foreldrar neita að viðurkenna yfirráð kennara yfir barni sínu og kvarta ef reynt er að aga það.“ Ef börnin eru öguð í skólanum er algengt að foreldrarnir birtist, ekki aðeins til þess að hóta kennurunum heldur til að ráðast á þá.

Haft er eftir talsmanni Skólastjórasambands Bretlands: „Almenningur segir: ‚Ég hef réttindi,‘ í stað þess að segja: ‚Ég hef skyldur.‘“ Og ekki nóg með það að sumir foreldrar bregðist þeirri skyldu að innprenta börnunum virðingu fyrir yfirvaldi, því að sumir leiðrétta börnin ekki einu sinni og banna öðrum að gera það. Börn krefjast „réttar“ síns og komast upp með það að hunsa yfirráð foreldra og kennara. Og afleiðingin er eins og við má búast — „ný kynslóð sem ber enga virðingu fyrir yfirvaldi og gerir sér litla grein fyrir réttu og röngu,“ skrifar dálkahöfundurinn Margarette Driscoll.

Tímaritið Time lýsti ágætlega vonbrigðum margra rússneskra unglinga í grein sem hét „Týnd kynslóð.“ Þar var haft eftir vinsælum rapptónlistarmanni: „Hvernig getur nokkur, sem fæðist í þennan heim þar sem ekkert er varanlegt og ekkert er sanngjarnt, trúað á þjóðfélagið?“ Félagsfræðingurinn Míkhaíl Topalov tók undir með honum: „Þessir krakkar eru ekki heimskir. Þeir hafa séð ríkið ljúga að foreldrum sínum og horft upp á þá tapa sparifénu og missa vinnuna. Getum við ætlast til þess að þeir virði yfirvald?“

En það væri rangt að álykta sem svo að það sé aðeins yngri kynslóðin sem vantreystir yfirvaldi. Fólk á öllum aldri vantreystir hvers kyns yfirvaldi eða jafnvel fyrirlítur það. Er þá ekki hægt að treysta neinu yfirvaldi? Vald og yfirráð er sama og réttur til að stjórna, dæma, banna og ákveða, og ef rétt er með það farið getur það verið til góðs, bæði fyrir einstaklinga og samfélagið í heild. Um þetta er fjallað í greininni á eftir.