Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Varanlegt vitni um kærleika Guðs

Varanlegt vitni um kærleika Guðs

Varanlegt vitni um kærleika Guðs

SJÖ undur veraldar til forna voru kölluð svo af því að þau vöktu óttablandna lotningu meðal manna. Samt eru þessi mannvirki horfin að pýramídunum undanskildum. Aftur á móti er Biblían enn við lýði og hefur staðist tímans tönn óbrengluð allt fram á okkar daga þótt hún hafi verið rituð af venjulegum mönnum á forgengileg efni. Við getum fullkomlega treyst þessari einstöku bók. — Jesaja 40:8; 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17.

Jehóva Guð lét skrásetja hugsanir sínar og fyrirætlanir og tryggði þar með að þær myndu ekki breytast með tímanum vegna minnisbrests manna. Auk þess skrifuðu ritarar Biblíunnar einfalt mál og það gerir mörgum með takmarkaða menntun kleift að lesa hana með skilningi. (Postulasagan 4:13) Er einhvers annars að vænta af skaparanum og innblásnum riturum hans? Útbreiðsla Biblíunnar sýnir þar að auki mikinn kærleika Guðs til sköpunarvera sinna óháð búsetu þeirra eða tungumáli. (1. Jóhannesarbréf 4:19) Vissulega dregur það ekki úr gildi Biblíunnar hve aðgengileg hún er heldur eykur það!

Efni Biblíunnar sannar jafnvel enn frekar kærleika Guðs. Eins og við höfum séð í greinunum á undan útskýrir orð Guðs hvaðan við komum, hvers vegna lífið er svona stutt og erfitt og hvernig Guð ætlar að nota ríki sitt til að ráða bót á þessum aðstæðum. Við höfum einnig litið á nokkrar framúrskarandi ráðleggingar frá Biblíunni um það hvernig hægt sé að njóta hamingju og ánægjulegs lífs núna. (Sálmur 19:8-12; Jesaja 48:17, 18) Umfram allt höfum við lært hvernig skapari okkar ætlar að hreinsa nafn sitt af öllum ásökunum og lygum Satans. — Matteus 6:9.

Engin bók er eins verðmæt og Biblían. Engin er eins viðeigandi og hagnýt og veitir aðþrengdu mannkyni eins mikla von. Já, hún er varanlegt vitni um óeigingjarnan kærleika Jehóva til sköpunarvera sinna gagnstætt sjö undrum veraldar sem flest voru reist til að lofa valdamikla menn eða falsguði.

Við hvetjum þig til að kynna þér Biblíuna hafirðu ekki gert það nú þegar. Vottar Jehóva hjálpa núna meira en sex milljónum manna um allan heim að kynna sér Biblíuna þeim að kostnaðarlausu. Vottarnir líta á það sem heiður að hjálpa einlægu fólki að komast sjálft að raun um að hægt sé að treysta Biblíunni og að hún sé innblásið orð Guðs. — 1.  Þessaloníkubréf 2:13