Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ástæður til að treysta Biblíunni

4. Vísindaleg nákvæmni

4. Vísindaleg nákvæmni

Vísindum hefur fleygt fram á síðustu árum og gamlar kenningar vikið fyrir nýjum. Það sem einu sinni var álitið staðreynd gæti nú verið kallað goðsögn. Oft þarf að endurskoða kennslubækur í vísindum.

BIBLÍAN er ekki vísindarit. En þegar hún minnist á vísindaleg mál er bæði athyglisvert að sjá það sem hún segir og það sem hún segir ekki.

Laus við óvísindalegar hugmyndir.

Margar ranghugmyndir urðu vinsælar á öldum áður. Hugmyndir manna um jörðina voru til dæmis af ýmsum toga. Sumir héldu að hún væri flöt en aðrir töldu að áþreifanlegir hlutir eða efni héldu henni uppi. Og löngu áður en vísindin uppgötvuðu smitleiðir sjúkdóma og hvernig hægt væri að fyrirbyggja þá notuðu læknar aðferðir sem voru í besta lagi árangurslausar og í versta lagi banvænar. En í hinum ríflega 1100 köflum Biblíunnar er ekki eitt einasta dæmi um að hún styðji óvísindalegar hugmyndir eða skaðlegar læknisaðferðir.

Vísindalega rétt.

Fyrir um 3500 árum var skráð í Biblíuna að jörðin svifi „í tómum geimnum“. (Jobsbók 26:7) Á áttundu öld f.Kr. talaði Jesaja um ‚jarðarkringlu‘. (Jesaja 40:22) Kringlulaga jörð sem svífur í tómum geimnum án þess að nokkrir sýnilegir eða áþreifanlegir hlutir haldi henni uppi — finnst þér þessi lýsing ekki hljóma nútímalega?

Móselögin (sem finna má í fyrstu fimm bókum Biblíunnar) voru skrifuð um árið 1500 f.Kr. Þar voru skynsamleg ákvæði um að setja sjúka í sóttkví, um frágang á úrgangi og hvernig meðhöndla ætti lík. — 3. Mósebók 13:1-5; 4. Mósebók 19:1-13; 5. Mósebók 23:13, 14.

Eftir að farið var að rannsaka himininn með öflugum stjörnusjónaukum komust vísindamenn að þeirri niðurstöðu að alheimurinn hafi „fæðst“ skyndilega. En ekki eru allir vísindamenn sáttir við það sem þessi niðurstaða gefur til kynna. Prófessor nokkur sagði: „Alheimur, sem á sér upphaf, virðist þurfa að eiga sér frumorsök því að hvernig er hægt að ímynda sér slíka afleiðingu án orsakar?“ Löngu fyrir tíma stjörnusjónauka stóð hins vegar í fyrsta versi Biblíunnar: „Í upphafi skapaði Guð himin og jörð.“ — 1. Mósebók 1:1.

Biblían var langt á undan sinni samtíð þegar hún sagði réttilega að jörðin væri kringlulaga og svifi „í tómum geimnum“.

Þótt Biblían sé aldagömul og snerti á mörgum málum er hún samt aldrei vísindalega ónákvæm. Gefur það okkur ekki góða ástæðu til að kynna okkur efni hennar? *

^ Fleiri dæmi um vísindalega nákvæmni Biblíunnar er að finna á bls. 18-21 í bæklingnum Bók fyrir alla menn, gefinn út af Vottum Jehóva.