Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Styður fornleifafræðin Biblíuna?

Styður fornleifafræðin Biblíuna?

Styður fornleifafræðin Biblíuna?

FORNLEIFAFRÆÐIN varpar oft ljósi á líf, aðstæður, siði og tungumál biblíutímans og er því fróðleg fyrir áhugafólk um Biblíuna. Fornleifafræðin veitir sömuleiðis gagnlegar upplýsingar um það hvernig spádómar Biblíunnar hafa uppfyllst, til dæmis spádómarnir um fall Babýlonar, Níníve og Týrusar. (Jeremía 51:37; Esekíel 26:4, 12; Sefanía 2:13-15) En fornleifafræðinni eru takmörk sett. Menn þurfa að túlka gildi fornra menja og túlkunin er háð mannlegum takmörkum og skekkjum.

Kristin trú byggist ekki á brotnum leirkerum, grotnandi tigulsteinum eða molnandi múrveggjum heldur á heild allra þeirra andlegu sanninda sem er að finna í Biblíunni. (2. Korintubréf 5:7; Hebreabréfið 11:1) Innra samræmi Biblíunnar, hreinskilni hennar, uppfylltir spádómar og ótalmargt annað er sannfærandi vitnisburður þess að „sérhver ritning“ sé „innblásin af Guði“. (2. Tímóteusarbréf 3:16) Engu að síður er fróðlegt að líta á nokkra athyglisverða fornleifafundi sem staðfesta frásagnir Biblíunnar.

Árið 1970 komu fornleifafræðingar niður á brunarústir við uppgröft í Jerúsalem. „Reyndur maður áttaði sig strax á hvað þetta þýddi,“ skrifaði Nahman Avigad sem stjórnaði uppgreftinum. „Húsið hafði eyðilagst í eldi og loft og veggir hrunið.“ Í einu herberginu fundust handleggsbein [1] með útréttum fingrum sem teygðu sig í átt að tröppu.

Á víð og dreif um gólfið lágu peningar [2], sá yngsti aldursgreindur frá 69 e.Kr. en það var fjórða árið frá uppreisn Gyðinga gegn Rómverjum. Hlutum hafði verið hent til og frá áður en húsið hrundi. „Þessi sjón minnti okkur á lýsingu Jósefusar á því hvernig rómverskir hermenn rændu húsin eftir að þeir unnu borgina,“ segir Avigad. Sagnfræðingar tímasetja eyðingu Jerúsalem árið 70 e.Kr.

Rannsóknir leiddu í ljós að beinin voru úr konu á þrítugsaldri. Í tímaritinu Biblical Archaeology Review segir: „Ung kona hefur lokast inni í eldhúsinu þegar Rómverjar kveiktu í. Hún hefur hnigið niður á gólfið og verið að teygja sig í áttina að tröppu við dyrnar þegar hún dó. Eldurinn breiddist svo hratt út . . . að hún náði ekki að forða sér og grófst undir þegar húsið hrundi.“

Þessi lýsing minnir óneitanlega á spádóm um Jerúsalem sem Jesús bar fram næstum 40 árum áður: „Óvinir þínir . . . munu leggja þig að velli og börn þín, sem í þér eru, og ekki láta standa stein yfir steini í þér.“ — Lúkas 19:43, 44.

Af öðrum fornleifafundum, sem staðfesta orð Biblíunnar, má nefna að fundist hafa nöfn manna sem getið er um í Biblíunni. Sumir þessara funda hafa kollvarpað fullyrðingum gagnrýnismanna þess efnis að sumar af persónum Biblíunnar hafi verið skáldaðar eða ritararnir hafi ýkt stórum orðstír þeirra.

Áletranir með biblíunöfnum

Sú var tíðin að þekktir fræðimenn héldu því fram að Sargon annar Assýríukonungur hefði aldrei verið til. Nafn hans stendur hins vegar í Biblíunni í Jesaja 20:1. En árið 1843 fannst höll Sargons [3] nærri Khorsabad í Írak, við eina af þverám Tígris. Höllin nær yfir hér um bil 10 hektara. Í stað þess að vera óþekktur öðrum en biblíufróðu fólki er Sargon annar nú einn af þekktustu konungum Assýríu. Í einum af annálum [4] sínum segir hann frá því að hann hafi unnið borgina Samaríu í Ísrael. Samkvæmt biblíulegu tímatali féll Samaría í hendur Assýringum árið 740 f.Kr. Sargon getur þess einnig að hafa tekið Asdód sem kemur heim og saman við Jesaja 20:1.

Við uppgröft í rústum Forn-Babýlonar í Írak fundust um 300 fleygrúnatöflur í grennd við eitt af hliðum borgarinnar sem nefnt er Ístarhliðið. Á þeim segir frá stjórnartíð Nebúkadnesars, konungs í Babýlon. Á töflunum eru nafnaskrár þar sem meðal annars bregður fyrir nafninu „Jákin, konungur í Jahúð-landi“. Hér er átt við Jójakín Júdakonung sem Nebúkadnesar tók höndum og flutti til Babýlonar árið 617 f.Kr. þegar hann réðst á Jerúsalem í fyrra sinnið. (2. Konungabók 24:11-15) Fimm af sonum Jójakíns eru einnig nefndir á töflunum. — 1. Kroníkubók 3:17, 18.

Árið 2005 var unnið að uppgrefti þar sem talið var að höll Davíðs konungs hefði staðið. Fornleifafræðingar komu þar niður á mikla steinbyggingu sem talið er að hafi verið lögð í rúst fyrir 2600 árum þegar Babýloníumenn eyddu Jerúsalem á dögum Jeremía spámanns. Óvíst er hvort þetta eru rústirnar af höll Davíðs. Hins vegar fann fornleifafræðingurinn Eilat Mazar athyglisverðan hlut þar. Þetta er afþrykk eftir innsigli [5] á leirbroti sem er einn sentímetri á breidd. Þar stendur: „Tilheyrir Jehúkal Selemjasyni, Sóvísonar.“ Hér virðist um að ræða innsigli Júkals nokkurs sem Biblían segir að hafi verið andsnúinn Jeremía, en Júkal var einn af embættismönnum Júdakonungs. — Jeremía 37:3; 38:1-6.

Mazar segir að Júkal þessi hafi verið „annar ráðherra konungs“ á eftir Gemaría Safanssyni en nafn hans er að finna á afþrykki eftir innsigli sem fannst í Davíðsborg. Júkal Selemjason er nefndur í Biblíunni og sagður höfðingi í Júda. Áður en innsiglið fannst var Biblían eina heimildin um tilvist hans.

Voru þeir læsir og skrifandi?

Samkvæmt Biblíunni voru Forn-Ísraelsmenn bæði læsir og skrifandi. (4. Mósebók 5:23; Jósúabók 24:26; Jesaja 10:19) Gagnrýnismenn voru á öðru máli og héldu því fram að biblíusagan hefði aðallega varðveist í ótraustri munnlegri geymd. Þessari kenningu var kollvarpað árið 2005. Fornleifafræðingar, sem voru að störfum í Tel Zayit, miðja vegu milli Jerúsalem og Miðjarðarhafs, fundu þar kalksteinsbrot með ævafornu stafrófi. Hugsanlegt er að þetta sé elsta hebreska stafrófið [6] sem fundist hefur.

Steinninn er aldursgreindur frá tíundu öld f.Kr. og vitnar, að sögn sumra fræðimanna, um „formlega ritmennt“, „háþróaða menningu“ og „ört vaxandi skriffinnsku Ísraelsmanna í Jerúsalem“. Gagnstætt fullyrðingum gagnrýnismanna virðast Ísraelsmenn hafa verið læsir og skrifandi á tíundu öld f.Kr. Þeim hefur því verið í lófa lagið að skrásetja sögu sína.

Assýrskar heimildir styðja biblíusöguna

Assýría var á sínum tíma voldugt heimsveldi og hennar er oft getið í Biblíunni. Fjölmargir fornleifafundir þar um slóðir staðfesta nákvæmni Biblíunnar. Til dæmis fannst úthöggvin hella [7] við uppgröft á borgarstæði Níníve sem var höfuðborg Assýríu að fornu. Hún fannst í hallarrústum Sanheríbs konungs og sýnir Assýringa fara með stríðsfanga frá Júda eftir fall Lakís árið 732 f.Kr. Frásögn Biblíunnar er að finna í 2. Konungabók 18:13-15.

Annálar Sanheríbs [8], sem fundust í Níníve, lýsa herför hans í stjórnartíð Hiskía Júdakonungs, og er Hiskía nefndur þar með nafni. Í fleygrúnaáletrunum annarra valdhafa eru nafngreindir Akas og Manasse, konungar í Júda, og Omrí, Jehú, Jóas, Menahem og Hósea, konungar í Ísrael.

Í frásögn sinni gortar Sanheríb af hersigrum sínum en nefnir ekki að hann hafi tekið Jerúsalem. Þetta er mjög athyglisvert og styður frásögn Biblíunnar þar sem fram kemur að Sanheríb hafi aldrei sest um Jerúsalem heldur beðið ósigur fyrir Guði. Að sögn Biblíunnar snýr Sanheríb sneyptur heim til Níníve þar sem synir hans ráða hann af dögum. (Jesaja 37:33-38) Tvær assýrskar áletranir staðfesta að hann hafi verið myrtur.

Sökum illsku Nínívemanna boða spámenn Jehóva, þeir Nahúm og Sefanía, að borgin verði gereydd. (Nahúm 1:1; 2:9–3:19; Sefanía 2:13-15) Spádómar þeirra rættust þegar sameinaður liðsafli Nabópólassars, konungs í Babýlon, og Cyaxaresar Medíukonungs, gerðu umsátur um borgina og tóku hana árið 632 f.Kr. Fundur borgarrústanna og uppgröftur staðfestir frásagnir Biblíunnar.

Á árunum 1925 til 1931 var unnið að uppgrefti í borginni Nuzi sem stóð endur fyrir löngu austan við Tígris, suðaustur af Níníve. Við uppgröftinn fannst fjöldi fornra muna, þar á meðal um 20.000 leirtöflur. Þær eru með áletrunum á babýlonskri tungu og hafa að geyma hafsjó upplýsinga um lagalegar venjur líkar þeim sem giltu á ættfeðratímanum og lýst er í 1. Mósebók. Þar kemur meðal annars fram að guðir ættarinnar, sem oft voru smáar styttur úr leir, hafi verið eins konar afsal sem hafi veitt handhafa þeirra rétt til að krefjast arfs. Þessi siður varpar hugsanlega ljósi á það hvers vegna Rakel, kona ættföðurins Jakobs, tók ‚húsgoð‘ Labans föður síns þegar þau fluttu frá honum. Skiljanlegt er að Laban hafi reynt að endurheimta þau. — 1. Mósebók 31:14-16, 19, 25-35.

Spádómur Jesaja og kefli Kýrusar

Fleygrúnaáletrun á fornu leirkefli, sem hér er sýnt, kemur heim og saman við enn eina af frásögum Biblíunnar. Þetta er kefli Kýrusar [9] sem fannst í rústum Sippar við Efrat, rúmlega 30 kílómetra austur af Bagdad. Á keflinu segir frá því að Kýrus mikli, stofnandi Persaveldis, hafi unnið Babýlon. Athygli vekur að um 200 árum áður hafði Jehóva innblásið Jesaja spámanni að segja um medísk-persneskan valdhafa sem myndi heita Kýrus: „Hann er hirðir minn, og hann skal framkvæma allan vilja minn og segja um Jerúsalem: Hún skal endurreist verða.“ — Jesaja 13:1, 17-19; 44:26–45:3.

Á keflinu er minnst á þá stefnu Kýrusar að leyfa fólki frá öðrum þjóðum, sem fyrri valdhafar höfðu flutt í útlegð, að snúa heim að nýju. Stefna hans var að þessu leyti gerólík því sem tíðkaðist hjá öðrum fornum sigurvegurum. Jafnt biblíulegar heimildir sem veraldlegar vitna um að Kýrus hafi veitt Gyðingum heimfararleyfi og þeir hafi síðan endurreist Jerúsalem. — 2. Kroníkubók 36:23; Esrabók 1:1-4.

Biblíuleg fornleifafræði er tiltölulega ný fræðigrein sem vaxið hefur fiskur um hrygg og veitt mönnum verðmæta vitneskju. Og eins og sjá má vitna margir fornleifafundir um að Biblían sé áreiðanleg og nákvæm, stundum jafnvel í smæstu smáatriðum.

NÁNARI UPPLÝSINGAR

Getur Biblían hjálpað þér að vera hamingjusamur og finna tilgang í lífinu? Fjallað er um þetta efni á tveggja klukkustunda mynddiski sem nefnist The Bible — A Book of Fact and Prophecy (Biblían — bók staðreynda og spádóma). Á disknum eru einnig athyglisverð viðtöl. (Fæst á 32 tungumálum.)

Viltu sjá fleiri rök fyrir því að Biblían sé laus við goðsagnir og mótsagnir? Eru kraftaverkin, sem hún segir frá, sannsöguleg? Kynntu þér málið með hjálp þessarar 192 blaðsíðna bókar. (Fæst á 56 tungumálum.)

[Credit line]

Alexander mikli: Roma, Musei Capitolini

Þessi námsbók fer yfir allar helstu kenningar Biblíunnar og skýrir hvað Guð ætlast fyrir með jörðina og mannkynið. (Nú fáanleg á 162 tungumálum.)

Þessi fallega myndskreytta bók er samin sérstaklega með börn í huga. Hún skiptist í 116 kafla og segir frá fólki og atburðum í tímaröð. (Fæst á 194 tungumálum.)

[Mynd credit line á blaðsíðu 15]

Peningar: Góðfúslega látið í té af Company for Reconstruction & Development of Jewish Quarter, Jerusalem Old City.

[Mynd credit line á blaðsíðu 15]

Society for Exploration of Land of Israel and its Antiquities

[Mynd credit lines á blaðsíðu 16]

3: Musée du Louvre, París; 4: Ljósmyndað með góðfúslegu leyfi British Museum; 5: Gabi Laron/Institute of Archaeology/Hebrew University © Eilat Mazar.

[Mynd credit lines á blaðsíðu 17]

6: AP Photo/Keith Srakocic; 7, 8: Ljósmyndað með góðfúslegu leyfi British Museum.

[Mynd credit line á blaðsíðu 18]

Ljósmyndað með góðfúslegu leyfi British Museum.