Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Geturðu treyst ráðum Biblíunnar?

Geturðu treyst ráðum Biblíunnar?

Geturðu treyst ráðum Biblíunnar?

Ætti ég að trúa því sem hann segir? Þessi spurning gæti komið upp í hugann þegar sölumaður reynir að selja þér notaðan bíl eða stjórnmálamaður gefur loforð í kosningabaráttu. Þig langar hvorki til að eyða tíma né peningum í hluti eða upplýsingar sem eru lítils virði.

ÞÚ GÆTIR á sama hátt spurt sjálfan þig: Hefur Biblían eitthvað að geyma sem er ómaksins vert að kynna sér? Ef ég læsi og lærði það sem í henni stendur, gæti ég þá treyst því að tími minn og erfiði svaraði kostnaði? Svörin við þessum spurningum er að finna í sjálfri Biblíunni: „Spekin sannast af verkum sínum.“ (Matteus 11:19) Árangurinn af því að fara eftir ákveðnum ráðum eða „speki“ sannar hvort ráðin eru til gagns. Hér á eftir fara frásögur af fólki sem gaf sér tíma til að kynna sér Biblíuna. Þær geta hjálpað þér að ákveða hvort þú eigir að lesa og kynna þér þessa einstöku bók.

Spurningar um dauðann og líf eftir dauðann

Karen, sem býr í Bandaríkjunum, missti móður sína fyrir nokkru. Allt frá barnæsku hafði hún trúað því að allir góðir menn færu til himna þegar þeir dæju. Þessi trú var henni ekki til mikillar huggunar. Hún velti fyrir sér spurningum eins og: Hvernig lítur mamma út núna uppi á himni? Hvernig finn ég hana þegar ég fer þangað, ef ég fer þangað? Gæti ég lent á einhverjum öðrum stað þegar ég dey?

Karen fór að kynna sér vandlega Biblíuna með hjálp votta Jehóva. Hún komst að raun um að hinir dánu eru ekki á himnum heldur er eins og þeir sofi djúpum svefni. „Hinir dauðu vita ekki neitt,“ stendur í Prédikaranum 9:5. En gæti hún séð móður sína aftur?

Hún fékk huggun og von þegar hún las í Biblíunni þessi orð: „Undrist þetta ekki. Sú stund kemur, þegar allir þeir, sem í gröfunum eru, munu heyra raust [Krists] og ganga fram.“ (Jóhannes 5:28, 29) Karen fékk að vita að Guð Biblíunnar hafi gefið syni sínum vald til að reisa hina dánu upp til lífs hér á jörð. „Kenningar Biblíunnar um dauðann og upprisuna eru svo rökréttar,“ segir hún.

Hvers konar tilbeiðsla er rétt?

Angela er frá Rúmeníu. Þegar hún var 14 ára bað hvítasunnuprestur þess að hún fengi heilagan anda og hún fór að tala tungum. Foreldrum hennar fannst þó að kenningar hvítasunnumanna væru ekki í samræmi við Biblíuna. Fjölskyldan hætti að mæta á trúarsamkomur þeirra og fór að kynna sér Biblíuna með vottum Jehóva.

Í fyrstu varð Angela vonsvikin en hún sá fljótt muninn á trúariðkunum safnaðarins, sem hún hafði tilheyrt, og kenningum Biblíunnar. Hún las til dæmis í Jóhannesi 17:3: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ Angela gerði sér ljóst að þeir sem fyndu náð hjá Guði yrðu fyrst að kynnast honum. „Hvernig átti ég að geta fengið anda Guðs á þennan sérstaka hátt þar sem ég þekkti hann næstum því ekkert?“ spurði hún. Angela segir: „Ég þakka Jehóva fyrir að nota innblásið orð sitt til að hjálpa mér að finna sanna tilbeiðslu.“

Ráð sem breyta lífi fólks

„Ég var mjög skapbráður,“ segir Gabriel sem býr á Indlandi. „Þegar ég varð æstur var ég vanur að öskra, kasta hlutum og jafnvel ráðast á fólk. Með því að kynna mér Biblíuna fékk ég hjálp til að stjórna skapi mínu. Ég hélt jafnvel ró minni við spennuþrungnar aðstæður.“

Gabriel hafði til dæmis lesið ritningargreinar eins og Orðskviðina 16:32 þar sem segir: „Sá sem seinn er til reiði, er betri en kappi, og sá sem stjórnar geði sínu, er meiri en sá sem vinnur borgir.“ Dhiraj er annar maður sem vann sigur á skapbresti sínum. Hann segir: „Þetta sama vers hjálpaði mér að skilja að það er veikleikamerki að missa stjórn á skapi sínu en aftur á móti merki um styrk að geta stjórnað því.“

Philip var glæpamaður í Suður-Afríku. Líf hans einkenndist af slagsmálum, ránum og ruddalegu orðbragði. Hann sat í fangelsi vegna glæpa sinna. En þrátt fyrir þetta líferni þráði Philip að kynnast Guði. Þegar hann hóf biblíunám með vottum Jehóva fór hann að langa til að þjóna Guði og ákvað að breyta um stefnu í lífinu. Hann hætti fyrri iðju og sleit sambandinu við glæpagengið. Hvaða biblíusannindi urðu til þess að hann tók þessum breytingum?

Vottar Jehóva sýndu honum orð Jesú í Jóhannesi 6:44. Þau hljóma þannig: „Enginn getur komið til mín, nema faðirinn, sem sendi mig, dragi hann.“ Philip segir: „Jehóva sá eitthvað gott í mér og leiddi mig til fólks síns, þessa frábæra bræðrafélags.“ Frásögur Biblíunnar af miskunnsemi Jehóva gagnvart iðrunarfullum afbrotamönnum snertu einnig Philip djúpt. Hann segir að þessar frásögur hafi hjálpað sér að skilja hve Jehóva er sanngjarn í samskiptum við iðrunarfulla og ófullkomna menn. — 2. Samúelsbók 12:1-14; Sálmur 51.

Ungur Ástralíubúi, Wade að nafni, misnotaði áfengi, neytti fíkniefna, stundaði fjárhættuspil og átti í mörgum siðlausum samböndum. En hamingjan rann honum úr greipum. Dag nokkurn átti hann samtal við votta Jehóva og þáði ókeypis heimabiblíunámskeið. Hvað lærði hann?

„Það hafði mikil áhrif á mig hvernig Jesús kom fram við aðra,“ segir Wade. „Hann sýndi öllum góðvild, samúð og kærleika, einnig börnum. Því meira sem ég lærði þeim mun meira langaði mig til að líkjast honum. Biblían kenndi mér hvernig ég gæti orðið sannur maður og hvernig ég gæti breytt persónuleika mínum til hins betra.“ En hvað um allt það slæma sem hann hafði gert? Wade heldur áfram: „Ég las í Biblíunni að Guð fyrirgæfi mér ef ég iðraðist synda minna og breytti mér. Ég gæti meira að segja lifað að eilífu í paradís á jörð. Loksins gat ég hlakkað til framtíðarinnar!“ (Matteus 5:5) Wade breytti um líferni og tilbiður nú Jehóva með hreinni samvisku.

Það sem þú varst að lesa eru frásögur af fólki sem langaði til að bæta líf sitt. Það kynnti sér Biblíuna til að sjá hvort kenningar hennar gætu komið að gagni við lausn vandamála og svarað spurningum þess. Árangurinn varð góður og það hefur sannfært þetta fólk um að það getur treyst hagnýtum leiðbeiningum Biblíunnar. Þú getur gert það líka.

Í innblásnum orðskvið frá löngu liðnum tíma stendur: „Sæll er sá maður, sem öðlast hefir speki, sá maður, sem hyggindi hlotnast. Því að betra er að afla sér hennar en að afla silfurs, og arðurinn af henni ágætari en gull. Hún er dýrmætari en perlur, og allir dýrgripir þínir jafnast ekki á við hana. Langir lífdagar eru í hægri hendi hennar, auður og mannvirðingar í vinstri hendi hennar. Vegir hennar eru yndislegir vegir og allar götur hennar velgengni. Hún er lífstré þeim, sem grípa hana, og sæll er hver sá, er heldur fast í hana.“ — Orðskviðirnir 3:13-18.

[Rammi/mynd á blaðsíðu 25]

HVERNIG BIBLÍAN KOM FANGA AÐ GAGNI

Maður að nafni Bill var í farsælu hjónabandi. En áður en fyrsta brúðkaupsafmælið rann upp fór hann í fangelsi vegna afbrota sem hann hafði framið mörgum árum áður.

Þegar Bill hafði náð sér eftir áfallið sem fylgdi frelsissviptingunni ákvað hann að nota erfiðu dagana fram undan á árangursríkan hátt. „Ég sat á svefnbekknum og las Biblíuna og kynnti mér efni hennar,“ segir hann. Hann nýtti sér það sem hann lærði. „Ég var vinsamlegur við þá sem voru með mér í klefa og þeir sáu að ég vildi ekki hegða mér eins og þeir. Þeir voru vanir að segja um mig: ‚Bill vill eyða tímanum á sinn hátt og kynnast Guði og Biblíunni. Hann kemur engum í vandræði.‘

Hinir fangarnir héldu mér utan við deilur og aðrar uppákomur sínar vegna þess orðs sem fór af mér. Verðirnir komust að raun um að ég yrði ekki til vandræða. Þar af leiðandi mæltu þeir með mér til starfa þar sem ég vann fjarri fangahópnum mestan hluta dagsins. Ég fékk mikla vernd með því að fylgja meginreglum Biblíunnar.“

Bill sótti samkomur Votta Jehóva sem haldnar voru í fangelsinu og var duglegur að segja öðrum föngum frá því sem hann var að læra. Hann lét skírast sem vottur Jehóva meðan hann tók út dóm sinn. Þegar hann síðar minnist fyrri tíma segir hann: „Ég hafði kastað á glæ næstum 50 árum ævi minnar og mig langaði til að bæta mig. Ég er sannfærður um að eina leiðin til þess fyrir fanga er að fara eftir kenningum Biblíunnar. Og leiðin til að kynnast Biblíunni náið er að lesa hana með Vottum Jehóva. Trúarsöfnuður þeirra er sá eini sem kennir sannleika Biblíunnar. Svo einfalt er það.“

Bill er laus úr fangelsi og starfar nú af kappi í einum söfnuði Votta Jehóva í Bandaríkjunum. Hann heldur áfram, ásamt eiginkonu sinni, að lesa og rannsaka orð Guðs og lifa í samræmi við það. Þau meta mikils það sem stendur í Jesaja 48:17, 18: „Ég, Drottinn Guð þinn, er sá sem kenni þér að gjöra það sem þér er gagnlegt, sem vísa þér þann veg, er þú skalt ganga. Æ, að þú vildir gefa gaum að boðorðum mínum, þá mundi heill þín verða sem fljót og réttlæti þitt sem bylgjur sjávarins.“

[Mynd á blaðsíðu 23]

Karen, Bandaríkjunum.

[Mynd á blaðsíðu 23]

Angela, Rúmeníu.

[Mynd á blaðsíðu 24]

Gabriel, Indlandi.

[Mynd á blaðsíðu 24]

Dhiraj, Indlandi.

[Mynd á blaðsíðu 24, 25]

Philip og fjölskylda, Suður-Afríku.

[Mynd á blaðsíðu 24]

Wade, Ástralíu.