Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ástæður til að treysta Biblíunni

1. Söguleg nákvæmni

1. Söguleg nákvæmni

Það er erfitt að treysta bók sem fer rangt með staðreyndir. Segjum sem svo að þú læsir sögubók sem héldi því fram að seinni heimsstyrjöldin hefði átt sér stað á 19. öld eða kallaði forseta Bandaríkjanna konung. Myndu þessar villur ekki vekja hjá þér efasemdir um áreiðanleika bókarinnar?

ENGUM hefur tekist að afsanna sögulega nákvæmni Biblíunnar. Hún talar um raunverulegt fólk og raunverulega atburði.

Fólk.

Biblíugagnrýnendur hafa dregið í efa tilvist Pontíusar Pílatusar, rómverska landshöfðingjans í Júdeu sem framseldi Jesú til staurfestingar. (Matteus 27:1-26) En sannanir fyrir því að Pílatus hafi setið að völdum í Júdeu er að finna á áletruðum steini sem fannst árið 1961 í hafnarborginni Sesareu við Miðjarðarhaf.

Fyrir árið 1993 voru engar heimildir fyrir utan Biblíuna sem studdu tilvist Davíðs, hins unga og hugrakka fjárhirðis sem síðar varð konungur Ísraels. Á því ári fundu fornleifafræðingar hins vegar stein úr basalti frá 9. öld f.Kr. Hann fannst í norðurhluta Ísraels og sérfræðingar segja að á honum sé að finna orðin „hús Davíðs“ og „konungur Ísraels“.

Atburðir.

Fyrir ekki svo löngu efuðust margir fræðimenn um að frásaga Biblíunnar af orustu Edómíta og Ísraelsmanna á dögum Davíðs væri áreiðanleg. (2. Samúelsbók 8:13, 14) Þeir héldu því fram að á þessum tíma hafi Edóm aðeins verið fábrotin hirðingjaþjóð og ekki nógu skipulögð eða máttug til að ógna Ísrael fyrr enn löngu síðar. Nýlegur fornleifauppgröftur gefur hins vegar til kynna að „Edóm hafi verið skipulögð þjóð öldum áður [en talið hefur verið], eins og fram kemur í Biblíunni,“ segir í grein í tímaritinu Biblical Archaeology Review.

Réttir titlar.

Margir leiðtogar voru uppi á þeim 16 öldum sem það tók að skrifa Biblíuna. Þegar Biblían talar um leiðtoga notar hún alltaf rétta titla. Hún segir til dæmis réttilega að Heródes Antípas hafi verið „fjórðungsstjóri“ og Gallío „landstjóri“. (Lúkas 3:1; Postulasagan 18:12) Í Esrabók 5:6 er Tatnaí titlaður landstjóri persneska héraðsins „hinumegin Fljóts“, það er að segja Efratfjóts. Á peningi frá fjórðu öld f.Kr. er að finna svipaða lýsingu þar sem persneski landstjórinn Mazaeus er sagður stjórna héraðinu „hinumegin Fljóts“.

Mikilvægt er að rétt sé farið með staðreyndir jafnvel þótt þær virðist smávægilegar. Ef við getum treyst því að biblíuritararnir fari rétt með smáatriði eykur það þá ekki traust okkar á öðru sem þeir skrifuðu?