Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ranghugmynd eða staðreynd?

Ranghugmynd eða staðreynd?

Ranghugmynd eða staðreynd?

Kristni öldungurinn Tímóteus hvatti þá sem vildu þjóna hinum sanna Guði til að hlusta ekki á „annarlegar kenningar“ og ‚ævintýri‘, það er að segja ranghugmyndir. (1. Tímóteusarbréf 1:3, 4) Er ástæða til að vera á varðbergi gagnvart slíku nú á dögum? Vissulega. Ranghugmyndir um Biblíuna og kenningar hennar fá fólk til að snúa baki við sannri tilbeiðslu. Hér á eftir eru nefndar nokkrar algengar hugmyndir sem fólk hefur um Biblíuna. Skoðaðu hvað Biblían segir sjálf um málið. Það getur hjálpað þér að greina ranghugmynd frá staðreynd.

Ranghugmynd: Það er óhugsandi að kraftaverkin í Biblíunni hafi átt sér stað.

Staðreynd: Mennirnir eiga margt ólært um sköpunarverk Guðs. Enginn vísindamaður getur útskýrt þyngdarlögmálið til hlítar, gert nákvæmlega grein fyrir öllum efnisþáttum atóms eða útskýrt eðli tímans. „Getur þú náð til botns í Guði eða komist til ystu takmarka hins Almáttka?“ (Jobsbók 11:7) Þar sem mennirnir geta ekki skilið sköpunarverkið til fullnustu eru færir vísindamenn hikandi núorðið við að segja að eitthvað sé ómögulegt.

Ranghugmynd: Öll trúarbrögð veita aðgang að Guði.

Staðreynd: Jesús sagði: „Ef þér eruð stöðugir í orði mínu, eruð þér sannir lærisveinar mínir og munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa“. (Jóhannes 8: 31, 32) Þyrftu meðlimir hinna ólíku trúarbragða nokkuð á frelsun að halda ef öll trúarbrögð veittu aðgang að Guði? Jesús kenndi meira að segja að tiltölulega fáir væru á veginum sem „liggur til lífsins“. — Matteus 7:13, 14.

Ranghugmynd: Allir góðir menn fara til himna þegar þeir deyja.

Staðreynd: „Hinir hógværu fá landið til eignar, gleðjast yfir ríkulegri gæfu. Hinir réttlátu fá landið til eignar og búa í því um aldur. Vona á Drottin og gef gætur að vegi hans, þá mun hann hefja þig upp, að þú erfir landið.“ (Sálmur 37:11, 29, 34) Aðeins 144.000 trúfastir karlar og konur fara til himna. Guð hefur falið þeim það verkefni að „ríkja sem konungar yfir jörðinni“. — Opinberunarbókin 5:9, 10, New World Translation of the Holy Scriptures; 14:1, 4.

Ranghugmynd: „Gamla testamentið“ gagnast kristnum mönnum ekki lengur.

Staðreynd: „Sérhver ritning er innblásin af Guði og nytsöm.“ (2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) „Allt það, sem áður er ritað, er ritað oss til uppfræðingar, til þess að vér fyrir þolgæði og huggun ritninganna héldum von vorri.“ (Rómverjabréfið 15:4) „Gamla testamentið“, það er að segja Hebresku ritningarnar, er mikilvægt því að þar lærum við um Guð og fyrirætlun hans. Það er jafnframt grundvöllur þess að trúa á „Nýja testamentið“, eða Grísku ritningarnar.

Ranghugmynd: Stór hluti 1. Mósebókar er aðeins líkingasaga, þar á meðal frásagan af Adam og Evu.

Staðreynd: Guðspjallaritarinn Lúkas rekur ættartölu Jesú aftur til Adams. (Lúkas 3:23-38) Spurningin er því þessi: Ef 1. Mósebók er skáldskapur hvenær var þá hætt að skrá sannsögulegar persónur og byrjað að skrá goðsagnapersónur? Jesús var á himnum áður en hann kom til jarðar og hann trúði frásögn 1. Mósebókar, þar með talið frásögunni af Adam og Evu. (Matteus 19:4-6) Við værum því í rauninni að grafa undan trúverðugleika Jesú og margra annarra biblíuritara með því að draga frásögn 1. Mósebókar í efa. — 1. Kroníkubók 1:1; 1. Korintubréf 15:22; Júdasarbréfið 14.