Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig varðveittist Biblían fram á okkar daga?

Hvernig varðveittist Biblían fram á okkar daga?

Hvernig varðveittist Biblían fram á okkar daga?

Það er í raun kraftaverki líkast að Biblían skuli hafa varðveist allt fram á okkar daga. Lokið var við að skrifa hana fyrir meira en 1900 árum. Hún var rituð á tungumálum sem fáir tala nú á dögum og færð í letur á forgengileg efni — pappír úr papírussefi og bókfell úr dýraskinni. Auk þess hafa valdamiklir menn, allt frá keisurum til trúarleiðtoga, reynt að útrýma Biblíunni.

HVERNIG varðveittist þessi einstaka bók allt fram á okkar daga þannig að hún varð að þekktasta ritverki veraldar? Lítum nánar á tvo þætti.

Afritun

Fyrstu biblíutextarnir voru í vörslu Ísraelsmanna til forna. Þeir geymdu bókrollurnar vandlega og gerðu mörg afrit af þeim. Konungum Ísraels var til dæmis sagt að „rita eftirrit“ af lögmálinu sem var geymt hjá levítaprestunum. — 5. Mósebók 17:18.

Margir Ísraelsmenn nutu þess að lesa ritningarnar og litu á þær sem orð Guðs. Þess vegna sáu vel þjálfaðir skrifarar um að afrita textann af mikilli nákvæmni. Sagt er að einn þeirra, hinn guðhræddi Esra, hafi verið „fræðimaður, vel að sér í Móselögum, er Drottinn, Ísraels Guð, [hafði] gefið“. (Esrabók 7:6) Masoretarnir afrituðu Hebresku ritningarnar, eða „Gamla testamentið“, á sjöttu til tíundu öld og töldu jafnvel hvern staf í textanum til að forðast villur. Þessi vandvirkni í afritun Biblíunnar stuðlaði bæði að varðveislu hennar og nákvæmni textans þrátt fyrir hatrammar og ítrekaðar tilraunir til að útrýma henni.

Árið 168 f.Kr. reyndi til dæmis Antíokos 5. Sýrlandskonungur að eyða öllum eintökum af Hebresku ritningunum sem til voru í Palestínu. „Þeir rifu og brenndu allar lögmálsbókrollur sem þeir fundu,“ segir í sögu Gyðinga. Í alfræðibókinni The Jewish Encyclopedia segir: „Þeir sem sáu um að fylgja þessum fyrirmælum eftir gerðu það af mikilli hörku . . . Ef einhver átti helga bók . . . var honum refsað með lífláti.“ Engu að síður náðu Gyðingar í Palestínu og öðrum löndum að halda til haga eintökum af ritningunum.

Skömmu eftir að ritarar Grísku ritninganna, eða „Nýja testamentisins“, luku skrifum sínum fjölgaði hratt afritum af innblásnum bréfum þeirra, spádómum og sögulegum frásögum. Jóhannes skrifaði til dæmis guðspjall sitt í borginni Efesus eða nágrenni hennar. Samt fannst brot af þessu guðspjalli í Egyptalandi í hundruð kílómetra fjarlægð frá Efesus og telja sérfræðingar að þetta afrit hafi verið gert innan við 50 árum eftir að Jóhannes skrifaði guðspjallið. Það rennir stoðum undir það að kristnir menn í fjarlægum löndum hafi fengið afrit af hinum innblásnu textum fljótlega eftir að þeir voru skrifaðir.

Þessi mikla útbreiðsla á orði Guðs stuðlaði einnig að því að það varðveittist löngu eftir daga Jesú. Að morgni dags 23. febrúar árið 303 á Díókletíanus Rómarkeisari að hafa fylgst með þegar hermenn hans brutu niður hurðir kirkju einnar og brenndu afrit af Ritningunni. Díókletíanus hélt að hann gæti útrýmt kristninni með því að eyðileggja heilagar bækur hennar. Næsta dag gaf hann út tilskipun um að brenna ætti opinberlega allar biblíur sem fyndust í Rómaveldi. Samt sem áður náðist að varðveita nokkur eintök og þau voru afrituð. Það er meira að segja líklegt að tvær grískar biblíur, sem hafa varðveist til okkar daga, hafi verið gerðar að hluta til stuttu eftir að ofsóknir Díókletíanusar hófust. Eitt eintakið er í Róm en hitt í breska þjóðarbókasafninu í London.

Þótt ekki hafi enn fundist upprunaleg biblíuhandrit hafa fundist þúsundir handskrifaðra afrita af Biblíunni í heild eða hluta sem hafa varðveist til dagsins í dag. Sum þeirra eru mjög gömul. Hefur boðskapurinn í upprunalegu handritunum breyst við afritun? Fræðimaðurinn W. H. Green sagði um Hebresku ritningarnar: „Það er óhætt að segja að ekkert annað verk úr fornöld hafi varðveist af slíkri nákvæmni.“ Einn fremsti heimildarmaður um biblíuhandrit, sir Frederic Kenyon, skrifaði um Grísku ritningarnar: „Þau rit, sem hafa fundist, sýna að tímabilið frá því að Ritningin var upphaflega skrifuð og þar til afritin voru gerð er svo stutt að það er í raun hverfandi. Þar með er það endanlega hafið yfir allan vafa að Ritningin hafi borist okkur eins og hún var upphaflega rituð. Það er því óhætt að segja að það sé endanlega staðfest að bækur Nýja testamentisins séu áreiðanlegar og óspilltar.“ Hann sagði einnig: „Það verður aldrei ítrekað nógu oft að efnislega er texti Biblíunnar öruggur. . . . Hið sama verður ekki sagt um neina aðra forna bók í heiminum.“

Biblíuþýðingar

Það að Biblían skuli hafa verið þýdd á mörg tungumál er annað atriði sem gerir það að verkum að hún er þekktasta bók veraldar. Þetta er í samræmi við vilja Guðs því að hann vill að fólk af öllum þjóðum og tungum þekki hann og tilbiðji „í anda og sannleika“. — Jóhannes 4:23, 24; Míka 4:2.

Fyrsta þýðingin á Hebresku ritningunum, sem vitað er um, er gríska Sjötíumannaþýðingin. Hún var ætluð grískumælandi Gyðingum sem bjuggu fyrir utan Palestínu og lokið var við gerð hennar um tveim öldum áður en Jesús hóf þjónustu sína hér á jörð. Biblían í heild, að Grísku ritningunum meðtöldum, var þýdd yfir á mörg tungumál fáeinum öldum eftir að ritun hennar lauk. En seinna reyndu konungar og jafnvel prestar að halda hinum trúuðu í andlegu myrkri með því að banna að Biblían væri þýdd á mál alþýðunnar. Þeir hefðu einmitt átt að gera hið gagnstæða og reyna eftir fremsta megni að koma Biblíunni í hendur fólksins.

Hugrakkir menn stóðu gegn ríki og kirkju og hættu lífi sínu til að þýða Biblíuna á tungumál fólksins. Dæmi um það var Englendingurinn William Tyndale. Hann hlaut menntun sína í Oxford og árið 1530 lauk hann við að þýða Fimmbókaritið, fyrstu fimm bækur Hebresku ritninganna. Þrátt fyrir mikla andstöðu varð hann fyrstur til að þýða Biblíuna beint úr hebresku yfir á ensku. Tyndale var líka fyrsti enski þýðandinn sem notaði nafnið Jehóva. Spænski biblíufræðingurinn Casiodoro de Reina var í stöðugri lífshættu vegna ofsókna kaþólikka þegar hann vann að spænskri þýðingu Biblíunnar. Hann ferðaðist til Englands, Þýskalands, Frakklands, Hollands og Sviss meðan hann vann að þýðingunni. *

Enn þann dag í dag er unnið að því að þýða Biblíuna á fleiri tungumál og hún er gefin út í milljónatali. Biblían hefur varðveist allt til okkar daga og orðið að þekktustu bók veraldar. Þetta undirstrikar sannleikann í innblásnum orðum Péturs postula: „Grasið skrælnar og blómið fellur. En orð Drottins varir að eilífu.“ — 1. Pétursbréf 1:24, 25.

[Neðanmáls]

^ Þýðing Reina var gefin út 1569 og var endurskoðuð af Cipriano de Valera árið 1602.

[Rammi/myndir á blaðsíðu 14]

HVAÐA ÞÝÐINGU ÆTTIRÐU AÐ LESA?

Á mörgum tungumálum eru til nokkrar þýðingar á Biblíunni. Sumar þeirra eru á þungu og fornu máli en aðrar frjálslegar endursagnir þar sem lögð er meiri áhersla á að textinn sé auðveldur aflestrar en að þýðingin sé hárnákvæm. Og sumar eru mjög bókstaflegar, næstum þýddar orð fyrir orð.

Hin enska New World Translation of the Holy Scriptures (Nýheimsþýðing heilagrar ritningar), sem Vottar Jehóva gefa út, var þýdd beint úr frummálunum en þeir sem sátu í þýðingarnefndinni hafa óskað nafnleyndar. Enska þýðingin hefur síðan verið notuð sem grunnur að þýðingu Biblíunnar á um það bil 60 önnur tungumál en frummálstextinn var líka notaður mikið til samanburðar. Í Nýheimsþýðingunni er frummálstextinn þýddur bókstaflega ef merkingin glatast ekki við það. Þýðendurnir leitast við að gera Biblíuna jafn skiljanlega fyrir lesendur okkar tíma og frumtextinn var fyrir lesendur síns tíma.

Nokkrir málvísindamenn hafa skoðað ýmsar nútímaþýðingar Biblíunnar, þeirra á meðal Nýheimsþýðinguna, til að leita dæma um ónákvæmni og hlutdrægni. Einn þeirra heitir Jason David BeDuhn og er dósent við Norður-Arizona-háskóla í Bandaríkjunum. Árið 2003 birti hann 200 blaðsíðna skýrslu um rannsókn sína á níu „útbreiddustu biblíum hins enskumælandi heims“. * Hann rannsakaði nokkrar umdeildar ritningargreinar því að þar er „mest hætta á að hlutdrægni gæti í þýðingunni“. Í hverju tilviki bar hann gríska textann saman við ensku þýðinguna og leitaði dæma um að hlutdrægir þýðendur hefðu reynt að breyta merkingunni. Hver var niðurstaðan?

BeDuhn nefnir að almenningur og margir biblíufræðingar geri ráð fyrir að munurinn á Nýheimsþýðingunni (NW) og ýmsum öðrum biblíuþýðingum stafi af trúarlegri hlutdrægni þýðendanna. Hann segir hins vegar: „Munurinn stafar í flestum tilfellum af því að NW er bókstafleg og varfærin þýðing og þar með nákvæmari.“ Þótt hann sé ekki sammála orðalagi Nýheimsþýðingarinnar í vissum tilfellum segir hann að hún hafi reynst „nákvæmust þeirra þýðinga sem bornar voru saman“. Hann kallar hana „ótrúlega góða“ þýðingu.

Dr. Benjamin Kedar er hebreskufræðingur í Ísrael. Hann gaf Nýheimsþýðingunni svipaða einkunn árið 1989: „Þetta verk ber vitni um heiðarlega viðleitni til að skila merkingu textans eins nákvæmlega og unnt er. . . . Ég hef ekki fundið dæmi í Nýheimsþýðingunni um hlutdrægar tilraunir til að leggja annan skilning í textann en til var ætlast.“

Það er gott að spyrja sig hvaða markmið maður hafi með því að lesa Biblíuna. Leggurðu meira upp úr því að þýðingin sé auðlesin en nákvæm? Eða langar þig til að lesa þýðingu sem skilar merkingu hins innblásna frumtexta eins nákvæmlega og unnt er? (2. Pétursbréf 1:20, 21) Þú ættir að velja þér þýðingu í samræmi við það.

[Neðanmáls]

^ Auk Nýheimsþýðingarinnar kannaði hann The Amplified New Testament, The Living Bible, The New American Bible With Revised New Testament, New American Standard Bible, The Holy Bible — New International Version, The New Revised Standard Version, The Bible in Today’s English Version og King James Version.

[Mynd]

„Nýheimsþýðing heilagrar ritningar“ er fáanleg á mörgum tungumálum.

[Myndir á blaðsíðu 12, 13]

Masoretahandrit

[Mynd á blaðsíðu 13]

Handritabrot af Lúksarguðspjalli 12:7, „ . . . verið óhræddir, þér eruð meira verðir en margir spörvar“.

[Mynd credit lines á blaðsíðu 13]

Fremsta blaðsíða: National Library of Russia, St. Petersburg. Önnur og þriðja blaðsíða: Bibelmuseum, Münster. Mynd í bakgrunni: © The Trustees of the Chester Beatty Library, Dublin.