Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Að treysta eða treysta ekki

Að treysta eða treysta ekki

„Treystu’ ekki á fúa-fleytur,“ skrifaði enska leikritaskáldið William Shakespeare. * Sá sem stígur um borð í bát vill vera viss um að viðurinn í bátnum sé ekki fúinn.

ORÐ Shakespeares enduróma það sem Salómon Ísraelskonungur skrifaði fyrir um 3000 árum: „Einfaldur maður trúir öllu, en kænn maður athugar fótmál sín.“ (Orðskviðirnir 14:15) Já, það er óskynsamlegt að trúa öllu í blindni og byggja ákvarðanir sínar og breytni á órökstuddum ráðum og kenningum. Það getur haft hörmulegar afleiðingar að leggja traust á eitthvað sem er ekki traustsins vert. Það er eins og að fara um borð í fúinn bát. En þér er kannski spurn hvort hægt sé að finna leiðbeiningar sem við getum treyst.

Milljónir manna um heim allan leggja traust sitt á aldagamla bók — Biblíuna. Þeir treysta henni til að stýra skrefum sínum. Þeir byggja ákvarðanir sínar á ráðum hennar og hegða sér í samræmi við kenningar hennar. Eru þeir að treysta á „fúa-fleytur“? Svarið við þessari spurningu

ræðst af svari við annarri spurningu: Höfum við góðar og gildar ástæður til að treysta Biblíunni? Í þessari sérútgáfu af Vaknið! verða sönnunargögnin skoðuð.

Markmiðið með þessu tölublaði af Vaknið! er ekki að þröngva upp á þig trúarskoðunum heldur að kynna fyrir þér þau sterku rök sem hafa sannfært milljónir manna um að hægt sé að treysta Biblíunni. Þegar þú hefur lesið eftirfarandi greinar geturðu ákveðið hvort þér finnist Biblían vera traustsins verð.

Þetta viðfangsefni verðskuldar alla athygli þína. Ef Biblían er í rauninni áreiðanlegur leiðarvísir frá skaparanum er það þér og ástvinum þínum fyrir bestu ef þú kynnir þér það sem hún hefur að segja.

En fyrst skulum við skoða nokkrar athyglisverðar staðreyndir um Biblíuna. Enginn vafi leikur á því að hún er alveg einstök bók.

^ Íslensk þýðing: Helgi Hálfdanarson.