Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Um hvað fjallar Biblían?

Um hvað fjallar Biblían?

Um hvað fjallar Biblían?

SUMIR líta á Biblíuna sem mannkynssögubók því að hún greinir frá samskiptum Guðs við mannkynið í aldanna rás. Aðrir telja hana vera bók um siðferði og benda á ríflega 600 lög og reglur sem Guð gaf Ísraelsþjóðinni um réttarfar, fjölskyldulíf, siðferði og trúariðkun. Enn aðrir telja að hún opinberi sjónarmið Guðs og sé því leiðarvísir í andlegum málum.

Allar þessar lýsingar eiga reyndar við Biblíuna. Hún segir sjálf: „Sérhver ritning er innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar, til menntunar í réttlæti, til þess að sá, sem tilheyrir Guði, sé albúinn og hæfur gjör til sérhvers góðs verks.“ (2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) Allt sem er skráð í orði Guðs er verðmætt, þar á meðal lög og ákvæði, sögulegir atburðir og leiðbeiningar í andlegum málum.

En Biblían er miklu meira en safn gagnlegra upplýsinga. Hún er einstök að því leyti að hún er opinberun frá Jehóva Guði. Hún hefur að geyma innblásnar leiðbeiningar frá honum sem nýtast okkur dags daglega. Hún opinberar einnig fyrirætlun hans með jörðina og mannkynið og sýnir hvernig hann mun fjarlægja orsakirnar fyrir þjáningum manna. Og síðast en ekki síst segir Biblían frá því hvernig Guð var blygðunarlaust borinn röngum og alvarlegum sökum og útskýrir hvernig hann mun leiða málið til lykta.

Guð kallaður lygari og lélegur stjórnandi

Biblían segir að Guð hafi skapað Adam og Evu, fyrsta manninn og fyrstu konuna, með fullkominn huga og líkama og komið þeim fyrir í umhverfi sem hentaði þeim einstaklega vel. Hann fól þeim umsjón með jörðinni og dýraríkinu. (1. Mósebók 1:28) Adam og Eva voru börn Guðs og áttu því möguleika á eilífu lífi á jörðinni svo framarlega sem þau hlýddu himneskum föður sínum. Guð setti þeim aðeins eitt skilyrði. Hann sagði: „Af öllum trjám í aldingarðinum máttu eta eftir vild, en af skilningstrénu góðs og ills mátt þú ekki eta, því að jafnskjótt og þú etur af því, skalt þú vissulega deyja.“ — 1. Mósebók 2:16, 17.

En andavera, sem Biblían kallar Satan djöfulinn, hélt hinu gagnstæða fram og sagði: „Vissulega munuð þið ekki deyja!“ (1. Mósebók 3:1-5) Með því að mótmæla blákalt því sem Guð hafði sagt var Satan ekki aðeins að væna hann um lygi heldur véfengdi einnig stjórnarhætti hans og gaf í skyn að manninum myndi farnast betur án handleiðslu Guðs. Satan sannfærði Evu um að óhlýðni við Guð myndi færa henni frelsi og sjálfstæði til að ákveða sjálf hvað væri rétt og rangt. Hann sagði að hún myndi verða „eins og Guð“. Á þennan hátt kastaði Satan rýrð á nafn Jehóva og fyrirætlun.

Samtal Satans og Evu hafði djúpstæð áhrif. Kjarninn í boðskap Biblíunnar er reyndar sá að Jehóva ætlar að hreinsa nafn sitt. Þessu er lýst í hnotskurn í bæninni sem Jesús kenndi og er oft kölluð faðirvorið. Jesús kenndi fylgjendum sínum að biðja: „Helgist þitt nafn. Til komi þitt ríki, verði þinn vilji . . . á jörðu.“ — Matteus 6:9, 10.

Hvernig hreinsar Guð nafn sitt?

Satan vakti upp þýðingarmiklar spurningar eins og: Hvor sagði satt — Jehóva eða Satan? Er stjórn Jehóva yfir sköpuninni réttlát og góð? Hefur hann rétt til að ætlast til þess að mennirnir hlýði sér? Myndi mannkyninu farnast betur undir eigin stjórn? Til að veita svör við þessum spurningum hefur Jehóva leyft mönnunum að stjórna sér sjálfir um tíma.

Með hvaða afleiðingum? Allt frá fyrstu lyginni í Eden hafa þjáningar og harðræði einkennt mannkynssöguna. Þetta hefur sannað að Satan er erkilygari og að það er aðeins til ógæfu að vera óháður Guði. En Jehóva hefur í kærleika sínum og takmarkalausri visku áformað að hreinsa nafn sitt með því að binda enda á þjáningarnar sem hófust í Eden. Hann mun gera það fyrir tilstilli Messíasarríkisins. Hvaða ríki er það?

Guðsríki — lausn á vandamálum mannkyns

Milljónir manna fara með faðirvorið að staðaldri. Við skulum hugleiða aðeins hvað þessi bæn merkir. Hvað er átt við með orðunum: „Til komi þitt ríki“? (Matteus 6:10) Þetta ríki er annað og meira en hið góða í manninum eins og sumir hafa haldið fram. Orðið „ríki“ gefur til kynna að um stjórn sé að ræða, himneska stjórn í höndum Jesú Krists sem er „konungur konunga“. (Opinberunarbókin 19:13, 16; Daníel 2:44; 7:13, 14) Biblían kennir að hann muni ríkja yfir allri jörðinni, koma á varanlegum friði og einingu meðal manna og hreinsa jörðina af illsku. (Jesaja 9:6, 7; 2. Þessaloníkubréf 1:6-10) Það er því Guðsríki en ekki stjórnir mannanna sem mun uppfylla orð Jesú: „Verði þinn vilji . . . á jörðu.“

Til að tryggja uppfyllingu þessara orða gaf Jesús líf sitt sem lausnargjald og leysti afkomendur Adams úr fjötrum syndar og dauða. (Jóhannes 3:16; Rómverjabréfið 6:23) Undir stjórn Guðsríkis munu allir þeir sem sýna trú á lausnarfórn Krists fá að sjá áhrif erfðasyndarinnar verða að engu og fólk smám saman endurheimta fullkomleika. (Sálmur 37:11, 29) Þá verðum við loksins laus við alla þjakandi kvilla, ekki síst hrumleika ellinnar. Og meira að segja verður sársaukinn og hugarkvölin, sem sjúkdómar og dauði valda, „ekki framar til“. — Opinberunarbókin 21:4.

Hvernig getum við verið viss um að Guð muni uppfylla loforð sín? Til dæmis hafa hundruð spádóma Biblíunnar nú þegar ræst. (Sjá bls. 9.) Það má því með sanni segja að trú á Biblíuna sé ekki blind trúgirni eða óskhyggja heldur byggð á rökum og ótal sönnunum. — Hebreabréfið 11:1.

Hagnýt ráð

Biblían gefur okkur ekki aðeins örugga framtíðarvon heldur hjálpar okkur einnig að lifa innihaldsríku lífi núna. Orð Guðs veitir til dæmis óviðjafnanlegar leiðbeiningar um hjónaband, fjölskyldulíf, mannleg samskipti, sanna hamingju og margt annað. Lítum á fáein dæmi.

Hugsaðu áður en þú talar. „Þvaður sumra manna er sem spjótsstungur, en tunga hinna vitru græðir.“ — Orðskviðirnir 12:18.

Öfundaðu ekki aðra. „Líkamans líf er rólegt hjarta, en öfund er sem rotnun í beinunum.“ — Orðskviðirnir 14:30, Biblían 1859.

Agaðu börnin þín. „Fræð þú sveininn um veginn, sem hann á að halda, og á gamals aldri mun hann ekki af honum víkja.“ „Agalaus sveinn gjörir móður sinni skömm.“ — Orðskviðirnir 22:6; 29:15.

Vertu fús til að fyrirgefa. Jesús sagði: „Sælir eru miskunnsamir, því að þeim mun miskunnað verða.“ (Matteus 5:7) Hinn vitri konungur Salómon skrifaði: „Kærleikurinn breiðir yfir alla bresti.“ (Orðskviðirnir 10:12) En hvað er til ráða ef einhver hefur syndgað alvarlega gegn þér og þú getur ekki fyrirgefið honum? Biblían ráðleggur þér að „fara og tala um fyrir honum, og sé það ykkar einna í milli“. — Matteus 18:15.

Varastu fégirnd. „Fégirndin er rót alls þess, sem illt er. Við þá fíkn hafa nokkrir . . . valdið sjálfum sér mörgum harmkvælum.“ (1. Tímóteusarbréf 6:10) Taktu eftir að Biblían fordæmir ekki peningana sjálfa heldur fégirndina.

„Bréf“ frá himneskum föður okkar

Í Biblíunni er margt tekið til umfjöllunar. Eins og við höfum séð fjallar hún fyrst og fremst um Guð og áform hans. En hún fjallar líka um okkur mennina og hvernig við getum eignast hamingjuríkt líf bæði núna og um alla eilífð sem þegnar Guðsríkis. Biblían er nokkurs konar bréf frá ‚föður okkar sem er á himnum‘, Jehóva Guði. (Matteus 6:9) Í henni hefur hann gefið okkur innsýn í hugsanir sínar og opinberað vilja sinn og yndislegan persónuleika.

Með því að lesa og hugleiða Biblíuna förum við að sjá fyrir okkur hvernig Guð er í raun og veru. Þetta laðar okkur að honum og við eignumst náið og innilegt samband við hann. (Jakobsbréfið 4:8) Ljóst er að Biblían fjallar ekki aðeins um mannkynssögu, spádóma, lög og ákvæði. Hún fjallar einnig um persónulegt samband okkar við Guð. Það gerir hana að einstakri og mjög svo verðmætri bók. — 1. Jóhannesarbréf 4:8, 16.

[Innskot á blaðsíðu 19]

Kjarnanum í boðskap Biblíunnar er fagurlega lýst í byrjun faðirvorsins.

[Rammi/mynd á blaðsíðu 21]

HVERNIG ER BEST AÐ LESA BIBLÍUNA?

Biblían er heillandi lesning. Frásagnir hennar eru svo þekktar að þeim bregður oft fyrir í bókmenntum þjóða víða um heim. Hið sama er að segja um siðferðisboðskap hennar. Biblían hjálpar okkur að kynnast skaparanum, Jehóva Guði. Hún er einnig óþrjótandi uppspretta visku og hygginda. Í Orðskviðunum segir: „Upphaf viskunnar er: afla þér visku, afla þér hygginda fyrir allar eigur þínar!“ (Orðskviðirnir 4:7) Hvernig geturðu haft sem mest gagn af biblíulestri?

Reyndu að gefa þér tíma til að lesa í Biblíunni þegar þú átt auðveldast með að einbeita þér. Lestu ekki of hratt yfir efnið. Markmiðið ætti að vera að fylla hugann af hugsunum Guðs og tileinka sér þær. Eftir hverja lestrarlotu skaltu hugleiða það sem þú hefur lesið og bera það saman við það sem þú veist nú þegar. Það mun auka skilning þinn og þakklæti. — Sálmur 143:5.

Sumir velta fyrir sér hvar þeir ættu að byrja að lesa í Biblíunni. Það er auðvitað hægt að byrja á byrjuninni. Hins vegar finnst mörgum sem lesa Biblíuna í fyrsta skipti auðveldara að byrja á því að lesa guðspjöllin — Matteus, Markús, Lúkas og Jóhannes — frásagnirnar af ævi og þjónustu Jesú. Síðan snúa sumir sér að ljóðabókunum — Sálmunum, Orðskviðunum og Prédikaranum — en þær eru bæði fallega skrifaðar og fullar af visku. Eftir það gæti verið að þig langi til að kynna þér fleiri biblíubækur. (Sjá ramma hér fyrir neðan.) Það er misskilningur að maður þurfi aðeins að lesa hið svonefnda Nýja testamenti. Hafðu hugfast að „sérhver ritning er innblásin af Guði og nytsöm“. — 2. Tímóteusarbréf 3:16.

Það er sérstaklega árangursríkt að kynna sér Biblíuna með því að taka eitt viðfangsefni fyrir í einu. Í biblíunámsbókinni Hvað kennir Biblían?, sem vottar Jehóva nota í boðunarstarfi sínu, er að finna mjög tímabært efni. Í henni eru meðal annars kaflarnir: „Hamingjuríkt fjölskyldulíf“, „Tilbeiðsla sem Guð hefur velþóknun á“ og „Hvar eru hinir dánu?“ — Sjá rammann á bls. 18.

[Rammi á blaðsíðu 21]

AÐ LESA BIBLÍUNA EFTIR EFNI

Uppruni lífsins og syndarfall mannsins 1. Mósebók

Tilurð Ísraelsþjóðarinnar til forna 2. Mósebók til 5. Mósebókar

Spennandi frásagnir Jósúabók til Esterarbókar

Hjartnæm ljóð og söngvar Jobsbók, Sálmarnir, Ljóðaljóðin

Lífsspeki Orðskviðirnir, Prédikarinn

Spádómar og leiðsögn í siðferðismálum Jesaja til Malakís og Opinberunarbókin

Ævi og kennsla Jesú Matteusarguðspjall til Jóhannesarguðspjalls

Tilkoma og útbreiðsla kristninnar Postulasagan

Bréf til safnaðanna Rómverjabréfið til Júdasarbréfsins