Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ástæður til að treysta Biblíunni

2. Hreinskilni og heiðarleiki

2. Hreinskilni og heiðarleiki

Heiðarleiki er grundvöllur trausts. Maður, sem er þekktur fyrir að vera heiðarlegur, ávinnur sér kannski traust þitt en ef hann lýgur að þér, þótt ekki sé nema einu sinni, gæti hann glatað því.

BIBLÍURITARARNIR voru heiðarlegir menn sem sögðu satt og rétt frá. Hreinskilni þeirra ber vitni um sannleiksgildi þess sem þeir skrifuðu.

Mistök og brestir.

Biblíuritararnir viðurkenndu opinskátt eigin mistök og veikleika. Móse sagði frá mistökum sem hann gerði og voru honum dýrkeypt. (4. Mósebók 20:7-13) Asaf viðurkenndi að um tíma hefði hann öfundað hina óguðlegu af velsæld þeirra. (Sálmur 73:1-14) Jónas sagði frá óhlýðni sinni og röngum viðhorfum sem hann hafði í fyrstu þegar Guð sýndi iðrandi syndurum miskunn. (Jónas 1:1-3; 3:10; 4:1-3) Matteus segir hreinskilnislega frá því að hann hafi yfirgefið Jesú nóttina sem Jesús var handtekinn. — Matteus 26:56.

Ritarar Hebresku ritninganna fóru ekki í felur með síendurteknar kvartanir og uppreisn þjóðar sinnar. (2. Kroníkubók 36:15, 16) Þeir hlífðu engum, ekki einu sinni leiðtogum þjóðarinnar. (Esekíel 34:1-10) Og í bréfum sínum segja postularnir hreinskilnislega frá alvarlegum vandamálum innan safnaðanna á fyrstu öld og erfiðleikum einstakra kristinna manna, þar á meðal þeirra sem gegndu ábyrgðarstöðum. — 1. Korintubréf 1:10-13; 2. Tímóteusarbréf 2:16-18; 4:10.

Biblíuritarar eins og Jónas sögðu frá eigin mistökum.

Óþægilegur sannleikur.

Biblíuritararnir reyndu ekki að fegra það sem sumum gæti hafa fundist vandræðalegt að segja frá. Kristnir menn á fyrstu öld viðurkenndu opinskátt að þeir hefðu ekki verið vinsælir í augum heimsins heldur taldir heimskir og fyrirlitlegir. (1. Korintubréf 1:26-29) Ritararnir sögðu að postular Jesú hefðu verið álitnir „ólærðir leikmenn“. — Postulasagan 4:13.

Guðspjallaritararnir breyttu ekki staðreyndum til að gefa betri mynd af Jesú. Þeir sögðu heiðarlega frá því að hann hefði fæðst við fátæklegar aðstæður, tilheyrt verkamannafjölskyldu, að hann hefði ekki lært við virtar menntastofnanir þess tíma og að meirihluti þeirra sem á hann hlýddu hefði hafnað boðskap hans. — Matteus 27:25; Lúkas 2:4-7; Jóhannes 7:15.

Í Biblíunni er greinilega að finna fjölmargar sannanir fyrir því að hún sé verk heiðarlegra ritara. Gefur heiðarleiki þeirra þér ástæðu til að treysta Biblíunni?