Postulasagan 4:1–37

  • Pétur og Jóhannes handteknir (1–4)

    • Tala trúaðra karlmanna nær 5.000 (4)

  • Réttarhöld fyrir Æðstaráðinu (5–22)

    • „Við getum ekki hætt að tala“ (20)

  • Bæn um hugrekki (23–31)

  • Lærisveinarnir hafa allt sameiginlegt (32–37)

4  Meðan Pétur og Jóhannes voru að tala til fólksins komu prestarnir, varðforingi musterisins og saddúkearnir til þeirra.  Þeir voru gramir yfir því að postularnir voru að kenna fólkinu og boða að Jesús væri risinn upp frá dauðum.*  Þeir handtóku þá og settu í varðhald fram á næsta dag því að það var komið kvöld.  En margir þeirra sem höfðu hlustað á ræðuna tóku trú og tala karlmanna varð um 5.000.  Daginn eftir komu leiðtogar fólksins, öldungar og fræðimenn saman í Jerúsalem  ásamt Annasi yfirpresti, Kaífasi, Jóhannesi, Alexander og öllum ættingjum yfirprestsins.  Þeir létu leiða Pétur og Jóhannes fyrir sig og fóru að yfirheyra þá. „Með hvaða valdi eða í nafni hvers gerðuð þið þetta?“ spurðu þeir.  Þá sagði Pétur, fullur heilögum anda: „Leiðtogar fólksins og öldungar.  Við erum yfirheyrðir í dag vegna góðverks í þágu fatlaðs manns og þið viljið vita hver læknaði hann. 10  Þið og allir Ísraelsmenn skuluð vita að maðurinn læknaðist í nafni Jesú Krists frá Nasaret. Þessi maður stendur heilbrigður frammi fyrir ykkur, þökk sé honum sem þið staurfestuð en Guð reisti upp frá dauðum. 11  Þessi Jesús er ‚steinninn sem þið smiðirnir virtuð einskis en er orðinn að aðalhornsteini‘.* 12  Auk þess getur enginn annar en hann frelsað mennina því að ekkert annað nafn undir himninum er gefið mönnum sem getur frelsað okkur.“ 13  Þegar þeir sáu hve djarfmæltir* Pétur og Jóhannes voru og áttuðu sig á að þeir voru ómenntaðir* almúgamenn undruðust þeir, og það rann upp fyrir þeim að þeir höfðu verið með Jesú. 14  Þeir sáu líka manninn sem hafði læknast standa hjá þeim og gátu ekki mótmælt þessu. 15  Þeir skipuðu þeim þá að fara út úr sal Æðstaráðsins, báru saman ráð sín 16  og sögðu: „Hvað eigum við að gera við þessa menn? Það er augljóst að þeir hafa unnið kraftaverk sem allir Jerúsalembúar vita af. Við getum ekki neitað því. 17  Við skulum hóta þeim og banna þeim að tala framar við nokkurn mann í þessu nafni svo að þetta berist ekki frekar út meðal fólksins.“ 18  Síðan kölluðu þeir þá fyrir sig og skipuðu þeim að hætta með öllu að tala og kenna í nafni Jesú. 19  En Pétur og Jóhannes svöruðu þeim: „Dæmið sjálfir hvort það sé rétt í augum Guðs að hlusta á ykkur frekar en Guð. 20  En við getum ekki hætt að tala um það sem við höfum séð og heyrt.“ 21  Þeir hótuðu þeim enn frekar og létu þá síðan lausa þar sem þeir fundu ekkert tilefni til að refsa þeim. Þeir óttuðust líka fólkið því að allir lofuðu Guð fyrir það sem hafði gerst. 22  En maðurinn sem hafði læknast fyrir kraftaverk var yfir fertugt. 23  Eftir að þeim var sleppt fóru þeir til hinna lærisveinanna og sögðu þeim hvað yfirprestarnir og öldungarnir höfðu sagt við þá. 24  Þegar þeir heyrðu það báðu þeir í sameiningu til Guðs og sögðu: „Alvaldur Drottinn, þú ert sá sem gerðir himin og jörð og hafið og allt sem í þeim er. 25  Þú lést Davíð, forföður okkar og þjón þinn, segja fyrir tilstilli heilags anda: ‚Af hverju æstust þjóðirnar og af hverju voru þjóðflokkar með tilgangslaus áform? 26  Konungar jarðarinnar tóku sér stöðu og leiðtogarnir sameinuðust gegn Jehóva* og gegn hans smurða.‘* 27  Já, bæði Heródes og Pontíus Pílatus söfnuðust saman í þessari borg ásamt mönnum af þjóðunum og Ísraelsmönnum gegn heilögum þjóni þínum Jesú, sem þú smurðir, 28  til að gera það sem þú ákvaðst fyrir fram samkvæmt mætti þínum og vilja. 29  Og nú, Jehóva,* gefðu gaum að hótunum þeirra og veittu þjónum þínum kjark til að halda áfram að tala orð þitt óttalaust. 30  Réttu út hönd þína til að lækna og láttu tákn og undur verða í nafni heilags þjóns þíns, Jesú.“ 31  Eftir að þeir höfðu beðið innilega skalf staðurinn þar sem þeir voru samankomnir og þeir fylltust heilögum anda allir sem einn og töluðu orð Guðs óttalaust. 32  Allir þeir sem trúðu voru sameinaðir í hjarta og sál* og enginn þeirra taldi neitt sem hann átti vera sitt heldur höfðu þeir allt sameiginlegt. 33  Postularnir héldu áfram að vitna af miklum krafti um upprisu Drottins Jesú og Guð sýndi öllum einstaka góðvild. 34  Engan skorti nokkuð því að allir sem áttu akra eða hús seldu þau og komu með andvirðið 35  og afhentu postulunum. Hverjum og einum var síðan úthlutað eftir þörfum. 36  Einn þeirra var Jósef, Levíti frá Kýpur sem postularnir kölluðu einnig Barnabas (en það þýðir ‚huggunarsonur‘). 37  Hann átti landskika, seldi hann og kom með peningana og afhenti postulunum.

Neðanmáls

Eða „boða upprisuna frá dauðum með vísan til Jesú“.
Orðrétt „efsta hluta hornsins“.
Eða „hugrakkir“.
Eða „ólærðir“, það er, ekki menntaðir við rabbínaskólana. Merkir ekki að þeir hafi verið ólæsir og óskrifandi.
Sjá orðaskýringar.
Eða „Kristi“.
Sjá orðaskýringar.
Sjá orðaskýringar.