Hoppa beint í efnið

Hvar get ég fundið von?

Hvar get ég fundið von?

Svar Biblíunnar

 Biblían fullvissar okkur um að Guð vilji gefa okkur „von og góða framtíð“. a (Jeremía 29:11) ‚Huggunin sem Ritningarnar veita‘ er ein ástæða þess að Guð hefur gefið okkur Biblíuna. (Rómverjabréfið 15:4) Eins og við munum skoða sér hún okkur fyrir góðum leiðbeiningum sem geta veitt okkur jákvætt viðhorf til að takast á við dagleg vandamál auk þess að gefa okkur von um dásamlega framtíð.

Í þessari grein

 Hvernig hjálpar Biblían okkur að vera bjartsýn?

 Biblían gefur okkur hagnýt ráð sem geta hjálpað okkur að vera bjartsýn. Skoðum dæmi um það.

  •   Leitaðu í Biblíuna eftir hagnýtum leiðbeiningum. Sálmur 119:105 segir: „Orð þitt er lampi fóta minna og ljós á götu minni.“ Öflugt ljós getur gert tvennt. Það getur lýst upp það sem er beint fyrir framan fætur okkar og hjálpað okkur að sjá það sem er lengra í burtu. Á líkan hátt geta hagnýtar meginreglur Biblíunnar hjálpað okkur að takast á við vandamál sem verða á vegi okkar og gefið okkur jákvætt hugarfar. Það sem Biblían kennir getur veitt okkur nýjan kraft og gleði í hjartað. (Sálmur 19:7, 8) Á sama tíma hjálpar Biblían okkur að sjá yndislegan tilgang Guðs með framtíðina fyrir mannkynið á jörðinni. Sú von getur gefið okkur varanlega gleði og lífsfyllingu.

  •   Leyfðu öðrum að hjálpa þér. Þegar aðstæður okkar virðast vonlausar gætum við haft tilhneigingu til að draga okkur í hlé frá ættingjum og vinum. Biblían segir að það sé óskynsamlegt vegna þess að það getur orðið til þess að við tökum slæmar ákvarðanir. (Orðskviðirnir 18:1) Ástvinir geta hjálpað okkur að hafa jafnvægi. Þeir geta líka gefið okkur góð ráð til að takast á við erfiðar aðstæður. (Orðskviðirnir 11:14) Þeir gætu í það minnsta uppörvað okkur og hresst okkur við svo við fáum kraft til að halda út þangað til staðan batnar. – Orðskviðirnir 12:25.

  •   Biddu til Guðs. Biblían segir: „Varpaðu byrði þinni á Jehóva og hann mun styðja þig. Hann leyfir aldrei að hinn réttláti hrasi.“ b (Sálmur 55:22) Jehóva er réttilega kallaður „Guð vonarinnar“. (Rómverjabréfið 15:13) Þú getur treyst honum fyrir „öllum áhyggjum“ þínum fullviss um að honum sé annt um þig. (1. Pétursbréf 5:7) Biblían segir: „Hann mun efla ykkur, styrkja og gera óhagganleg.“ – 1. Pétursbréf 5:10.

  •   Láttu prófraunir styrkja von þína. Biblían lofar: „Sá sem hlustar á [Guð] mun búa við öryggi og engin ógæfa skelfir hann.“ (Orðskviðirnir 1:33) Kona í Ástralíu sem heitir Margaret missti mikið af eigum sínum þegar fellibylur skall á húsinu hennar. Í stað þess að láta örvæntingu ná tökum á sér lærði hún dýrmæta lexíu – efnislegar eigur geta verið mjög hverfular. Eftir atvikið var hún enn ákveðnari í að einbeita sér að því sem skiptir raunverulega máli – fjölskyldu sinni og vinum, sambandinu við Guð og voninni sem Biblían gefur. – Sálmur 37:34; Jakobsbréfið 4:8.

 Hvaða von gefur Biblían mannkyninu?

 Biblían lofar mannkyninu og jörðinni bjartri framtíð. Og sú breyting er skammt undan. Vandamálin sem blasa við okkur sýna okkur svo ekki verður um villst að við lifum „á síðustu dögum“ þessa heims. (2. Tímóteusarbréf 3:1–5) Fljótlega tekur Guð stjórnina og útrýmir óréttlæti og þjáningum á jörðinni. Hann mun gera það fyrir tilstilli heimsstjórnar sem kallast Guðsríki. (Daníel 2:44; Opinberunarbókin 11:15) Jesús var með þessa himnesku stjórn í huga þegar hann sagði í faðirvorinu: „Láttu vilja þinn verða á jörð.“ – Matteus 6:9, 10.

 Vilji Guðs með mannkynið er augljós í Biblíunni. Taktu eftir sumum af þeim vandamálum sem Guðsríki mun útrýma:

  •   Ekkert hungur framar. „Jörðin mun gefa ávöxt sinn.“ – Sálmur 67:6.

  •   Engin veikindi framar. „Enginn íbúi mun segja: ‚Ég er veikur.‘“ – Jesaja 33:24, neðanmáls.

  •   Enginn dauði framar. Guð „mun þerra hvert tár af augum þeirra og dauðinn verður ekki til framar. Engin sorg, angistaróp né kvöl verður heldur til. Það sem áður var er horfið.“ – Opinberunarbókin 21:3, 4.

a Við vonumst eftir einhverju þegar við þráum það og trúum að það verði að veruleika. Von getur líka verið það sem við hlökkum til.

b Jehóva er nafn Guðs samkvæmt Biblíunni. – Sálmur 83:18.