Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Nálgist Guð og þá mun hann nálgast ykkur.“ – Jakobsbréfið 4:8.

Heyrir Guð bænir okkar?

Heyrir Guð bænir okkar?

Hefur þú einhvern tíma velt fyrir þér hvort Guð heyri þegar þú biður til hans? Þú ert þá ekki einn um það. Margir hafa beðið til Guðs um ákveðin vandamál en losna samt ekki við þau. Þýðir það að Guð hunsi bænir okkar? Nei. Í Biblíunni erum við fullvissuð um að Guð hlusti á okkur þegar við biðjum til hans á viðeigandi hátt. Skoðum hvað Biblían segir.

GUÐ HLUSTAR Á BÆNIR.

„Þú, sem heyrir bænir, til þín leita allir menn.“ – Sálmur 65:3.

Sumir segjast biðja til að láta sér líða betur þó að þeir trúi ekki að neinn sé að hlusta. En bænin er ekki bara til að láta sér líða vel og til að geta tekist á við vandamál. Biblían gefur okkur þessa fullvissu: „Drottinn er nálægur öllum sem ákalla hann, öllum sem ákalla hann í einlægni ... og hróp þeirra heyrir hann.“ – Sálmur 145:18, 19.

Við getum því verið viss um að Jehóva * Guð heyri bænir tilbiðjenda sinna. Í kærleika sínum segir hann: „Þegar þér ákallið mig og komið og biðjið til mín mun ég bænheyra yður.“ – Jeremía 29:12.

GUÐ VILL AÐ ÞÚ BIÐJIR TIL HANS.

„Haldið áfram að biðja.“ – Rómverjabréfið 12:12.

Í Biblíunni erum við hvött til að ,biðja stöðugt‘ og ,halda áfram að biðja öllum stundum‘. Jehóva Guð vill greinilega að við biðjum til hans. – Matteus 26:41; Efesusbréfið 6:18.

Af hverju vill Guð að við biðjum til sín? Tökum dæmi: Hvaða faðir myndi ekki vilja heyra barnið sitt segja: „Pabbi, geturðu hjálpað mér“? Faðirinn gæti auðvitað vitað nú þegar hvað barnið þarf eða hvernig því líður. En þegar hann heyrir barnið biðja um hjálp sýnir það honum að barnið treystir honum og er honum náið. Þegar við biðjum til Jehóva Guðs sýnum við á svipaðan hátt að við treystum honum og viljum vera honum náin. – Orðskviðirnir 15:8; Jakobsbréfið 4:8.

GUÐI ER VIRKILEGA ANNT UM ÞIG.

„Varpið öllum áhyggjum ykkar á hann því að hann ber umhyggju fyrir ykkur.“ – 1. Pétursbréf 5:7.

Guð vill að við biðjum til sín vegna þess að hann elskar okkur og ber umhyggju fyrir okkur. Hann gerir sér fulla grein fyrir vandamálum okkar og áhyggjum, og hann vill hjálpa okkur.

Davíð konungur bað til Jehóva Guðs um hjálp og sagði honum frá hugsunum sínum og tilfinningum allt sitt líf. (Sálmur 23:1–6) Hvernig leit Guð á Davíð? Guð elskaði Davíð og hlustaði á hinar mörgu bænir hans. (Postulasagan 13:22) Á sama hátt hlustar Guð á bænir okkar vegna þess að honum er annt um okkur.

„ÉG ELSKA DROTTIN AF ÞVÍ AÐ HANN HEYRIR GRÁTBEIÐNI MÍNA“

Þetta sagði einn af sálmariturum Biblíunnar. Hann var viss um að Guð heyrði bænir hans og það hafði sterk áhrif á hann. Honum fannst hann nálægur Guði og fékk styrk til að takast á við erfiðleika og sorgir lífsins. – Sálmur 116:1–9.

Þegar við erum sannfærð um að Guð heyri bænir okkar höldum við áfram að tala við hann. Skoðum dæmi Pedros, en hann býr á norður Spáni. Nítján ára sonur hans lést í umferðarslysi. Í sorg sinni úthellti Pedro hjarta sínu í bæn til Guðs aftur og aftur og bað um huggun og stuðning. Hvað gerðist? „Jehóva svaraði bænum mínum með huggun og stuðningi sem við konan mín fengum frá trúsystkinum okkar,“ segir Pedro.

Huggun og stuðningur frá kærleiksríkum vinum er oft merki um bænheyrslu.

Bænir höfðu vissulega ekki þau áhrif að sonur Pedros fengi lífið á ný en þær hjálpuðu Pedro og fjölskyldu hans mikið. Kona hans, María Carmen, segir: „Bænir hjálpuðu mér að takast á við sorgina. Ég vissi að Jehóva Guð skildi mig af því að þegar ég bað fann ég fyrir friði og ég róaðist.“

Við sjáum skýrt af Biblíunni og frásögum annarra að Guð heyrir bænir. En það er einnig ljóst að Guð svarar ekki öllum bænum. Hvers vegna svarar hann sumum bænum en ekki öðrum?

^ gr. 6 Jehóva er eiginnafn Guðs samkvæmt frummálum Biblíunnar.