Opinberunarbókin 11:1–19

 • Vottarnir tveir (1–13)

  • Spá í 1.260 daga í hærusekkjum (3)

  • Drepnir og ekki lagðir í gröf (7–10)

  • Lífgaðir við eftir þrjá og hálfan dag (11, 12)

 • Önnur ógæfan liðin hjá, sú þriðja eftir (14)

 • Sjöundi lúðurinn (15–19)

  • Konungsvald Drottins okkar og Krists hans (15)

  • Þeim sem eyða jörðina verður eytt (18)

11  Nú var mér fenginn reyrstafur til að mæla með og rödd sagði: „Stattu upp og mældu helgidóm musteris Guðs og altarið og teldu þá sem tilbiðja þar.  En slepptu forgarðinum fyrir utan helgidóm musterisins og mældu hann ekki því að hann hefur verið gefinn þjóðunum og þær munu troða hina helgu borg undir fótum sér í 42 mánuði.  Ég læt votta mína tvo spá í 1.260 daga, klædda hærusekkjum.“  Þeir eru táknaðir með ólífutrjánum tveim og ljósastikunum tveim og þeir standa frammi fyrir Drottni jarðarinnar.  Ef einhver vill gera þeim mein kemur eldur út af munni þeirra og eyðir óvinum þeirra. Já, ef einhver skyldi vilja gera þeim mein verður hann drepinn með þessum hætti.  Þeir hafa vald til að loka himninum svo að ekki rigni dagana sem þeir spá og þeir hafa vald til að breyta vötnunum í blóð og slá jörðina með hvers kyns plágum eins oft og þeir vilja.  Þegar þeir hafa lokið við að vitna mun villidýrið sem kemur upp úr undirdjúpinu heyja stríð við þá, sigra þá og drepa.  Lík þeirra munu liggja á aðalgötu borgarinnar miklu þar sem Drottinn þeirra var staurfestur, en hún er í andlegum skilningi kölluð Sódóma og Egyptaland.  Fólk af ýmsum kynþáttum, ættflokkum, tungum* og þjóðum mun horfa á lík þeirra í þrjá og hálfan dag og leyfir ekki að þau séu lögð í gröf. 10  Þeir sem búa á jörðinni gleðjast og halda upp á dauða þeirra, og þeir senda hver öðrum gjafir vegna þess að spámennirnir tveir kvöldu þá sem búa á jörðinni. 11  Eftir dagana þrjá og hálfan kom lífsandi frá Guði í þá. Þeir stóðu á fætur og mikill ótti greip þá sem sáu þá. 12  Þeir heyrðu sterka rödd af himni sem sagði við þá: „Komið hingað upp.“ Og þeir fóru til himins í skýi og óvinir þeirra sáu það.* 13  Á sömu stundu varð mikill jarðskjálfti og tíundi hluti borgarinnar hrundi. Í jarðskjálftanum fórust 7.000 manns en þeir sem eftir voru urðu hræddir og heiðruðu Guð himins. 14  Önnur ógæfan er liðin hjá en sú þriðja kemur fljótt. 15  Sjöundi engillinn blés í lúður sinn. Þá heyrðust sterkar raddir á himni sem sögðu: „Drottinn okkar og Kristur hans hafa fengið konungsvaldið yfir heiminum og hann mun ríkja sem konungur um alla eilífð.“ 16  Öldungarnir 24, sem sátu í hásætum sínum frammi fyrir Guði, féllu á grúfu, tilbáðu Guð 17  og sögðu: „Við þökkum þér, Jehóva* Guð, þú almáttugi, þú sem ert og þú sem varst, því að þú hefur beitt þínu mikla valdi og byrjað að ríkja sem konungur. 18  En þjóðirnar reiddust og þú reiddist líka og tíminn rann upp til að dæma hina dánu og launa þjónum þínum, spámönnunum, og hinum heilögu og þeim sem óttast nafn þitt, jafnt háum sem lágum, og til að eyða þeim sem eyða* jörðina.“ 19  Helgidómur musteris Guðs á himnum opnaðist og ég sá sáttmálsörk hans í helgidóminum. Eldingar leiftruðu, raddir heyrðust og það komu þrumur, jarðskjálfti og mikið hagl.

Neðanmáls

Eða „tungumálum“.
Eða „horfðu á“.
Sjá orðaskýringar.
Eða „eyðileggja“.