Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig getum við staðið gegn illum öndum?

Hvernig getum við staðið gegn illum öndum?

Hvernig getum við staðið gegn illum öndum?

„Englana, sem ekki gættu tignar sinnar, heldur yfirgáfu eigin bústað, hefur [Guð] í myrkri geymt í ævarandi fjötrum til dóms hins mikla dags.“ — JÚDASARBRÉFIÐ 6.

1, 2. Hvaða spurningar vakna varðandi Satan djöfulinn og illu andana?

„VERIÐ algáðir, vakið,“ segir Pétur postuli. „Óvinur yðar, djöfullinn, gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim, sem hann geti gleypt.“ (1. Pétursbréf 5:8) Páll postuli segir um illu andana: „Ég vil ekki, að þér hafið samfélag við illa anda. Ekki getið þér drukkið bikar Drottins og bikar illra anda. Ekki getið þér tekið þátt í borðhaldi Drottins og borðhaldi illra anda.“ — 1. Korintubréf 10:20, 21.

2 Hver er Satan djöfullinn og hverjir eru illu andarnir? Hvernig urðu þeir til og hvenær? Skapaði Guð þá? Hve mikil áhrif hafa þeir á mannkynið? Getum við varist þeim og þá hvernig?

Uppruni Satans og illu andanna

3. Hvernig varð einn af englum Guðs að Satan djöflinum?

3 Snemma í sögu mannkyns, meðan fyrstu hjónin voru enn í Eden, gerði einn af englum Guðs uppreisn. Af hverju gerði hann það? Hann var ekki ánægður með það hlutverk sem hann hafði í himnesku fyrirkomulagi Guðs. Með sköpun Adams og Evu sá hann færi á að beina tilbeiðslu þeirra frá hinum sanna Guði og að sjálfum sér. Með því að gera uppreisn gegn Guði og fá fyrstu hjónin til að óhlýðnast honum og syndga gerðist þessi engill Satan og djöfull. Seinna meir tóku aðrir englar þátt í uppreisninni. Hvernig? — 1. Mósebók 3:1-6; Rómverjabréfið 5:12; Opinberunarbókin 12:9.

4. Hvað gerðu uppreisnargjarnir englar fyrir Nóaflóðið?

4 Í Biblíunni kemur fram að einhvern tíma fyrir flóðið mikla á dögum Nóa hafi sumir af englunum fengið óeðlilegan áhuga á konum jarðar. Af röngu tilefni „sáu synir Guðs [á himnum], að dætur mannanna voru fríðar, og tóku sér konur meðal þeirra, allar sem þeim geðjuðust,“ segir í hinni innblásnu frásögu. Þetta voru óeðlileg sambönd og afkvæmin voru eins konar kynblendingar og voru kölluð risarnir. (1. Mósebók 6:2-4) Með óhlýðni sinni tóku þessar andaverur þátt í uppreisn Satans gegn Jehóva.

5. Hvaða afleiðingar hafði flóðið mikla fyrir englana sem gerðu uppreisn?

5 Þegar Jehóva lét flóðið koma yfir mannkyn fórust risarnir og mæður þeirra. Englarnir, sem gert höfðu uppreisn, neyddust til að afholdgast og snúa aftur yfir á hið andlega tilverusvið. Þeir endurheimtu hins vegar ekki fyrri tign sína hjá Guði heldur voru þeir geymdir í andlegu myrkri í ‚undirdjúpum‘ sem svo eru kölluð. — Júdasarbréfið 6; 2. Pétursbréf 2:4.

6. Hvernig blekkja illu andarnir fólk?

6 Allt frá því að illu englarnir glötuðu tign sinni hjá Guði hafa þeir staðið með Satan og þjónað illum tilgangi hans. Þaðan í frá hafa þeir ekki getað myndað sér mannslíkama af holdi. Hins vegar geta þeir lokkað karla og konur út í alls konar óeðli í kynferðismálum. Illu andarnir beita líka spíritisma til að blekkja mannkynið, þar á meðal göldrum, vúdúsæringum og andamiðlum. (5. Mósebók 18:10-13; 2. Kroníkubók 33:6) Illu englarnir hljóta sömu örlög og djöfullinn, þeim verður útrýmt fyrir fullt og allt. (Matteus 25:41; Opinberunarbókin 20:10) En þangað til þurfum við að standa staðföst gegn þeim. Það er skynsamlegt af okkur að hafa hugfast hve máttugur Satan er og hvernig við getum staðið gegn honum og illu öndunum.

Hve máttugur er Satan?

7. Hvaða vald hefur Satan yfir heiminum?

7 Satan hefur rægt Jehóva allt frá því að sögur hófust. (Orðskviðirnir 27:11) Og hann hefur haft áhrif á stóran hluta mannkyns. „Allur heimurinn er á valdi hins vonda,“ segir í 1. Jóhannesarbréfi 5:19. Þess vegna gat hann reynt að freista Jesú með því að bjóða honum „öll ríki veraldar“, veldi þeirra og dýrð. (Lúkas 4:5-7) Páll postuli segir um Satan: „Ef fagnaðarerindi vort er hulið, þá er það hulið þeim, sem glatast. Því guð þessarar aldar hefur blindað huga hinna vantrúuðu, til þess að þeir sjái ekki ljósið frá fagnaðarerindinu um dýrð Krists, hans, sem er ímynd Guðs.“ (2. Korintubréf 4:3, 4) Satan er „lygari og lyginnar faðir“ en tekur á sig „ljósengilsmynd“. (Jóhannes 8:44; 2. Korintubréf 11:14) Hann hefur mátt til að blinda hugi manna og beitir ýmsum aðferðum til þess, og það gildir jafnt um valdhafa heims sem og þegna þeirra. Hann hefur blekkt mannkynið með áróðri sínum, trúarlegum lygum og goðsögum.

8. Hvaða upplýsingar gefur Biblían um áhrif Satans?

8 Máttur Satans og áhrif hans sýndu sig greinilega á dögum Daníels spámanns, um fimm öldum fyrir Krist. Jehóva sendi engil til að flytja Daníel uppörvandi boðskap en „verndarengill Persaríkis“ stóð á móti honum. Trúfastur engill Guðs tafðist í 21 dag uns „Míkael, einn af fremstu verndarenglunum,“ kom honum til hjálpar. Í sömu frásögu er minnst á illan anda sem var „verndarengill Grikklands“. (Daníel 10:12, 13, 20) Og í Opinberunarbókinni 13:1, 2 er Satan lýst sem ‚dreka‘ er gefur ‚dýri‘, sem táknar stjórnmálaöflin, „mátt sinn og hásæti sitt og vald mikið“.

9. Við hverja eiga kristnir menn í baráttu?

9 Það er ekki að undra að Páll postuli skuli skrifa: „Baráttan, sem vér eigum í, er ekki við menn af holdi og blóði, heldur við tignirnar og völdin, við heimsdrottna þessa myrkurs, við andaverur vonskunnar í himingeimnum.“ (Efesusbréfið 6:12) Illir andar undir stjórn Satans starfa enn þá bak við tjöldin. Þeir hafa áhrif á valdhafa og menn almennt og fá þá til að fremja ólýsanleg þjóðarmorð, hryðjuverk og manndráp. Könnum nú hvernig við getum staðið gegn þessum máttugu andaverum.

Hvernig getum við varið okkur?

10, 11. Hvernig getum við staðið gegn Satan og illu englunum?

10 Við getum ekki staðið gegn Satan og illu englunum í eigin krafti, hvorki andlegum né líkamlegum. Páll ráðleggur: „Styrkist nú í Drottni og í krafti máttar hans.“ Við þurfum að leita verndar hjá Guði. Páll heldur áfram: „Klæðist alvæpni Guðs, til þess að þér getið staðist vélabrögð djöfulsins. Takið því alvæpni Guðs, til þess að þér getið veitt mótstöðu á hinum vonda degi og haldið velli, þegar þér hafið sigrað allt.“ — Efesusbréfið 6:10, 11, 13.

11 Páll hvetur trúsystkini sín tvívegis til að klæðast „alvæpni Guðs“. Orðið „alvæpni“ gefur til kynna að það dugi ekkert hálfkák til að verjast árásum illra anda. Hver eru hin andlegu herklæði sem er bráðnauðsynlegt fyrir kristna menn að klæðast til að geta staðið gegn illu öndunum?

„Standið reiðubúnir“ — hvernig?

12. Hvernig geta kristnir menn verið gyrtir sannleikanum um lendar sér?

12 Páll segir: „Standið því [„standið reiðubúnir“, Biblían 1859] gyrtir sannleika um lendar yðar og klæddir brynju réttlætisins.“ (Efesusbréfið 6:14) Herklæðin, sem Páll nefnir hér, eru beltið og brynjan. Hermaður þurfti að spenna beltið fast til að verja lendarnar (mjaðmir, kvið og nára) og til að bera þunga sverðsins. Við þurfum sömuleiðis að spenna sannleika Biblíunnar þétt að okkar, ef svo má að orði komast, þannig að við lifum í samræmi við hann. Höfum við gert okkur áætlun um daglegan biblíulestur? Tekur öll fjölskyldan þátt í lestrinum? Ræðir fjölskyldan saman um dagstextann á hverjum degi? Og fylgjumst við vel með þeim skýringum sem gefnar eru í ritum hins ‚trúa og hyggna þjóns‘? (Matteus 24:45) Ef svo er, þá fylgjum við ráðum Páls. Við eigum líka myndbönd og mynddiska sem hafa að geyma biblíulegar leiðbeiningar. Ef okkur þykir vænt um sannleikann getur það hjálpað okkur að taka skynsamlegar ákvarðanir og komið í veg fyrir að við förum út á ranga braut.

13. Hvernig getum við verndað hið táknræna hjarta?

13 Brynjan varði brjóst hermannsins, hjartað og önnur mikilvæg líffæri. Kristinn maður getur verndað hið táknræna hjarta, sinn innri mann, með því að elska réttlæti Guðs og fylgja réttlátum lífsreglum hans. Hin táknræna brynja kemur í veg fyrir að við gerum lítið úr leiðbeiningum Guðs. Ef við ‚hötum hið illa og elskum hið góða‘ höldum við fæti okkar „frá hverjum vondum vegi“. — Amos 5:15; Sálmur 119:101.

14. Hvað merkir það að vera „skóaðir á fótunum með fúsleik til að flytja fagnaðarboðskap friðarins“?

14 Rómverskir hermenn voru yfirleitt vel skóaðir til að geta gengið fylktu liði hundruð kílómetra eftir þjóðvegunum sem lágu um Rómaveldi þvert og endilangt. Hvað er fólgið í því fyrir kristna menn að vera „skóaðir á fótunum með fúsleik til að flytja fagnaðarboðskap friðarins“? (Efesusbréfið 6:15) Það merkir að við séum viðbúin. Við erum reiðubúin til að segja frá fagnaðarerindinu um ríki Guðs hvenær sem við á. (Rómverjabréfið 10:13-15) Með því að vera virk í boðunarstarfinu erum við á verði gagnvart ‚vélabrögðum‘ Satans. — Efesusbréfið 6:11.

15. (a) Hvað sýnir að skjöldur trúarinnar er afar mikilvægur? (b) Hvaða „eldlegu skeyti“ geta haft skaðleg áhrif á trúna?

15 Páll segir þessu næst: „Takið umfram allt skjöld trúarinnar, sem þér getið slökkt með öll hin eldlegu skeyti hins vonda.“ (Efesusbréfið 6:16) Páll gefur til kynna að ‚skjöldur trúarinnar‘ sé afar mikilvægur þáttur alvæpnisins þegar hann segir að kristnir menn eigi „umfram allt“ að bera hann. Trú okkar má ekki vera áfátt á nokkurn hátt. Trúin er eins og stór skjöldur sem ver okkur fyrir ‚eldlegum skeytum‘ Satans. Hvers eðlis gætu þessi skeyti verið? Þetta gætu verið hvassar svívirðingar, lygar eða hálfsannleikur sem óvinir og fráhvarfsmenn beina að okkur í þeim tilgangi að veikja trú okkar. Þessi „skeyti“ gætu verið fólgin í því að reynt sé að freista okkar með efnishyggju, gera okkur upptekin af því að kaupa alls konar vörur og jafnvel að fá okkur til að keppa við þá sem berast mikið á. Þetta fólk hefur kannski keypt sér stærri og fínni hús og ökutæki eða flíkar dýrum skartgripum og nýjasta tískufatnaði. En hvað sem aðrir gera þurfum við að hafa nógu sterka trú til að bægja frá okkur þessum ‚eldlegu skeytum‘. Hvernig byggjum við upp sterka trú og viðhöldum henni? — 1. Pétursbréf 3:3-5; 1. Jóhannesarbréf 2:15-17.

16. Hvernig getum við styrkt trú okkar?

16 Við getum styrkt sambandið við Guð með reglulegu sjálfsnámi í Biblíunni og með einlægum bænum. Við getum beðið Jehóva að styrkja trúna og síðan þurfum við að breyta í samræmi við bænir okkar. Búum við okkur til dæmis vel undir vikulegt Varðturnsnám safnaðarins í þeim tilgangi að taka þátt í því? Við fáum sterka trú ef við erum iðin við nám í Biblíunni og biblíutengdum ritum. — Hebreabréfið 10:38, 39; 11:6.

17. Hvernig getum við tekið við „hjálmi hjálpræðisins“?

17 Páll lýkur lýsingu sinni á andlegu herklæðunum með eftirfarandi hvatningu: „Takið við hjálmi hjálpræðisins og sverði andans, sem er Guðs orð.“ (Efesusbréfið 6:17) Von kristinna manna verndar huga þeirra rétt eins og hjálmurinn verndaði höfuð hermannsins og heilann sem er miðstöð hugsana og ákvarðana. (1. Þessaloníkubréf 5:8) Við ættum ekki að fylla hugann af veraldlegum markmiðum og draumum um efnislega hluti heldur líkja eftir Jesú og einbeita okkur að voninni sem Guð gefur. — Hebreabréfið 12:2.

18. Hvers vegna ættum við ekki að vanrækja biblíulestur?

18 Að síðustu notum við orð Guðs, það er að segja boðskap Biblíunnar, til að verjast áhrifum Satans og illu andanna. Þetta er enn ein ástæða fyrir því að við ættum að lesa reglulega í Biblíunni og gæta þess að vanrækja það ekki. Ítarleg þekking á orði Guðs verndar okkur gegn lygum Satans og árásum illra anda, og einnig gegn hatrömmum áróðri fráhvarfsmanna.

„Biðjið á hverri tíð“

19, 20. (a) Hvað eiga Satan og illu andarnir í vændum? (b) Hvað getur styrkt okkur andlega?

19 Þess er nú skammt að bíða að Satan, illum öndum og illum heimi verði eytt. Satan „veit, að hann hefur nauman tíma“. Hann er ævareiður og heyr stríð gegn þeim „er varðveita boð Guðs og hafa vitnisburð Jesú“. (Opinberunarbókin 12:12, 17) Við verðum að standa gegn Satan og illu öndunum.

20 Við getum verið innilega þakklát fyrir hvatninguna til að taka alvæpni Guðs. Páll lýkur umræðu sinni um andlegu herklæðin með þessari ráðleggingu: „Gjörið það með bæn og beiðni og biðjið á hverri tíð í anda. Verið því árvakrir og staðfastir í bæn fyrir öllum heilögum.“ (Efesusbréfið 6:18) Bænin getur styrkt okkur andlega og hjálpað okkur að vera árvökur. Við skulum gera eins og Páll hvetur til og vera bænrækin því að það hjálpar okkur að standa gegn Satan og illu öndunum.

Hvað hefurðu lært?

• Hvernig urðu Satan og illu andarnir til?

• Hve máttugur er Satan?

• Hvernig getum við varist Satan og illu öndunum?

• Hvernig getum við klæðst alvæpni Guðs?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 28]

„Synir Guðs [sáu], að dætur mannanna voru fríðar.“

[Mynd á blaðsíðu 30]

Geturðu nefnt hina sex þætti andlegu herklæðanna?

[Myndir á blaðsíðu 31]

Hvernig getur það sem sýnt er á myndunum hjálpað okkur að verjast Satan og illu öndunum?