Bréfið til Rómverja 5:1–21

  • Sættir við Guð vegna Krists (1–11)

  • Dauði vegna Adams, líf vegna Krists (12–21)

    • Synd og dauði barst til allra (12)

    • Eitt réttlætisverk (18)

5  Þar sem við höfum nú verið lýst réttlát vegna trúar skulum við eiga frið* við Guð. Við getum það þökk sé Drottni okkar Jesú Kristi.  Með því að trúa á hann höfum við líka fengið aðgang að þeirri einstöku góðvild sem við njótum nú. Gleðjumst* því yfir voninni um að hljóta dýrð Guðs.  En ekki bara það. Gleðjumst* líka í raunum þar sem við vitum að raunir leiða af sér þolgæði,  þolgæðið veitir velþóknun Guðs og velþóknun Guðs veitir von,  og vonin bregst okkur ekki því að kærleika Guðs hefur verið úthellt í hjörtu okkar með heilögum anda sem okkur var gefinn.  Kristur dó fyrir óguðlega menn á tilsettum tíma meðan við vorum enn veikburða.  Varla myndi nokkur deyja fyrir réttlátan mann. Fyrir góðan mann væri ef til vill einhver fús til að deyja.  En Guð hefur sýnt að hann elskar okkur með því að láta Krist deyja fyrir okkur meðan við vorum enn syndarar.  Þar sem við höfum nú verið lýst réttlát vegna blóðs hans getum við, þökk sé honum, verið enn öruggari um að verða bjargað frá reiði Guðs. 10  Fyrst Guð tók okkur í sátt vegna dauða sonar síns meðan við vorum óvinir hans getum við verið enn öruggari um að verða bjargað með lífi sonar hans nú þegar hann hefur tekið okkur í sátt. 11  Og ekki bara það heldur gleðjumst við líka yfir sambandi okkar við Guð sem við höfum eignast vegna Drottins okkar Jesú Krists en fyrir milligöngu hans hefur Guð tekið okkur í sátt. 12  Syndin kom inn í heiminn með einum manni og dauðinn með syndinni. Þannig barst dauðinn til allra manna því að þeir höfðu allir syndgað. 13  Syndin var í heiminum áður en lögin komu til en enginn er sakaður um synd þegar ekki eru nein lög. 14  Dauðinn ríkti samt sem konungur frá Adam til Móse, jafnvel yfir þeim sem höfðu ekki syndgað á sama hátt og Adam en hann líktist þeim sem átti að koma. 15  En gjöfin er ekki eins og afbrotið. Margir dóu vegna afbrots eins manns en einstök góðvild Guðs og gjöf hans er óendanlega miklu meiri og mörgum til góðs. Þessi gjöf var gefin ásamt einstakri góðvild eins manns, Jesú Krists. 16  Það sem hlýst af gjöfinni er auk þess ólíkt því sem hlaust af synd hins eina manns. Dómurinn fyrir eitt afbrot varð til sakfellingar en gjöfin sem fylgdi mörgum afbrotum var að menn voru lýstir réttlátir. 17  Dauðinn ríkti sem konungur vegna afbrots eins manns. Hve miklu fremur munu þá þeir sem hljóta hina einstöku góðvild og gjöf réttlætisins í ríkum mæli lifa og ríkja sem konungar vegna hins eina, Jesú Krists. 18  Eitt afbrot leiddi sem sagt til þess að alls konar menn voru sakfelldir. Á sama hátt leiðir eitt réttlætisverk til þess að alls konar menn verða lýstir réttlátir og hljóta líf. 19  Margir urðu syndarar vegna óhlýðni hins eina manns. Eins verða margir réttlættir vegna hlýðni hins eina. 20  Nú voru lögin sett til að afbrotin yrðu meiri.* En þar sem syndin var mikil var einstök góðvild Guðs enn meiri. 21  Í hvaða tilgangi? Rétt eins og syndin ríkti sem konungur með dauðanum þannig skyldi líka einstök góðvild ríkja sem konungur með réttlætinu og leiða til eilífs lífs fyrir milligöngu Jesú Krists, Drottins okkar.

Neðanmáls

Eða hugsanl. „eigum við frið“.
Eða hugsanl. „Við gleðjumst“.
Eða hugsanl. „Við gleðjumst“.
Það er, til að fólk gerði sér grein fyrir sínum mörgu syndum.