Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Skiljið ekki sundur það sem Guð hefur tengt saman

Skiljið ekki sundur það sem Guð hefur tengt saman

Skiljið ekki sundur það sem Guð hefur tengt saman

„Þannig eru þau ekki framar tvö, heldur einn maður. Það sem Guð hefur tengt saman, má maður eigi sundur skilja.“ — MATTEUS 19:6.

1, 2. Hvers vegna mega hjón búast við erfiðleikum af og til?

ÍMYNDAÐU þér að þú sért að leggja af stað í langa bílferð. Áttu eftir að lenda í einhverjum erfiðleikum á leiðinni? Það væri barnalegt að ímynda sér annað. Þú gætir til dæmis lent í óveðri og þurft að hægja á ferðinni og sýna sérstaka varúð. Bíllinn gæti bilað og þú gætir þurft að leggja honum í vegkantinum og leita aðstoðar. Myndirðu komast að þeirri niðurstöðu að það hafi verið mistök að fara í þessa ferð og að þú ættir að yfirgefa bílinn? Nei, þegar lagt er upp í langferð gerir maður ráð fyrir einhverjum erfiðleikum og reynir að leysa úr þeim.

2 Hið sama á við um hjónaband. Erfiðleikar eru óhjákvæmilegir og það væri barnalegt fyrir fólk í hjónabandshugleiðingum að halda að lífið verði eintómur dans á rósum. Í 1. Korintubréfi 7:28 er bent á að hjón megi búast við vissum ‚þrengingum‘. Hvers vegna? Ástæðan er einfaldlega sú að eiginmenn og eiginkonur eru ófullkomin og við lifum á erfiðum tímum. (2. Tímóteusarbréf 3:1; Rómverjabréfið 3:23) Hjón mega því búast við erfiðleikum af og til jafnvel þótt þau eigi vel saman og séu andlega sinnuð.

3. (a) Hvernig líta margir á hjónabandið? (b) Hvers vegna leggja kristnir menn sig fram um að viðhalda hjónabandinu?

3 Í þjóðfélagi nútímans er algengt að hjón vilji skilja um leið og vandamál koma upp. Í mörgum löndum hefur skilnuðum fjölgað gríðarlega. En sannkristnir menn takast á við vandamál í stað þess að hlaupa frá þeim. Af hverju? Af því að þeir líta á hjónabandið sem heilaga gjöf frá Jehóva. Jesús sagði um hjónabandið: „Það sem Guð hefur tengt saman, má maður eigi sundur skilja.“ (Matteus 19:6) En það er ekki alltaf auðvelt að fara eftir þessu boði. Ættingjar og aðrir sem virða ekki meginreglur Biblíunnar hvetja hjón oft til að slíta samvistum eða skilja án þess að biblíulegar forsendur séu fyrir því. Í þessum hópi eru jafnvel einstaka hjónabandsráðgjafar. * En kristnir menn vita að það er mun betra að leysa vandann og viðhalda hjónabandinu heldur en að slíta því í fljótfærni. Það er mikilvægt að einsetja sér strax í upphafi að fylgja aðferðum Jehóva en ekki ráðleggingum manna. — Orðskviðirnir 14:12.

Að greiða úr vandamálum

4, 5. (a) Hvað getur komið upp í hjónabandi? (b) Hvers vegna virka meginreglur Biblíunnar jafnvel þegar vandamál skjóta upp kollinum?

4 Raunin er sú að í öllum hjónaböndum koma af og til upp mál sem þarf að sinna. Oftast er um að ræða smávægileg ágreiningsmál. En í sumum tilvikum gætu komið upp alvarlegri vandamál sem stofna hjónabandinu í hættu. Hjón gætu stundum þurft að leita leiðsagnar hjá reyndum safnaðaröldungi sem er sjálfur giftur. En það þýðir ekki að hjónabandið sé misheppnað. Þetta minnir einfaldlega á nauðsyn þess að fylgja meginreglum Biblíunnar í hvívetna þegar greiða þarf úr vandamálum.

5 Jehóva er skapari mannsins og höfundur hjónabandsins. Hann veit því betur en nokkur annar hvað þarf til að hjónabandið sé farsælt. En hlustum við á leiðbeiningar hans í Biblíunni og förum við eftir þeim? Það er okkur tvímælalaust til góðs. Jehóva sagði þjóð sinni til forna: „Æ, að þú vildir gefa gaum að boðorðum mínum, þá mundi heill þín verða sem fljót og réttlæti þitt sem bylgjur sjávarins.“ (Jesaja 48:18) Það stuðlar að farsælu hjónabandi að fylgja meginreglum Biblíunnar. Lítum fyrst á leiðbeiningarnar til eiginmanna.

„Elskið konur yðar“

6. Hvaða leiðbeiningar fá eiginmenn í Biblíunni?

6 Í bréfi Páls postula til Efesusmanna er að finna skýrar leiðbeiningar til eiginmanna. Hann skrifaði: „Þér menn, elskið konur yðar eins og Kristur elskaði kirkjuna og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir hana. Þannig skulu eiginmennirnir elska konur sínar eins og eigin líkami. Sá, sem elskar konu sína, elskar sjálfan sig. Enginn hefur nokkru sinni hatað eigið hold, heldur elur hann það og annast, eins og Kristur kirkjuna. En sem sagt, þér skuluð hver og einn elska eiginkonu sína eins og sjálfan sig.“ — Efesusbréfið 5:25, 28, 29, 33.

7. (a) Hver ætti að vera ein helsta undirstaðan í kristnu hjónabandi? (b) Hvernig getur eiginmaður elskað konu sína stöðuglega?

7 Páll tíundar ekki öll hugsanleg vandamál sem geta komið upp milli hjóna. Hann snýr sér beint að kjarna málsins með því að benda á hver ætti að vera ein helsta undirstaðan í kristnu hjónabandi — ástin. Í versunum hér á undan er meira að segja minnst sex sinnum á ástina. Og þegar Páll segir eiginmönnum að elska eiginkonur sínar gefur frummálið til kynna að þeir eigi að gera það stöðuglega. Páll gerði sér grein fyrir því að það væri sennilega auðveldara að verða ástfanginn heldur en að viðhalda ástinni. Það reynir sérstaklega á þetta núna „á síðustu dögum“ þegar margir eru „sérgóðir“ og „ósáttfúsir“. (2. Tímóteusarbréf 3:1-3) Þessir slæmu eiginleikar eru að gera út af við mörg hjónabönd. En ástríkur eiginmaður lætur ekki eigingirni heimsins hafa áhrif á viðhorf sín og hátterni. — Rómverjabréfið 12:2.

Hvernig getur eiginmaður séð fyrir eiginkonu sinni?

8, 9. Hvernig getur kristinn eiginmaður séð fyrir konu sinni?

8 Hvernig getur kristinn eiginmaður spornað gegn eigingjörnum tilhneigingum og sýnt konu sinni ósvikna ást? Í orðum Páls til Efesusmanna hér á undan kemur fram tvennt sem hann þarf að gera. Hann á að sjá fyrir henni og annast hana eins og eigin líkama. En hvernig geturðu séð fyrir eiginkonu þinni? Meðal annars með því að sjá fyrir efnislegum þörfum hennar. Páll skrifaði Tímóteusi: „Ef einhver sér eigi fyrir sínum, sérstaklega heimilismönnum, þá hefur hann afneitað trúnni og er verri en vantrúaður.“ — 1. Tímóteusarbréf 5:8.

9 En málið snýst ekki bara um að sjá fyrir fæði, klæði og húsnæði. Hvers vegna? Vegna þess að eiginmaður getur staðið sig vel í að sjá fyrir efnislegum þörfum konu sinnar en engu að síður vanrækt tilfinningalegar og andlegar þarfir hennar. Það er nauðsynlegt að fullnægja þessum þörfum líka. Margir kristnir menn eru vissulega önnum kafnir við að sinna skyldustörfum í söfnuðinum. En það þýðir samt ekki að eiginmaður eigi að láta skyldur sínar sem höfuð fjölskyldunnar sitja á hakanum. (1. Tímóteusarbréf 3:5, 12) Þetta tímarit sagði fyrir nokkrum árum um þetta mál: „Í samræmi við kröfur Biblíunnar má komast svo að orði að ‚hirðastarfið hefjist á heimilinu.‘ Ef öldungur vanrækir fjölskyldu sína gæti hann stofnað stöðu sinni í hættu.“ * Það er greinlega mjög þýðingarmikið að sjá fyrir eiginkonu sinni — efnislega, tilfinningalega og síðast en ekki síst andlega.

Að elska og annast eiginkonu sína

10. Hvernig getur eiginmaður annast eiginkonu sína vel?

10 Ef þér þykir vænt um eiginkonu þína annastu hana vel. Það er hægt að gera það á ýmsa vegu. Í fyrsta lagi þarftu að verja nægum tíma með henni. Ef þú vanrækir þetta er hætta á að ást hennar kólni. Hafðu í huga að hún hefur ef til vill aðrar hugmyndir en þú um það hvað hún þurfi að fá mikinn tíma og athygli. Það er ekki nóg að segja henni að þú elskir hana. Hún þarf að finna að hún sé elskuð. Páll skrifaði: „Enginn hyggi að eigin hag, heldur hag annarra.“ (1. Korintubréf 10:24) Ástríkur eiginmaður ætti að ganga úr skugga um að hann skilji hverjar séu raunverulegar þarfir eiginkonunnar. — Filippíbréfið 2:4.

11. Hvaða áhrif hefur framkoma eiginmanns við eiginkonu sína á samband hans við Guð og söfnuðinn?

11 Önnur leið til að sýna að þér þyki vænt um eiginkonu þína er að vera mildur og blíður bæði í orði og verki. (Orðskviðirnir 12:18) Páll skrifaði Kólossumönnum: „Þér menn, elskið eiginkonur yðar og verið ekki beiskir við þær.“ (Kólossubréfið 3:19) Í heimildarriti er bent á að orða mætti seinni hluta versins þannig í frjálslegri þýðingu: „Komdu ekki fram við hana eins og þjónustustúlku“ eða „gerðu hana ekki að þræli“. Eiginmaður sýnir varla að honum þyki vænt um konu sína ef hann hegðar sér eins og harðstjóri, annaðhvort innan veggja heimilisins eða utan. Með því að koma illa fram við hana getur hann skaðað samband sitt við Guð. Pétur postuli skrifaði til eiginmanna: „Búið með skynsemi saman við konur yðar sem veikari ker og veitið þeim virðingu, því að þær munu erfa með yður náðina og lífið. Þá hindrast bænir yðar ekki.“ * — 1. Pétursbréf 3:7.

12. Hvað getur kristinn eiginmaður lært af framkomu Jesú við söfnuðinn?

12 Líttu aldrei á ást konu þinnar sem sjálfsagðan hlut. Fullvissaðu hana oft um að þú elskir hana. Jesús gaf kristnum eiginmönnum góða fyrirmynd með framkomu sinni við söfnuðinn. Hann var mildur, hlýlegur og alltaf fús til að fyrirgefa — jafnvel þótt fylgjendur hans sýndu oft óæskilega eiginleika. Jesús gat því sagt: „Komið til mín, . . . því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar.“ (Matteus 11:28, 29) Kristinn eiginmaður fylgir fordæmi Jesú og kemur fram við eiginkonu sína eins og Jesús kom fram við söfnuðinn. Maður, sem sýnir í orði og verki að honum þyki innilega vænt um konu sína, stuðlar að því að hún sé endurnærð og að henni líði vel.

Eiginkonur sem fylgja meginreglum Biblíunnar

13. Hvaða meginreglum Biblíunnar geta eiginkonur notið góðs af?

13 Í Biblíunni er einnig að finna meginreglur sem eiginkonur geta notið góðs af. Í Efesusbréfinu 5:21-24, 33 segir: „Verið hver öðrum undirgefnir í ótta Krists: Konurnar eiginmönnum sínum eins og það væri Drottinn. Því að maðurinn er höfuð konunnar, eins og Kristur er höfuð kirkjunnar, hann er frelsari líkama síns. En eins og kirkjan er undirgefin Kristi, þannig séu og konurnar mönnum sínum undirgefnar í öllu. . . . En konan beri lotningu fyrir manni sínum.“

14. Hvers vegna er meginreglan um undirgefni ekki niðurlægjandi fyrir konur?

14 Við tökum eftir að Páll leggur áherslu á undirgefni og virðingu. Konan er minnt á að vera undirgefin manni sínum. Þetta er í samræmi við fyrirkomulag Guðs. Allar lifandi verur á himni og jörð eru undirgefnar einhverjum. Jesús er meira að segja undirgefinn Jehóva Guði. (1. Korintubréf 11:3) Og eiginmaður, sem fer rétt með forystu sína, auðveldar konu sinni að vera sér undirgefin.

15. Hvaða leiðbeiningar til eiginkvenna er að finna í Biblíunni?

15 Páll sagði líka að eiginkona ætti að bera „lotningu“, það er að segja djúpa virðingu, fyrir manni sínum. Kristin eiginkona ætti að sýna ‚hógværan og kyrrlátan anda‘. (1. Pétursbréf 3:4) Hún ætti ekki að ögra manni sínum með hroka eða láta eins og hún sé óháð honum. Guðrækin eiginkona annast fjölskylduna vel og er manni sínum til heiðurs. (Títusarbréfið 2:4, 5) Hún talar vel um hann og gerir ekkert til að grafa undan virðingu annarra fyrir honum. Hún vinnur líka að því að ákvarðanir hans nái fram að ganga. — Orðskviðirnir 14:1.

16. Hvað geta kristnar eiginkonur lært af Söru og Rebekku?

16 Þótt kristin kona hafi hógværan og kyrrlátan anda þýðir það ekki að hún hafi engar skoðanir eða að álit hennar skipti ekki máli. Guðræknar konur til forna, eins og Sara og Rebekka, tjáðu áhyggjur sínar óhikað og í Biblíunni má sjá að Jehóva hafði velþóknun á því sem þær gerðu. (1. Mósebók 21:8-12; 27:46–28:4) Kristnar eiginkonur geta sömuleiðis látið skoðanir sínar í ljós. En þær ættu að gera það af tillitssemi en ekki með ósvífni. Þær uppgötva sennilega að þær ná betur til eiginmanna sinna og samskiptin verða ánægjulegri.

Hjónabandið er skuldbinding

17, 18. Hvernig geta hjón staðið gegn tilraunum Satans til að spilla hjónabandinu?

17 Hjónabandið er ævilöng skuldbinding. Bæði hjónin ættu því að láta sér innilega annt um að hjónabandið gangi vel. Ef hjónin tala ekki opinskátt og hreinskilnislega saman geta vandamál farið að grafa um sig og orðið alvarleg. Það er allt of algengt að hjón hætti að tala saman þegar vandmál koma upp og þau fyllist gremju. Sumir reyna jafnvel að losna úr hjónabandinu og fara kannski að sýna öðrum en maka sínum áhuga. Jesús sagði í viðvörunartón: „Hver sem horfir á konu í girndarhug, hefur þegar drýgt hór með henni í hjarta sínu.“ — Matteus 5:28.

18 Páll postuli gaf öllum kristnum mönnum eftirfarandi leiðbeiningar, þar á meðal þeim sem eru giftir: „Ef þér reiðist, þá syndgið ekki. Sólin má ekki setjast yfir reiði yðar. Gefið djöflinum ekkert færi.“ (Efesusbréfið 4:26, 27) Erkióvinurinn Satan reynir að notfæra sér ósætti sem getur komið upp milli kristinna manna. Látum hann ekki hafa erindi sem erfiði. Þegar vandamál koma upp skaltu kynna þér með hjálp biblíutengdra rita hvað Biblían segir um viðhorf Jehóva til málsins. Ræðið ágreiningsmál yfirvegað og opinskátt. Brúið bilið á milli þess sem þið vitið um meginreglur Jehóva og þess sem þið gerið til að fylgja þeim. (Jakobsbréfið 1:22-25) Verið staðráðin í því að ganga með Guði sem hjón og látið ekkert skilja sundur það sem hann hefur tengt saman. — Míka 6:8.

[Neðanmáls]

^ gr. 3 Sjá rammann „Divorce and Separation“ í Vaknið! (á ensku) 8. febrúar 2002, bls. 10. Blaðið er gefið út af Vottum Jehóva.

^ gr. 9 Sjá Varðturninn 1. október 1989, bls. 21.

^ gr. 11 Maður, sem er skipaður í ábyrgðarstörf í söfnuðinum, má ekki vera „ofsafenginn“ — hann má ekki beita líkamlegu eða andlegu ofbeldi. Þess vegna sagði í Varðturninum 1. mars 1991, bls. 29: „Kvæntur maður er ekki hæfur til útnefningar ef hann hegðar sér guðrækilega utan heimilis en er harðstjóri innan þess.“ — 1. Tímóteusarbréf 3:2-5, 12.

Manstu?

• Af hverju geta komið upp vandamál í kristnu hjónabandi?

• Hvernig getur eiginmaður séð fyrir konu sinni og sýnt að honum sé annt um hana?

• Hvernig getur eiginkona sýnt að hún beri djúpa virðingu fyrir manni sínum?

• Hvernig geta hjón staðið við skuldbindingar sínar?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 14]

Eiginmaður ætti að sjá vel fyrir eiginkonu sinni, ekki aðeins efnislega heldur líka andlega.

[Mynd á blaðsíðu 15]

Eiginmaður, sem elskar og annast konu sína, stuðlar að því að hún sé endurnærð og að henni líði vel.

[Mynd á blaðsíðu 17]

Kristnar eiginkonur láta skoðanir sínar í ljós á virðulegan hátt.