Fyrra bréf Péturs 3:1–22

  • Eiginkonur og eiginmenn (1–7)

  • Sýnið samkennd; keppið eftir friði (8–12)

  • Að þjást fyrir að gera rétt (13–22)

    • Verið tilbúin að verja vonina (15)

    • Skírn og góð samviska (21)

3  Með sama hætti skuluð þið eiginkonur vera undirgefnar eiginmönnum ykkar til að þeir sem hlýða ekki orðinu geti unnist orðalaust vegna hegðunar ykkar  þegar þeir sjá hreint líferni ykkar og djúpa virðingu.  Skart ykkar á ekki að vera ytra skart – fléttur og skartgripir úr gulli eða fín föt –  heldur hinn huldi maður hjartans búinn skarti kyrrðar og hógværðar sem eyðist ekki og er mikils virði í augum Guðs.  Þannig skrýddust hinar heilögu konur til forna sem vonuðu á Guð og voru undirgefnar eiginmönnum sínum  eins og Sara sem hlýddi Abraham og kallaði hann herra. Og þið eruð orðnar börn hennar ef þið haldið áfram að gera gott og látið ekki óttann ná tökum á ykkur.  Þið eiginmenn skuluð vera skynsamir* í sambúðinni við konur ykkar. Virðið þær sem veikara ker, hið kvenlega, þar sem þær erfa með ykkur lífið sem er óverðskulduð gjöf Guðs. Þá hindrast bænir ykkar ekki.  Að lokum, verið öll samhuga,* sýnið samkennd, bróðurást, innilega umhyggju og auðmýkt.  Gjaldið ekki illt fyrir illt eða móðgun fyrir móðgun. Endurgjaldið heldur með blessun því að til þessarar lífsbrautar voruð þið kölluð svo að þið gætuð hlotið blessun. 10  Skrifað stendur: „Sá sem vill elska lífið og sjá góða daga haldi tungu sinni frá illu og vörum sínum frá því að fara með svik. 11  Hann snúi baki við hinu illa og geri gott, þrái frið og keppi eftir honum 12  því að augu Jehóva* hvíla á hinum réttlátu og eyru hans hlusta á bænir þeirra, en Jehóva* stendur gegn þeim sem gera illt.“ 13  Já, hver getur gert ykkur illt ef þið hafið brennandi áhuga á hinu góða? 14  En þótt þið þjáist fyrir að gera rétt eruð þið hamingjusöm. Óttist samt ekki það sem aðrir óttast* og verið ekki kvíðin. 15  Helgið Krist sem Drottin í hjörtum ykkar. Verið alltaf tilbúin að verja von ykkar fyrir hverjum þeim sem krefst þess að þið rökstyðjið hana, en gerið það með hógværð og djúpri virðingu. 16  Varðveitið góða samvisku til að þeir sem finna að ykkur, hvað sem það nú er, verði sér til skammar af því að þið hegðið ykkur vel sem fylgjendur Krists. 17  Það er betra að þjást fyrir að gera gott, ef Guð leyfir það, en að þjást fyrir að gera það sem er illt. 18  Kristur dó fyrir syndir í eitt skipti fyrir öll, réttlátur maður fyrir rangláta, til að leiða ykkur til Guðs. Hann var deyddur að holdinu til en lífgaður sem andi. 19  Þannig fór hann og prédikaði fyrir öndunum í fangelsi. 20  Þeir höfðu óhlýðnast á sínum tíma þegar Guð beið þolinmóður* á dögum Nóa og örkin var í smíðum en í henni björguðust fáeinir, það er að segja átta sálir,* í vatninu. 21  Skírnin samsvarar þessu og hún bjargar einnig ykkur núna vegna upprisu Jesú Krists, ekki með því að þvo óhreinindi af líkamanum heldur er hún bæn til Guðs um góða samvisku. 22  Kristur er nú við hægri hönd Guðs því að hann fór til himna og englar, valdhafar og máttarvöld voru sett undir hann.

Neðanmáls

Eða „sýna tillitssemi; sýna skilning“.
Eða „sammála“.
Sjá orðaskýringar.
Eða „andlit Jehóva“. Sjá orðaskýringar.
Eða hugsanl. „Óttist samt ekki hótanir annarra“.
Orðrétt „þolinmæði Guðs beið“.
Eða „manns“.