Bréfið til Rómverja 10:1–21

  • Að verða réttlátur í augum Guðs (1–15)

    • Að játa trúna opinberlega (10)

    • Þeir sem ákalla Jehóva bjargast (13)

    • Fagrir fætur fagnaðarboðans (15)

  • Fagnaðarboðskapnum hafnað (16–21)

10  Bræður,* það er hjartans ósk mín og innileg bæn til Guðs að þeir bjargist.  Ég get vottað að þeir eru kappsamir vegna Guðs en þá skortir nákvæma þekkingu.  Þeir þekkja ekki réttlæti Guðs heldur reyna að sanna á eigin forsendum að þeir séu réttlátir. Þess vegna beygja þeir sig ekki undir réttlæti Guðs.  Lögin liðu undir lok með Kristi og þess vegna geta allir sem trúa orðið réttlátir.  Móse skrifar um réttlætið sem lögin veita: „Sá sem heldur lögin mun lifa vegna þeirra.“  En um réttlætið sem hlýst af trú segir: „Segðu ekki í hjarta þínu: ‚Hver stígur upp til himna?‘ það er, til að sækja Krist þangað,  eða: ‚Hver fer niður í undirdjúpið?‘ það er, til að sækja Krist til hinna dánu.“  Hvað segir Ritningin? „Orðið er nálægt þér, í munni þínum og hjarta,“ það er „orð“ trúarinnar sem við boðum.  Ef þú lýsir yfir með munni þínum að Jesús sé Drottinn og trúir í hjarta þínu að Guð hafi reist hann upp frá dauðum bjargast þú. 10  Með hjartanu trúir maður og það leiðir til réttlætis en með munninum játar maður trúna opinberlega og það leiðir til björgunar. 11  Ritningarstaðurinn segir: „Enginn sem byggir trú sína á honum verður fyrir vonbrigðum.“ 12  Það er enginn munur á Gyðingum og Grikkjum. Sami Drottinn er yfir öllum og hann er örlátur við alla sem ákalla hann 13  því að „allir sem ákalla nafn Jehóva* bjargast“. 14  En hvernig geta þeir ákallað hann ef þeir trúa ekki á hann? Og hvernig geta þeir trúað á þann sem þeir hafa ekki heyrt um? Hvernig geta þeir heyrt ef enginn boðar? 15  Og hvernig geta þeir boðað nema þeir séu sendir? Það er eins og skrifað stendur: „Hversu fagrir eru fætur þeirra sem flytja fagnaðarboðskap um hið góða.“ 16  Þeir hlýddu þó ekki allir fagnaðarboðskapnum. Jesaja segir: „Jehóva,* hver trúir því sem við höfum skýrt frá?“ 17  Trúin kemur af því sem menn heyra, og menn heyra orðið um Krist þegar það er boðað. 18  En ég spyr: Hafa þeir þá ekki heyrt það? Jú, „rödd þeirra hefur borist um alla jörðina og boðskapur þeirra til endimarka heimsbyggðarinnar“. 19  Þá spyr ég: Hafa Ísraelsmenn ekki skilið það? Móse sagði á sínum tíma: „Ég vek afbrýði ykkar með þeim sem eru ekki þjóð. Ég geri ykkur ævareiða með óviturri þjóð.“ 20  Og Jesaja sagði berum orðum: „Ég lét þá finna mig sem leituðu mín ekki. Ég opinberaðist þeim sem spurðu ekki um mig.“ 21  En hann sagði um Ísrael: „Allan liðlangan daginn breiddi ég út faðminn móti óhlýðnu og þrjósku fólki.“

Neðanmáls

Hér er hugsanlegt að orðið „bræður“ vísi til beggja kynja.
Sjá orðaskýringar.
Sjá orðaskýringar.