Opinberunarbókin 13:1–18

  • Villidýr með sjö höfuð kemur upp úr hafinu (1–10)

  • Tvíhyrnt dýr kemur upp úr jörðinni (11–13)

  • Líkneski af sjöhöfða dýrinu (14, 15)

  • Merki og tala villidýrsins (16–18)

13  Hann* stóð kyrr á sandinum við hafið. Nú sá ég villidýr koma upp úr hafinu. Það hafði tíu horn og sjö höfuð og á hornunum voru tíu kórónur* en á höfðunum nöfn sem löstuðu Guð.  Villidýrið sem ég sá líktist hlébarða en fæturnir voru eins og bjarnarfætur og ginið eins og ljónsgin. Og dýrið fékk mátt sinn, hásæti og mikið vald frá drekanum.  Ég sá að eitt af höfðum þess virtist hafa fengið banasár en sárið hafði gróið, og öll jörðin fylgdi villidýrinu full aðdáunar.  Fólk tilbað drekann af því að hann gaf villidýrinu vald og það tilbað villidýrið og sagði: „Hver jafnast á við villidýrið og hver getur barist við það?“  Því var gefinn munnur sem gortaði og guðlastaði og það fékk vald til að gera eins og því sýndist í 42 mánuði.  Það opnaði munninn til að lastmæla Guði, nafni hans og bústað, það er að segja þeim sem búa á himni.  Því var leyft að heyja stríð við hina heilögu og sigra þá, og því var gefið vald yfir hverjum ættflokki, kynþætti, tungu* og þjóð.  Allir sem búa á jörðinni munu tilbiðja það. Frá grundvöllun heims hefur enginn þeirra fengið nafn sitt skráð í bókrollu lífsins sem tilheyrir lambinu slátraða.  Ef einhver hefur eyru skal hann heyra. 10  Ef einhverjum er ætluð fangavist verður hann tekinn til fanga. Ef einhver drepur með sverði* verður hann drepinn með sverði. Hér reynir á þolgæði og trú hinna heilögu. 11  Síðan sá ég annað villidýr koma upp úr jörðinni. Það var með tvö horn eins og lambshorn en talaði eins og dreki. 12  Það fer með allt vald fyrra villidýrsins í augsýn þess og lætur jörðina og íbúa hennar tilbiðja fyrra villidýrið sem læknaðist af banasárinu. 13  Það gerir mikil tákn og lætur jafnvel eld koma af himni til jarðar fyrir augum mannanna. 14  Það afvegaleiðir þá sem búa á jörðinni með táknunum sem því var leyft að gera í augsýn villidýrsins. Og það segir þeim sem búa á jörðinni að gera líkneski af* villidýrinu sem var með sár undan sverði en lifnaði við. 15  Það fékk leyfi til að blása lífi* í líkneskið af villidýrinu svo að líkneskið gæti bæði talað og látið drepa alla sem neituðu að tilbiðja það. 16  Það neyðir alla – háa og lága, ríka og fátæka, frjálsa og þræla – til að fá merki á hægri hönd sér eða enni 17  þannig að enginn geti keypt eða selt nema hann hafi merkið, nafn villidýrsins eða tölu nafnsins. 18  Hér þarf að sýna visku. Sá sem hefur skilning reikni út tölu villidýrsins því að hún er tala manns,* og talan er 666.

Neðanmáls

Það er, drekinn.
Eða „konungleg höfuðbönd“.
Eða „tungumáli“.
Eða hugsanl. „Ef einhverjum er ætlað að falla fyrir sverði“.
Orðrétt „handa“.
Eða „anda“.
Eða „mannleg tala“.