Jóhannes segir frá 8:12–59

  • Faðirinn vitnar um Jesú (12–30)

    • Jesús, „ljós heimsins“ (12)

  • Börn Abrahams (31–41)

    • „Sannleikurinn veitir ykkur frelsi“ (32)

  • Börn Djöfulsins (42–47)

  • Jesús og Abraham (48–59)

8  12  Nú talaði Jesús aftur til þeirra og sagði: „Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér mun alls ekki ganga í myrkri heldur hafa ljós lífsins.“ 13  Farísearnir sögðu þá við hann: „Þú vitnar um sjálfan þig. Vitnisburður þinn er ógildur.“ 14  Jesús svaraði: „Þótt ég vitni um sjálfan mig er vitnisburður minn gildur því að ég veit hvaðan ég kom og hvert ég fer. En þið vitið ekki hvaðan ég kom né hvert ég fer. 15  Þið dæmið eftir mælikvarða manna* en ég dæmi alls engan. 16  Og ef ég dæmi samt er dómur minn réttlátur því að ég er ekki einn heldur er faðirinn sem sendi mig með mér. 17  Í ykkar eigin lögum stendur líka: ‚Vitnisburður tveggja manna er gildur.‘ 18  Ég vitna um sjálfan mig og faðirinn sem sendi mig vitnar líka um mig.“ 19  Þeir spurðu hann þá: „Hvar er faðir þinn?“ Jesús svaraði: „Þið þekkið hvorki mig né föður minn. Ef þið þekktuð mig mynduð þið líka þekkja föður minn.“ 20  Hann sagði þetta meðan hann var að kenna í musterinu, rétt hjá söfnunarbaukunum. En enginn handtók hann því að tími hans var enn ekki kominn. 21  Hann sagði aftur við þá: „Ég fer burt og þið munuð leita að mér en samt munuð þið deyja í synd ykkar. Þið komist ekki þangað sem ég fer.“ 22  Þá sögðu Gyðingar: „Ekki ætlar hann að fyrirfara sér fyrst hann segir: ‚Þið komist ekki þangað sem ég fer‘?“ 23  Jesús bætti þá við: „Þið eruð neðan að, ég er ofan að. Þið eruð af þessum heimi, ég er ekki af þessum heimi. 24  Þess vegna sagði ég ykkur: Þið munuð deyja í syndum ykkar. Ef þið trúið ekki að ég sé sá sem ég segist vera munuð þið deyja í syndum ykkar.“ 25  Þeir spurðu hann þá: „Hver ertu?“ Jesús svaraði: „Hvers vegna er ég yfirleitt að tala við ykkur? 26  Ég hef margt að segja um ykkur og margt að dæma. Sá sem sendi mig er sannorður og það sem ég segi í heiminum hef ég heyrt frá honum.“ 27  Þeir skildu ekki að Jesús var að tala við þá um föðurinn. 28  Þá sagði hann: „Þegar þið hafið lyft upp Mannssyninum munuð þið skilja að ég er sá sem ég sagðist vera og að ég geri ekkert að eigin frumkvæði heldur tala það sem faðirinn kenndi mér. 29  Og sá sem sendi mig er með mér. Hann hefur ekki skilið mig eftir einan því að ég geri alltaf það sem hann hefur velþóknun á.“ 30  Þegar hann sagði þetta fóru margir að trúa á hann. 31  Jesús sagði nú við Gyðingana sem höfðu tekið trú á hann: „Ef þið fylgið orðum mínum staðfastlega eruð þið sannir lærisveinar mínir 32  og þið munuð þekkja sannleikann og sannleikurinn veitir ykkur frelsi.“ 33  Þeir svöruðu: „Við erum afkomendur Abrahams og höfum aldrei verið þrælar neins. Hvernig geturðu sagt: ‚Þið verðið frjálsir‘?“ 34  Jesús svaraði þeim: „Ég segi ykkur með sanni að allir sem syndga eru þrælar syndarinnar. 35  Þrællinn býr ekki að eilífu á heimilinu en sonurinn býr þar að eilífu. 36  Ef sonurinn veitir ykkur frelsi verðið þið frjálsir í raun og veru. 37  Ég veit að þið eruð afkomendur Abrahams. Samt viljið þið drepa mig því að þið takið ekki við því sem ég kenni. 38  Ég tala um það sem ég hef séð hjá föður mínum en þið gerið það sem þið hafið heyrt hjá föður ykkar.“ 39  „Abraham er faðir okkar,“ svöruðu þeir. „Ef þið væruð börn Abrahams mynduð þið fara að dæmi Abrahams,“ sagði Jesús. 40  „En nú viljið þið drepa mig og ég hef sagt ykkur sannleikann sem ég heyrði hjá Guði. Abraham hefði aldrei gert slíkt. 41  Þið farið að dæmi föður ykkar.“ Þeir svöruðu: „Við erum ekki óskilgetnir.* Við eigum einn föður, Guð.“ 42  Jesús sagði við þá: „Ef Guð væri faðir ykkar mynduð þið elska mig því að ég kem frá Guði og nú er ég hér. Ég kom ekki að eigin frumkvæði heldur sendi hann mig. 43  Af hverju skiljið þið ekki það sem ég segi? Af því að þið getið ekki hlustað á orð mín. 44  Djöfullinn er faðir ykkar og þið viljið gera það sem faðir ykkar þráir. Hann var morðingi þegar hann hófst handa* og var ekki staðfastur í sannleikanum því að sannleikurinn býr ekki í honum. Þegar hann lýgur fer hann að eðli sínu því að hann er lygari og faðir lyginnar. 45  En þar sem ég segi ykkur sannleikann trúið þið mér ekki. 46  Hver ykkar getur sannað á mig synd? Fyrst ég segi sannleikann, hvers vegna trúið þið mér ekki? 47  Sá sem er frá Guði hlustar á það sem Guð segir. Þið hlustið ekki vegna þess að þið eruð ekki frá Guði.“ 48  Gyðingar spurðu þá: „Er það ekki rétt hjá okkur að þú sért Samverji og haldinn illum anda?“ 49  Jesús svaraði: „Ég er ekki haldinn illum anda. Ég heiðra föður minn en þið lítilsvirðið mig. 50  Ég er ekki að reyna að upphefja sjálfan mig en sá er til sem vill upphefja mig og hann er dómarinn. 51  Ég segi ykkur með sanni að sá sem fer eftir orðum mínum mun aldrei deyja.“ 52  Gyðingarnir sögðu: „Nú vitum við að þú ert haldinn illum anda. Abraham dó og spámennirnir sömuleiðis en þú segir: ‚Sá sem fer eftir orðum mínum mun aldrei deyja.‘ 53  Varla ertu meiri en Abraham faðir okkar. Hann dó og spámennirnir líka. Hver þykistu vera?“ 54  Jesús svaraði: „Það væri engin upphefð ef ég upphæfi sjálfan mig. Faðir minn upphefur mig, sá sem þið segið vera Guð ykkar. 55  Þið þekkið hann samt ekki en ég þekki hann. Ef ég segðist ekki þekkja hann væri ég lygari eins og þið. En ég þekki hann og fer eftir því sem hann segir. 56  Abraham faðir ykkar hlakkaði mikið til að sjá minn dag og hann sá hann og gladdist.“ 57  Gyðingarnir sögðu þá: „Þú ert ekki einu sinni orðinn fimmtugur og segist samt hafa séð Abraham!“ 58  Jesús svaraði: „Ég segi ykkur með sanni: Ég var til áður en Abraham fæddist.“ 59  Þeir tóku þá upp steina til að grýta Jesú en hann faldi sig og yfirgaf musterið.

Neðanmáls

Orðrétt „eftir holdinu“.
Orðrétt „fæddir vegna kynferðislegs siðleysis“. Á grísku pornei′a. Sjá orðaskýringar.
Eða „frá upphafi“.