Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Styrkjum hvert annað

Styrkjum hvert annað

Styrkjum hvert annað

„Þeir [hafa] verið mér til huggunar [„styrktar“, NW].“ — KÓLOSSUBRÉFIÐ 4:11.

1, 2. Af hverju heimsóttu vinir Páls hann í fangelsið þótt það væri hættulegt?

ÞAÐ getur verið hættulegt að vera vinur einhvers sem dúsir í fangelsi, jafnvel þótt hann sé saklaus. Fangaverðirnir gætu litið þig hornauga og fylgst með öllu sem þú gerir til að ganga úr skugga um að þú brjótir ekki af þér. Þú þyrftir að sýna hugrekki til að halda nánu sambandi við vin þinn og heimsækja hann í fangelsið.

2 Þetta er einmitt það sem nokkrir vinir Páls postula gerðu fyrir um 1900 árum. Þeir hikuðu ekki við að heimsækja hann í fangelsið til að hvetja hann, hughreysta og styrkja í trúnni. Hverjir voru þessir tryggu vinir? Og hvað getum við lært af hugrekki þeirra, tryggð og vináttu? — Orðskviðirnir 17:17.

Þeir voru honum til styrktar

3, 4. (a) Nefndu fimm af vinum Páls. Hvernig lýsti hann aðstoðinni sem þeir veittu honum? (b) Hvað þýðir orðalagið ‚til styrktar‘?

3 Hverfum aftur til tímans í kringum árið 60. Páll postuli er í haldi í Róm vegna þess að óvinir hans sökuðu hann ranglega um að kveikja ófrið. (Postulasagan 24:5; 25:11, 12) Páll nefnir sérstaklega fimm kristna menn sem studdu hann en þeir voru: Týkíkus, sendimaður hans frá Asíu og „samverkamaður í þjónustu Drottins“; Onesímus, hans „trúi og elskaði bróðir“ frá Kólossu; Aristarkus, makedónskur maður frá Þessaloníku sem hafði áður verið „sambandingi“ Páls; Markús, frændi Barnabasar sem var trúboðsfélagi Páls, og ritari Markúsarguðspjalls; og Jústus, samverkamaður Páls „fyrir Guðs ríki“. Hann segir að þessir fimm menn hafi verið honum til styrktar. — Kólossubréfið 4:7-11.

4 Páll notar hér kröftug orð til að lýsa aðstoðinni sem hann fékk frá vinum sínum. Hann notar grískt orð (paregoriʹa) sem þýða má ‚til styrktar‘ og kemur hvergi annars staðar fyrir í Biblíunni. Þetta orð hefur breiða merkingu og var sérstaklega notað í tengslum við lækningar. * Einnig má þýða það ‚hughreysting, léttir, huggun eða linun‘. Páll þurfti að fá þess konar styrk og þessir fimm menn veittu hann.

Hvers vegna þurfti Páll að fá styrk?

5. Hvers þarfnaðist Páll þótt hann væri postuli og á hverju þurfum við öll að halda af og til?

5 Það kemur kannski sumum á óvart að Páll, sem var postuli, hafi þurft að fá styrk. En hann þarfnaðist þess. Vissulega hafði hann sterka trú. Hann hafði þolað miklar líkamsmeiðingar, fengið mörg „högg“, verið oft í „dauðans hættu“ og orðið fyrir mörgum öðrum raunum. (2. Korintubréf 11:23-27) En hann var samt mannlegur og allir menn þurfa af og til að fá uppörvun og hjálp til að styrkja trú sína. Þetta átti jafnvel við um Jesú. Nóttina fyrir dauða hans birtist honum engill í Getsemanegarðinum sem „styrkti hann“. — Lúkas 22:43.

6, 7. (a) Hverjir ollu Páli vonbrigðum þegar hann var í Róm og hverjir uppörvuðu hann? (b) Hvernig voru kristnu bræðurnir í Róm honum til styrktar?

6 Þegar Páll kom sem fangi til Rómar þurfti hann að fá styrk því að Gyðingar tóku ekki vel á móti honum. Þeir voru almennt ekki móttækilegir fyrir boðskapnum um Guðsríki. Eftir að helstu menn Gyðinga heimsóttu Pál í fangelsið „létu [sumir] sannfærast af orðum hans, en aðrir trúðu ekki. Fóru þeir burt, ósamþykkir sín í milli.“ (Postulasagan 28:17, 24, 25) Það hlýtur að hafa sært Pál að sjá að þeir kunnu ekki að meta óverðskuldaða góðvild Jehóva. Augljóst er af bréfinu, sem hann skrifaði til safnaðarins í Róm nokkrum árum áður, að þetta skipti hann miklu máli: „Ég hef hryggð mikla og sífellda kvöl í hjarta mínu. Ég gæti óskað, að mér væri sjálfum útskúfað frá Kristi, ef það yrði til heilla fyrir bræður mína [Gyðinga] og ættmenn.“ (Rómverjabréfið 9:2, 3) En hann eignaðist sanna félaga í Róm og hugrekki þeirra og umhyggja yljaði honum um hjartarætur. Þeir voru trúbræður hans í raun.

7 Hvernig styrktu þessir fimm bræður Pál? Þeir hættu ekki að fara til hans þótt hann væri í fjötrum heldur sýndu umhyggju sína með því að þjóna honum fúslega og sinna verkefnum sem hann gat ekki sjálfur sinnt í fangelsinu. Þeir fóru til dæmis í sendiferðir fyrir hann, komu bréfum hans og leiðbeiningum áleiðis til safnaðanna og sögðu honum uppörvandi frásagnir af bræðrunum í Róm og annars staðar. Sennilega færðu þeir honum einnig það sem hann þurfti eins og vetrarföt, skinnbækur og skriffæri. (Efesusbréfið 6:21, 22; 2. Tímóteusarbréf 4:11-13) Allt þetta styrkti og uppörvaði Pál svo að hann gat síðan verið öðrum til styrktar, þar með talið heilum söfnuðum. — Rómverjabréfið 1:11, 12.

Hvernig getum við verið öðrum til styrktar?

8. Hvað lærum af því að Páll viðurkenndi auðmjúklega að hann þyrfti á hjálp að halda?

8 Hvað getum við lært af þessari frásögu um Pál og fimm samverkamenn hans? Við lærum til dæmis að það þarf að sýna hugrekki og fórnfýsi til að aðstoða aðra þegar þeir eiga í erfiðleikum. Það þarf einnig að sýna auðmýkt til að viðurkenna að við þurfum sjálf á hjálp að halda á erfiðum tímum. Páll viðurkenndi ekki aðeins að hann þyrfti að fá hjálp heldur þáði hjálpina með þökkum og hrósaði þeim sem hana veittu. Honum fannst það hvorki vera niðurlægjandi né merki um veikleika og við ættum að hafa sama viðhorf. Ef við segðum að við þyrftum aldrei á stuðningi að halda værum við að gefa í skyn að við værum ofurmannleg. Mundu að Jesús, sem var fullkominn, þurfti jafnvel að biðja um hjálp. — Hebreabréfið 5:7.

9, 10. Hvaða áhrif getur það haft á aðra í fjölskyldunni og söfnuðinum ef einstaklingur viðurkennir að hann þurfi á hjálp að halda?

9 Það getur haft góð áhrif ef menn í ábyrgðarstöðum viðurkenna takmörk sín og að þeir þurfi á stuðningi annarra að halda. (Jakobsbréfið 3:2) Það getur styrkt böndin milli þeirra sem fara með yfirráð og hinna sem lúta þeim og stuðlað að hlýlegum og óþvinguðum samskiptum. Þeir sem eru auðmjúkir og fúsir til að þiggja hjálp gefa öðrum í svipaðri aðstöðu gott fordæmi. Þannig sýna þeir sem fara með forystuna að þeir eru mannlegir og auðvelt er að nálgast þá. — Prédikarinn 7:20.

10 Tökum dæmi: Þegar börn glíma við erfiðleika og freistingar getur þeim fundist auðveldara að þiggja hjálp foreldranna ef þau vita að foreldrarnir þurftu að takast á við svipaðar raunir þegar þeir voru ungir. (Kólossubréfið 3:21) Þannig opnast tjáskiptaleið milli foreldra og barna. Þá er auðveldara fyrir foreldrana að veita biblíulegar leiðbeiningar og börnin eru fúsari til að taka við þeim. (Efesusbréfið 6:4) Á svipaðan hátt verða safnaðarmenn fúsari til að þiggja hjálp öldunganna ef þeir gera sér grein fyrir því að öldungarnir þurfa einnig að glíma við vandamál og sigrast á ótta. (Rómverjabréfið 12:3; 1. Pétursbréf 5:3) Þannig verða samskiptin einnig betri, hægara er að veita biblíulega leiðsögn og styrkja trú safnaðarmanna. Mundu að bræður okkar og systur þurfa meira á uppörvun að halda núna en nokkru sinni fyrr. — 2. Tímóteusarbréf 3:1.

11. Hvers vegna þurfa svona margir á styrk að halda nú á dögum?

11 Við þurfum öll að glíma við erfiðleika sama hver við erum, hvar við búum eða á hvaða aldri við erum. Það tilheyrir heimi nútímans. (Opinberunarbókin 12:12) Líkamlegir og tilfinningalegir erfiðleikar reyna á trúarstaðfestu okkar. Vandamál geta komið upp í vinnunni, skólanum, fjölskyldunni eða söfnuðinum. Alvarleg veikindi eða áfall fyrr á ævinni getur stuðlað að þessum vandamálum. Okkur þykir öllum innilega vænt um það ef maki, öldungur eða vinur uppörvar okkur með hugulsömum orðum eða veitir okkur hjálp í verki. Það er eins og græðandi smyrsl sem borið er á sára húð. Ef þú sérð að þannig er ástatt hjá bróður þínum skaltu vera honum til styrktar. Og ef sérstaklega erfitt vandamál íþyngir þér skaltu biðja hæfa bræður að hjálpa þér. — Jakobsbréfið 5:14, 15.

Hvernig getur söfnuðurinn hjálpað?

12. Hvað getur hver og einn í söfnuðinum gert til að styrkja bræður sína?

12 Allir í söfnuðinum, þar með talin börnin, geta lagt sitt af mörkum til að styrkja aðra. Þú getur til dæmis styrkt trú annarra með því að fara reglulega á samkomur og í boðunarstarfið. (Hebreabréfið 10:24, 25) Staðfesta þín er merki um tryggð við Jehóva og sýnir að þú heldur þér andlega vakandi þrátt fyrir erfiðleika. (Efesusbréfið 6:18) Slík staðfesta getur haft styrkjandi áhrif á aðra. — Jakobsbréfið 2:18.

13. Hvers vegna verða sumir óvirkir og hvað er hægt að gera til að hjálpa þeim?

13 Stundum getur álag lífsins eða aðrir erfiðleikar hægt á sumum eða gert þá óvirka í boðunarstarfinu. (Markús 4:18, 19) Við sjáum óvirka kannski ekki á safnaðarsamkomum en líklega bera þeir enn þá kærleika til Jehóva í hjörtum sér. Hvað er hægt að gera til að styrkja trú þeirra? Öldungarnir geta hjálpað þeim með því að heimsækja þá. (Postulasagan 20:35) Kannski eru aðrir í söfnuðinum líka beðnir um að hjálpa. Slíkar heimsóknir geta einmitt verið rétta meðalið til að endurlífga þá sem eru veikir í trúnni.

14, 15. Hvernig ráðleggur Páll okkur að styrkja aðra? Nefndu dæmi um söfnuð sem fór eftir þessum leiðbeiningum.

14 Biblían hvetur: „Hughreystið ístöðulitla, takið að yður þá, sem óstyrkir eru.“ (1. Þessaloníkubréf 5:14) Kannski finnst hinum ístöðulitlu eða niðurdregnu að hugrekki þeirra sé að dvína og þeir geti ekki yfirstigið erfiðleikana hjálparlaust. Getur þú boðist til að hjálpa þeim? Orðasambandið ‚að taka að sér óstyrka‘ hefur líka verið þýtt ‚að halda í‘ eða ‚að styrkja‘ óstyrka. Jehóva þykir innilega vænt um alla sauði sína. Honum finnst þeir ekki vera lítils virði og hann vill ekki að neinn þeirra berist afleiðis. Getur þú hjálpað söfnuðinum ‚að halda í‘ þá sem eru andlega veikburða þar til þeir verða sterkari? — Hebreabréfið 2:1.

15 Öldungur heimsótti hjón sem höfðu verið óvirk í sex ár. Hann segir: „Umhyggjan og góðvildin, sem allur söfnuðurinn sýndi, hafði svo mikil áhrif að þau sneru aftur til hjarðarinnar.“ Hvað fannst systurinni, sem hafði verið óvirk, um heimsóknir safnaðarmanna? Hún segir: „Það sem stuðlaði að því að við urðum virk aftur var að hvorki bræðurnir, sem heimsóttu okkur, né systurnar, sem komu með þeim, voru dómhörð eða gagnrýnin heldur sýndu þau skilning og veittu hvatningu frá Biblíunni.“

16. Hver er alltaf reiðubúinn að hjálpa þeim sem þurfa á styrk að halda?

16 Já, einlægur kristinn maður vill gjarnan vera öðrum til styrktar. En aðstæður í lífi okkar gætu breyst og við sjálf þurft að fá stuðning frá bræðrum okkar. Það gæti þó verið að á neyðartímum sé enginn maður tiltækur til að hjálpa okkur. Þá er samt einn sem við getum alltaf leitað til og hann er alltaf fús til að hjálpa — það er Jehóva Guð. — Sálmur 27:10.

Jehóva veitir okkur takmarkalausan styrk

17, 18. Hvernig styrkti Jehóva son sinn, Jesú Krist?

17 Þegar Jesús var negldur á staurnum hrópaði hann: „Faðir, í þínar hendur fel ég anda minn!“ (Lúkas 23:46) Síðan dó hann. Nokkrum klukkustundum áður hafði hann verið handtekinn og nánustu vinir hans yfirgefið hann og flúið af ótta. (Matteus 26:56) Nú gat hann aðeins sótt styrk til föður síns á himnum. En traust hans til Jehóva var ekki til einskis. Jehóva launaði honum trúfestina með því að styrkja hann. — Sálmur 18:26; Hebreabréfið 2:17.

18 Á meðan Jesús þjónaði hér á jörð veitti Jehóva honum það sem hann þurfti til að vera ráðvandur allt til dauðadags. Þegar hann hóf þjónustu sína og lét skírast heyrði hann föður sinn lýsa yfir velþóknun sinni og ást, svo dæmi sé tekið. Jehóva sendi einnig engla til að styrkja hann þegar hann þurfti að fá stuðning. Og þegar hann stóð frammi fyrir mestu prófrauninni við lok jarðvistar sinnar hlustaði Jehóva á bænir hans og áköll. Án efa styrkti allt þetta Jesú og uppörvaði. — Markús 1:11, 13; Lúkas 22:43.

19, 20. Hvers vegna getum við verið viss um að Jehóva styrkir okkur á neyðartímum?

19 Jehóva vill líka að við sækjum styrk til hans. (2. Kroníkubók 16:9) Hann getur verið okkur til styrktar á neyðartímum því hann er voldugur að afli og uppspretta mikils kraftar. (Jesaja 40:26) Stríðsátök, fátækt, veikindi, dauðsföll og okkar eigin ófullkomleiki getur gert okkur mjög erfitt fyrir. Jehóva getur verið styrkur okkar þegar álag lífsins virðist vera yfirþyrmandi eins og ‚sterkur óvinur‘. (Sálmur 18:18; 2. Mósebók 15:2) Hann hefur öflugan hjálpara, heilagan anda sinn. Fyrir anda sinn getur Jehóva veitt „kraft hinum þreytta“ svo að hann ‚fljúgi upp á vængjum sem örn‘. — Jesaja 40:29, 31.

20 Andi Guðs er sterkasta aflið í alheiminum. Páll sagði: „Allt megna ég fyrir hjálp hans, sem mig styrkan gjörir.“ Já, kærleiksríkur faðir okkar á himnum getur veitt okkur „ofurmagn kraftarins“. Þannig getum við verið þolgóð þrátt fyrir erfið vandamál og haldið út uns hann gerir „alla hluti nýja“ í hinni fyrirheitnu paradís sem nú er svo nálæg. — Filippíbréfið 4:13; 2. Korintubréf 4:7; Opinberunarbókin 21:4, 5.

[Neðanmáls]

^ gr. 4 Biblíuorðabók segir: „Sagnmynd orðsins [paregoriʹa] ber með sér hugmyndina um lyf sem dregur úr ertingu.“ — Vine’s Complete Expository Dictionary of Old and New Testament Words, eftir W. E. Vine

Manstu?

• Hvernig voru bræðurnir í Róm Páli til styrktar?

• Hvernig getum við styrkt aðra í söfnuðinum?

• Hvernig veitir Jehóva okkur styrk?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 28, 29]

Bræðurnir voru Páli til styrktar með því að styðja hann trúfastlega, hvetja hann og rétta honum hjálparhönd.

[Mynd á blaðsíðu 31]

Öldungar taka forystuna í því að styrkja hjörðina.