Postulasagan 20:1–38

  • Páll í Makedóníu og Grikklandi (1–6)

  • Evtýkus vakinn upp frá dauðum í Tróas (7–12)

  • Frá Tróas til Míletus (13–16)

  • Páll hittir öldungana í Efesus (17–38)

    • Kennir hús úr húsi (20)

    • „Ánægjulegra að gefa en þiggja“ (35)

20  Þegar látunum linnti sendi Páll eftir lærisveinunum. Hann uppörvaði þá og kvaddi þá síðan og lagði af stað til Makedóníu.  Eftir að hafa farið um svæðið og veitt lærisveinunum þar mikla uppörvun kom hann til Grikklands.  Hann dvaldist þar í þrjá mánuði en þegar hann ætlaði að sigla til Sýrlands uppgötvaði hann að Gyðingar höfðu bruggað honum launráð og ákvað þá að fara til baka um Makedóníu.  Í för með honum voru Sópater Pýrrusson frá Beroju, Aristarkus og Sekúndus frá Þessaloníku, Gajus frá Derbe, Tímóteus og þeir Týkíkus og Trófímus frá skattlandinu Asíu.  Þeir fóru á undan okkur til Tróas og biðu okkar þar  en við sigldum frá Filippí eftir hátíð ósýrðu brauðanna og komum til þeirra í Tróas á fimmta degi. Þar vorum við í sjö daga.  Fyrsta dag vikunnar, þegar við söfnuðumst saman til að borða, tók Páll til máls og talaði til þeirra sem voru samankomnir því að hann ætlaði að halda ferðinni áfram daginn eftir. Hann talaði allt til miðnættis.  Í herberginu á efstu hæð, þar sem við höfðum safnast saman, voru margir lampar.  Í glugganum sat ungur maður sem hét Evtýkus. Hann steinsofnaði meðan Páll var að tala, féll niður af þriðju hæð og var látinn þegar menn lyftu honum upp. 10  En Páll fór niður, beygði sig yfir hann, tók utan um hann og sagði: „Verið róleg, hann er lifandi.“* 11  Hann fór síðan upp, braut brauðið og byrjaði að borða. Hann ræddi við þau enn um stund, allt fram í dögun, og hélt síðan ferð sinni áfram. 12  En þau fóru með drenginn og það var þeim mikil huggun að hann skyldi vera á lífi. 13  Við fórum nú til skips og sigldum til Assus þar sem við ætluðum að taka Pál um borð eins og hann hafði beðið okkur um en sjálfur ætlaði hann þangað fótgangandi. 14  Þegar við svo hittum hann í Assus tókum við hann um borð og héldum til Mitýlene. 15  Næsta dag sigldum við af stað og staðnæmdumst út af Kíos. Við komum við á Samos daginn eftir og náðum til Míletus á þriðja degi. 16  Páll hafði ákveðið að sigla fram hjá Efesus til að tefjast ekki í skattlandinu Asíu því að hann vildi flýta sér til Jerúsalem og ná þangað á hvítasunnudag ef hægt væri. 17  Hann sendi hins vegar boð frá Míletus til Efesus og kallaði öldunga safnaðarins á sinn fund. 18  Þegar þeir komu til hans sagði hann við þá: „Þið vitið vel hvernig ég lifði meðal ykkar allt frá þeim degi sem ég kom fyrst til skattlandsins Asíu. 19  Ég vann baki brotnu fyrir Drottin í allri auðmýkt, með tárum og í raunum sem Gyðingar ollu mér með launráðum sínum. 20  Þið vitið líka að ég hikaði ekki við að segja ykkur allt sem var ykkur til gagns* né kenna ykkur opinberlega og hús úr húsi. 21  Ég skýrði ítarlega bæði fyrir Gyðingum og Grikkjum að þeir ættu að iðrast frammi fyrir Guði og trúa á Drottin okkar Jesú. 22  Nú er ég á leið til Jerúsalem, knúinn af* andanum, en ég veit ekki hvað mætir mér þar 23  nema það sem heilagur andi segir mér ítrekað í borg eftir borg að fangavist og þjáningar bíði mín. 24  En líf* mitt skiptir mig engu máli* ef ég fæ aðeins að ljúka hlaupinu og þjónustunni sem ég fékk frá Drottni Jesú, að boða rækilega fagnaðarboðskapinn um einstaka góðvild Guðs. 25  Nú veit ég að enginn ykkar sem ég boðaði ríkið fær að sjá mig framar. 26  Ég kalla ykkur því til vitnis um það nú í dag að ég er hreinn af blóði allra 27  því að ég hef boðað ykkur vilja* Guðs og ekkert dregið undan. 28  Hafið gætur á sjálfum ykkur og allri hjörðinni sem heilagur andi hefur falið ykkur til umsjónar, til að þið séuð hirðar safnaðar Guðs sem hann keypti með blóði síns eigin sonar. 29  Ég veit að grimmir úlfar* munu blanda sér í hópinn eftir að ég er farinn og ekki fara mildilega með hjörðina, 30  og úr hópi sjálfra ykkar munu koma fram menn sem rangsnúa sannleikanum til að tæla lærisveinana á eftir sér. 31  Haldið því vöku ykkar og munið að ég leiðbeindi hverjum og einum ykkar stöðugt með tárum dag og nótt í þrjú ár. 32  Megi nú Guð og orðið um einstaka góðvild hans vernda ykkur, en það getur byggt ykkur upp og veitt ykkur arfleifðina meðal allra hinna heilögu. 33  Ég hef ekki ágirnst silfur né gull né föt nokkurs manns. 34  Þið vitið sjálfir að þessar hendur hafa unnið fyrir þörfum mínum og þörfum þeirra sem voru með mér. 35  Ég hef sýnt ykkur í öllu að eins eigið þið að vinna hörðum höndum til að hjálpa þeim sem eru veikburða, og hafa í huga orð Drottins Jesú en hann sagði: ‚Það er ánægjulegra að gefa en þiggja.‘“ 36  Eftir að hafa sagt þetta féll hann á kné ásamt þeim öllum og baðst fyrir. 37  Allir fóru að gráta sáran og þeir föðmuðu Pál* og kysstu hann ástúðlega 38  því að þeim var mjög brugðið að heyra hann segja að þeir myndu ekki sjá hann framar. Síðan fylgdu þeir honum til skips.

Neðanmáls

Eða „sál hans er í honum“.
Eða „fyrir bestu“.
Orðrétt „bundinn í“.
Eða „sál“.
Eða „er mér einskis virði“.
Eða „alla fyrirætlun“.
Eða „að úlfar sem þjaka“.
Orðrétt „féllu um háls Páli“.