Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Unglingar, leggið góðan grunn að framtíðinni

Unglingar, leggið góðan grunn að framtíðinni

Unglingar, leggið góðan grunn að framtíðinni

„Ég þekki þær fyrirætlanir, sem ég hefi í hyggju með yður . . . fyrirætlanir til heilla, en ekki til óhamingju, að veita yður vonarríka framtíð.“ — JEREMÍA 29:11.

1, 2. Hvaða ólík viðhorf hefur fólk til æskuáranna?

FLEST fullorðið fólk lítur á æskuna sem mjög ánægjulegan tíma. Það man hve mikla orku og eldmóð það hafði á sínum yngri árum. Það hugsar hlýlega til þess tíma þegar það hafði mun minni ábyrgð, naut lífsins og ótal tækifæri blöstu við.

2 Þið sem eruð ung lítið málin sennilega öðrum augum. Ykkur finnst kannski erfitt að glíma við þær líkamlegu og tilfinningalegu breytingar sem fylgja unglingsárunum. Þið verðið hugsanlega fyrir miklum hópþrýstingi í skólanum og gætuð þurft að sýna staðfestu til að hafna fíkniefnum, áfengi og siðleysi. Það gæti einnig reynt á afstöðu ykkar til hlutleysis eða annarra mála sem tengjast trú ykkar. Já, æskuárin geta verið erfiður tími, en þau eru líka tími tækifæra. Spurningin er hins vegar sú hvernig þú ætlar að nota þessi tækifæri.

Njóttu æskunnar

3. Hvaða ráð og viðvörun veitti Salómon ungu fólki?

3 Þeir sem eru eldri hafa örugglega sagt þér að æskuárin séu fljót að líða, og það er rétt. Áður en þú veist af verða æskuárin liðin hjá. Þess vegna skaltu njóta þeirra á meðan þú getur. Salómon konungur hvatti til þess þegar hann skrifaði: „Gleð þig, ungi maður, í æsku þinni, og lát liggja vel á þér unglingsár þín, og breyt þú eins og hjartað leiðir þig og eins og augun girnast.“ En hann sagði líka við ungt fólk í viðvörunartón: „Hrind gremju burt frá hjarta þínu og lát eigi böl koma nærri líkama þínum.“ Enn fremur sagði hann: „Æska og morgunroði lífsins eru hverful.“ — Prédikarinn 11:9, 10.

4, 5. Hvers vegna er viturlegt af ungu fólki að leggja góðan grunn að framtíðinni? Lýstu með dæmi.

4 Skilur þú hvað Salómon átti við? Lýsum því með dæmi. Segjum sem svo að ungur maður fái mjög verðmæta gjöf eða jafnvel peninga í arf. Hvað ætti hann að gera við það sem hann fær? Hann gæti eytt því öllu í sjálfan sig líkt og glataði sonurinn í dæmisögu Jesú. (Lúkas 15:11-23) En hvernig liði honum þegar hann væri búinn að eyða því öllu? Hann myndi örugglega sjá eftir því að hafa verið svona ábyrgðarlaus. Ef hann myndi hins vegar nota gjöfina til að leggja góðan grunn að framtíðinni og fjárfesti kannski stærstan hluta þess viturlega myndi hann síðar njóta góðs af því. Heldurðu að hann myndi sjá eftir því að hafa ekki eytt öllu í að skemmta sér á unglingsárunum? Nei, auðvitað ekki.

5 Líttu á æskuárin sem gjöf frá Guði, eins og þau vissulega eru. Hvernig ætlar þú að nota þau? Þú gætir sóað allri orku þinni og eldmóði í sjálfsdekur með því að hugsa bara um hverja skemmtunina á fætur annarri en ekkert um framtíðina. En þá myndi „æska og morgunroði lífsins“ reynast „hverful“. Það væri mun skynsamlegra að nýta æskuárin til að leggja góðan grunn að framtíðinni.

6. (a) Hvaða ráð gaf Salómon sem ungt fólk getur haft að leiðarljósi? (b) Hvað vill Jehóva gera fyrir ungt fólk og hvernig getur það notið góðs af því?

6 Salómon setti fram meginreglu sem getur hjálpað þér að nýta æskuárin sem best. Hann sagði: „Mundu eftir skapara þínum á unglingsárum þínum.“ (Prédikarinn 12:1) Þetta er lykillinn að velgengni — að hlusta á Jehóva og gera vilja hans. Jehóva sagði Ísraelsmönnum til forna hvað hann ætlaði að gera fyrir þá: „Því að ég þekki þær fyrirætlanir, sem ég hefi í hyggju með yður . . . fyrirætlanir til heilla, en ekki til óhamingju, að veita yður vonarríka framtíð.“ (Jeremía 29:11) Jehóva vill líka veita þér „vonarríka framtíð“. Ef verk þín, hugsanir og ákvarðanir sýna að þú manst eftir honum verður þessi vonarríka framtíð að veruleika. — Opinberunarbókin 7:16, 17; 21:3, 4.

„Nálægið yður Guði“

7, 8. Hvernig getur ungt fólk nálægt sig Guði?

7 Jakob hvatti okkur til að muna eftir Jehóva og sagði: „Nálægið yður Guði, og þá mun hann nálgast yður.“ (Jakobsbréfið 4:8) Jehóva er skaparinn, hinn alvaldi á himnum, og hann verðskuldar lof okkar og tilbeiðslu. (Opinberunarbókin 4:11) Samt sem áður er hann tilbúinn til að nálgast okkur ef við nálægjum okkur honum. Hlýjar það þér ekki um hjartarætur að vita að hann hefur svona einlægan áhuga á þér? — Matteus 22:37.

8 Við höfum margar leiðir til að nálægja okkur Jehóva. Páll postuli segir til dæmis: „Verið staðfastir í bæninni. Vakið og biðjið með þakkargjörð.“ (Kólossubréfið 4:2) Með öðrum orðum skaltu temja þér að vera bænrækinn. Láttu þér ekki aðeins nægja að segja amen eftir að pabbi þinn eða trúbróðir í söfnuðinum hefur farið með bæn fyrir þína hönd. Hefurðu einhvern tíma úthellt hjarta þínu fyrir Jehóva og sagt honum hvað þú ert að hugsa, hvað þú óttast og hvaða erfiðleikum þú stendur frammi fyrir? Hefurðu sagt honum frá einhverju sem þér þætti of vandræðalegt að ræða við nokkurn mann? Hreinskilnar og einlægar bænir veita okkur hugarfrið. (Filippíbréfið 4:6, 7) Þær hjálpa okkur að nálægja okkur Jehóva og finna að hann nálgast okkur.

9. Hvernig getur ungt fólk hlustað á Jehóva?

9 Við finnum dæmi um aðra leið til að nálægja okkur Jehóva í orðunum: „Hlýð þú ráðum og tak umvöndun, til þess að þú verðir vitur eftirleiðis.“ (Orðskviðirnir 19:20) Já, þú leggur góðan grunn að framtíðinni með því að hlusta á Jehóva og hlýða honum. Hvernig geturðu sýnt að þú hlustar á Jehóva? Eflaust sækir þú safnaðarsamkomur reglulega og hlustar á dagskrána. Þú heiðrar einnig foreldra þína með því að vera með í fjölskyldunáminu. (Efesusbréfið 6:1, 2; Hebreabréfið 10:24, 25) Það er hrósvert. En tekurðu þér líka tíma til að undirbúa þig fyrir samkomur, lesa reglulega í Biblíunni og rannsaka biblíuleg efni? Reynirðu að fara eftir því sem þú lest þannig að þú breytir viturlega? (Efesusbréfið 5:15-17; Sálmur 1:1-3) Með því að gera þetta nálægir þú þig Jehóva.

10, 11. Hvernig nýtur ungt fólk góðs af því að hlusta á Jehóva?

10 Innblásinn ritari Orðskviðanna greinir frá markmiði bókarinnar í inngangsorðum hennar. Hann segir það vera „til þess að menn kynnist visku og aga, læri að skilja skynsamleg orð, til þess að menn fái viturlegan aga, réttlæti, réttvísi og ráðvendni, til þess að þeir veiti hinum óreyndu hyggindi, unglingum þekking og aðgætni“. (Orðskviðirnir 1:1-4) Þegar þú lest í Orðskviðunum og öðrum biblíubókum og ferð eftir því temurðu þér réttlæti og ráðvendni og Jehóva mun með ánægju leyfa þér að nálgast sig. (Sálmur 15:1-5) Því betur sem þú tileinkar þér réttvísi, hyggindi, þekkingu og aðgætni því betri ákvarðanir tekur þú.

11 Er óraunhæft að ætlast til þess að ungt fólk breyti viturlega að þessu leyti? Nei, því að margir kristnir unglingar gera það. Fyrir vikið bera aðrir virðingu fyrir þeim og ,líta ekki smáum augum á æsku þeirra‘. (1. Tímóteusarbréf 4:12) Foreldrar þeirra hafa gilda ástæðu til að vera stoltir af þeim og Jehóva segir þá gleðja hjarta hans. (Orðskviðirnir 27:11) Þrátt fyrir ungan aldur geta þeir verið vissir um að þessi orð eiga við þá: „Gef gætur að hinum ráðvanda og lít á hinn hreinskilna, því að friðsamir menn eiga framtíð fyrir höndum.“ — Sálmur 37:37.

Taktu viturlegar ákvarðanir

12. Nefndu eina mikilvæga ákvörðun sem unglingar þurfa að taka og útskýrðu hvers vegna hún hefur langvarandi áhrif.

12 Æskuárin eru tími ákvarðana og sumar þeirra hafa langvarandi áhrif. Sumar ákvarðanir, sem þú tekur núna, eiga eftir að hafa áhrif á líf þitt um ókomin ár. Viturlegar ákvarðanir stuðla að hamingjusömu og farsælu lífi. Óviturlegar ákvarðanir geta háð þér það sem eftir er ævinnar. Veltu fyrir þér hvernig tvær ákvarðanir, sem þú þarft að taka, geta verið annaðhvort góðar eða slæmar. Í fyrsta lagi: Hverja velurðu þér að vinum? Hvers vegna skiptir það máli? Innblásinn orðskviður svarar því: „Haf umgengni við vitra menn, þá verður þú vitur, en illa fer þeim, sem leggur lag sitt við heimskingja.“ (Orðskviðirnir 13:20) Með öðrum orðum má segja að við verðum að lokum eins og þeir sem við umgöngumst, annaðhvort vitur eða heimsk. Hvort vilt þú heldur vera?

13, 14. (a) Hvað annað en bein samskipti við fólk getur verið félagsskapur? (b) Hvaða mistök ætti ungt fólk að forðast?

13 Þegar þú heyrir orðið „félagsskapur“ hugsarðu líklega um félagsskap við annað fólk. En það er líka til annars konar félagsskapur. Hann getur verið fólginn í því að horfa á sjónvarpsþátt, hlusta á tónlist, lesa skáldsögu, fara í bíó eða nota sumt af því sem Netið hefur upp á að bjóða. Ef þessi félagsskapur ýtir undir ofbeldisfullar og siðlausar tilhneigingar eða hvetur til fíkniefnaneyslu, drykkjuskapar eða einhvers annars sem stangast á við meginreglur Biblíunnar ert þú í raun að eiga félagsskap við ,heimskingjann‘ sem lætur eins og Jehóva sé ekki til. — Sálmur 14:1.

14 Ef til vill hugsarðu sem svo að fyrst þú sækir safnaðarsamkomur og ert virkur í söfnuðinum sértu nógu sterkur í trúnni til að láta ekki ofbeldisfulla mynd hafa áhrif á þig eða þá tónlist með góðri laglínu en vafasömum texta. Kannski heldurðu að það hafi ekki svo slæmar afleiðingar þótt þú kíkir snögglega á klámsíðu á Netinu. Páll postuli segir að þú hafir rangt fyrir þér. Hann segir: „Vondur félagsskapur spillir góðum siðum.“ (1. Korintubréf 15:33) Því miður hafa margir efnilegir unglingar í söfnuðinum leyft slæmum félagsskap að spilla góðum siðum sínum. Vertu því staðráðinn í að forðast slíkan félagsskap. Með því ferðu eftir ráðum Páls: „Hegðið yður eigi eftir öld þessari, heldur takið háttaskipti með endurnýjung hugarfarsins, svo að þér fáið að reyna, hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna.“ — Rómverjabréfið 12:2.

15. Hvaða aðra ákvörðun þarf ungt fólk að taka og fyrir hvaða þrýstingi verður það stundum?

15 Þú þarft einnig að taka aðra mikilvæga ákvörðun. Sá tími kemur að þú þarft að ákveða hvað þú ætlar að gera að skólagöngu lokinni. Ef þú býrð í landi þar sem atvinnuleysi er mikið gæti þér fundist þú verða að grípa bestu vinnuna sem býðst. Ef þú býrð hins vegar í landi þar sem velmegun er mikil gætirðu haft um margar starfsgreinar að velja og sumar þeirra gætu verið mjög freistandi. Vera má að foreldrar þínir og kennarar, sem vilja þér vel, hvetji þig til að sækjast eftir starfi sem veitir þér fjárhagslegt öryggi eða jafnvel auðlegð. En tíminn, sem fer í að mennta þig fyrir starfið, gæti takmarkað til muna þann tíma sem þú hefur til að þjóna Jehóva.

16, 17. Útskýrðu hvernig ýmsir ritningarstaðir geta hjálpað ungu fólki að gæta jafnvægis þegar það velur sér vinnu.

16 Leitaðu til Biblíunnar áður en þú tekur ákvörðun. Hún hvetur okkur til að vinna því að við berum þá ábyrgð að sjá fyrir okkur. (2. Þessaloníkubréf 3:10-12) En það er fleira sem við þurfum að taka með í reikninginn. Við hvetjum þig til að lesa eftirfarandi ritningarstaði og velta fyrir þér hvernig þeir geta hjálpað ungu fólki að gæta jafnvægis þegar það velur sér vinnu: Orðskviðirnir 30:8, 9; Prédikarinn 7:11, 12; Matteus 6:33; 1. Korintubréf 7:31; 1. Tímóteusarbréf 6:9, 10. Skilur þú hvaða augum Jehóva lítur málið eftir að hafa lesið þessi vers?

17 Vinnan ætti aldrei að vera okkur svo mikilvæg að hún varpi skugga á þjónustuna við Jehóva. Ef þér nægir almennt framhaldsnám til að fá ágæta vinnu þá er það gott. Ef þú þarft á meiri menntun að halda þá ættirðu að ræða það við foreldra þína. En gættu þess alltaf að meta „þá hluti rétt, sem máli skipta“, það er að segja andlegu málin. (Filippíbréfið 1:9, 10) Gerðu ekki sömu mistök og Barúk, ritari Jeremía. Hann hætti að meta þjónustuverkefni sitt að verðleikum og ,ætlaði sér mikinn hlut‘. (Jeremía 45:5) Hann gleymdi um stund að ekkert sem heimurinn hafði upp á að bjóða gæti styrkt samband hans við Jehóva eða orðið til þess að hann lifði af eyðingu Jerúsalem. Það sama má segja um aðstæður okkar nú á tímum.

Mettu andleg mál að verðleikum

18, 19. (a) Við hvaða aðstæður búa flestir nágrannar þínir og hvernig ættir þú að hugsa til þeirra? (b) Hvers vegna finnst mörgum þeir ekki vera andlega hungraðir?

18 Hefurðu séð myndir í fjölmiðlum af börnum sem búa í löndum þar sem hungursneyð geisar? Fannstu ekki til með þeim? En finnurðu líka til með nágrönnum þínum? Hvers vegna ættirðu að gera það? Vegna þess að flestir þeirra búa einnig við hungursneyð. Þetta er hungursneyðin sem Amos sagði fyrir: „Sjá, þeir dagar munu koma, — segir Drottinn Guð, — að ég mun senda hungur inn í landið, ekki hungur eftir brauði né þorsta eftir vatni, heldur eftir því að heyra orð Drottins.“ — Amos 8:11.

19 Að vísu eru fæstir sem búa við þessa andlegu hungursneyð „sér meðvita um andlega þörf sína“. (Matteus 5:3; NW ) Mörgum finnst þeir ekki vera andlega hungraðir og sumum finnst jafnvel að þeir séu vel nærðir. En það er aðeins vegna þess að þeir nærast á innantómri „speki heimsins“ sem byggist meðal annars á efnishyggju, getgátum vísindamanna, siðferðissjónarmiðum manna og öðru slíku. Sumir álíta kenningar Biblíunnar vera gamaldags í samanburði við „speki“ nútímans. En „heimurinn með speki sinni þekkti ekki Guð“. Speki heimsins hjálpar þér ekki að nálægja þig Guði. Hún er aðeins „heimska hjá Guði“. — 1. Korintubréf 1:20, 21; 3:19.

20. Hvers vegna er ekki skynsamlegt að vilja líkja eftir fólki sem tilbiður ekki Jehóva?

20 Þegar þú sérð myndir af vannærðum börnum langar þig auðvitað ekki að vera eins og þau. Samt sem áður virðast sumir unglingar í kristnum fjölskyldum vilja vera eins og þeir sem svelta andlega. Líklega halda þeir að unglingar í heiminum hafi engar áhyggjur og njóti lífsins. Þeir gleyma því að þessir unglingar eru fjarlægir Jehóva. (Efesusbréfið 4:17, 18) Þeir horfa líka fram hjá þeim slæmu áhrifum sem það hefur að svelta andlega. Þetta geta verið óæskilegar þunganir unglingsstúlkna eða þau áhrif sem siðleysi, reykingar, ölvun og fíkniefnanotkun hafa á líkama og tilfinningalíf. Andlegt svelti ýtir undir uppreisnaranda, vonleysi og stefnuleysi í lífinu.

21. Hvernig getum við gætt þess að smitast ekki af röngum viðhorfum þeirra sem tilbiðja ekki Jehóva?

21 Þegar þú ert í skólanum ættirðu ekki að láta viðmót þeirra sem tilbiðja ekki Jehóva hafa áhrif á þig. (2. Korintubréf 4:18) Sumir tala með fyrirlitningu um trúarleg mál. Auk þess kemur fram lúmskur áróður í fjölmiðlum um að það sé eðlilegt að iðka siðleysi, verða drukkinn og nota ljótt orðbragð. Stattu gegn þessum áhrifum. Haltu áfram að eiga félagsskap við þá sem lifa „í trú og með góðri samvisku“ og vertu alltaf ,síauðugur í verki Drottins‘. (1. Tímóteusarbréf 1:19; 1. Korintubréf 15:58) Taktu virkan þátt í boðunarstarfinu og samkomum. Þú gætir líka gerst aðstoðarbrautryðjandi af og til á meðan þú ert í skóla. Ef þú styrkir þannig andlegt hugarfar þitt áttu ekki eftir að missa jafnvægið. — 2. Tímóteusarbréf 4:5.

22, 23. (a) Hvers vegna taka kristnir unglingar oft ákvarðanir sem aðrir eiga erfitt með að skilja? (b) Hvað eru unglingar hvattir til að gera?

22 Ef þú hefur andlegt hugarfar áttu líklega eftir að taka ákvarðanir sem aðrir skilja ekki. Sem dæmi má nefna ungan kristinn mann sem var hæfileikaríkur tónlistarmaður og fyrirmyndarnemandi í öllum fögum í skólanum. Eftir að hann útskrifaðist fór hann að vinna með pabba sínum við að þrífa glugga svo að hann gæti orðið brautryðjandi eða boðberi í fullu starfi eins og hann hafði einsett sér. Kennarar hans gátu ekki skilið hvers vegna hann tók þessa ákvörðun en ef þú hefur nálægt þig Jehóva skilur þú það örugglega.

23 Þegar þú íhugar hvernig þú ætlar að nota verðmæt æskuár þín skaltu ,safna handa sjálfum þér fjársjóði sem er góð undirstaða til hins ókomna, og þá muntu geta höndlað hið sanna líf‘. (1. Tímóteusarbréf 6:19) Vertu staðráðinn í að ,muna eftir skapara þínum á unglingsárum þínum‘ og það sem eftir er ævinnar. Það er eina leiðin til að leggja góðan grunn að framtíðinni, framtíð sem mun engan enda taka.

Að hvaða niðurstöðu kemst þú?

• Hvaða innblásnu ráð hjálpa ungu fólki að skipuleggja framtíðina?

• Hvernig getur ungt fólk nálægt sig Guði?

• Hvaða ákvarðanir þarf ungt fólk að taka sem hafa áhrif á framtíð þess?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 25]

Leyfir þú áhugamálum þínum að gleypa alla orku þína og eldmóð?

[Mynd á blaðsíðu 26, 27]

Skynsamir kristnir unglingar varðveita skýra andlega sjón.