Opinberunarbókin 4:1–11

  • Sýn um himneskt hásæti Jehóva (1–11)

    • Jehóva í hásæti sínu (2)

    • Öldungarnir 24 í hásætum (4)

    • Lifandi verurnar fjórar (6)

4  Eftir þetta sá ég opnar dyr á himni og fyrsta röddin sem ég heyrði tala við mig hljómaði eins og lúður. Hún sagði: „Komdu hingað upp og ég skal sýna þér það sem á að gerast.“  Um leið kom andinn yfir mig og ég sá hásæti sem stóð á himni og einhver sat í hásætinu.  Hann sem sat þar geislaði eins og jaspissteinn og karneól,* og hringinn í kringum hásætið var regnbogi sem var eins og smaragður að sjá.  Í kringum hásætið voru 24 hásæti og í þeim sátu 24 öldungar klæddir hvítum fötum og með gullkórónur á höfði.  Út frá hásætinu gengu eldingar, raddir og þrumur heyrðust, og sjö blys loguðu frammi fyrir því en þau tákna sjö anda Guðs.  Frammi fyrir hásætinu var eitthvað sem leit út eins og glerhaf og líktist kristal. Í miðjunni, þar sem hásætið var,* og kringum hásætið voru fjórar lifandi verur alsettar augum í bak og fyrir.  Fyrsta lifandi veran líktist ljóni, önnur veran líktist ungnauti, andlit þriðju verunnar var eins og mannsandlit og fjórða veran var eins og örn á flugi.  Lifandi verurnar fjórar höfðu hver um sig sex vængi sem voru alsettir augum að ofan og neðan. Þær segja stöðugt, bæði dag og nótt: „Heilagur, heilagur, heilagur er Jehóva* Guð, hinn almáttugi, hann sem var, sem er og kemur.“  Í hvert sinn sem lifandi verurnar upphefja, heiðra og þakka honum sem situr í hásætinu og lifir um alla eilífð 10  falla öldungarnir 24 fram fyrir honum sem situr í hásætinu og tilbiðja hann sem lifir um alla eilífð. Þeir kasta kórónum sínum að hásætinu og segja: 11  „Jehóva* Guð okkar, þú ert þess verður að fá dýrðina, heiðurinn og máttinn því að þú skapaðir allt og að vilja þínum varð það til og var skapað.“

Neðanmáls

Eða „sardissteinn; rauður gimsteinn“.
Eða „Fyrir miðju hásætinu“.
Sjá orðaskýringar.
Sjá orðaskýringar.