Fyrra bréfið til Tímóteusar 1:1–20

  • Kveðjur (1, 2)

  • Varað við falskennurum (3–11)

  • Páli sýnd einstök góðvild (12–16)

  • Konungur eilífðarinnar (17)

  • ‚Berstu hinni góðu baráttu‘ (18–20)

1  Frá Páli, postula Krists Jesú að skipun Guðs, frelsara okkar, og Krists Jesú, vonar okkar,  til Tímóteusar* sem er sannur sonur minn í trúnni. Megi Guð faðirinn og Kristur Jesús Drottinn okkar veita þér einstaka góðvild, miskunn og frið.  Áður en ég lagði af stað til Makedóníu hvatti ég þig til að vera um kyrrt í Efesus. Eins geri ég núna því að ég vil að þú skipir vissum mönnum að kenna ekki falskenningar  og vera ekki uppteknir af lygasögum og ættartölum. Slíkt leiðir ekkert gott af sér heldur ýtir aðeins undir tilgangslausar vangaveltur í stað þess að miðla nokkru frá Guði sem styrkir trúna.  Markmiðið með þessum leiðbeiningum* er að vekja kærleika af hreinu hjarta, góðri samvisku og hræsnislausri trú.  Sumir hafa vikið frá þessu og snúið sér að innantómu þvaðri.  Þeir vilja vera lagakennarar en skilja hvorki það sem þeir segja né það sem þeir standa á fastar en fótunum.  Nú vitum við að lögin eru góð ef þeim er beitt rétt*  og við skiljum að lög eru ekki sett vegna réttlátra heldur fyrir afbrotamenn og uppreisnarseggi, óguðlega og syndara, ótrúa* og guðlastara, föðurmorðingja, móðurmorðingja og manndrápara, 10  þá sem lifa kynferðislega siðlausu lífi,* karla sem stunda kynlíf með körlum,* mannræningja, lygara, ljúgvitni* og þá sem brjóta á einhvern annan hátt gegn hinni heilnæmu* kenningu. 11  Hún samræmist hinum dýrlega fagnaðarboðskap sem hinn hamingjusami Guð hefur trúað mér fyrir. 12  Ég er þakklátur fyrir að Kristur Jesús Drottinn okkar, sem veitti mér kraft, treysti mér og fól mér þjónustu 13  þó að ég hafi áður verið guðlastari, ósvífinn og ofsótt fólk Guðs. En mér var miskunnað vegna þess að ég vissi ekki betur og trúði ekki. 14  Einstök góðvild Drottins okkar var mjög ríkuleg og ég fékk trú og naut kærleikans sem býr í Kristi Jesú. 15  Það sem ég segi ykkur nú er áreiðanlegt og það má treysta því fullkomlega: Kristur Jesús kom í heiminn til að frelsa syndara. Ég er þeirra verstur. 16  En mér var miskunnað til að Kristur Jesús gæti notað mig sem skýrasta dæmið um hve þolinmóður hann er. Ég varð dæmi handa þeim sem taka trú á hann og hljóta eilíft líf. 17  Konungi eilífðarinnar, hinum óforgengilega,* ósýnilega og eina Guði, sé heiður og dýrð um alla eilífð. Amen. 18  Ég gef þér þessar leiðbeiningar,* barnið mitt, Tímóteus, í samræmi við þá spádóma sem voru bornir fram um þig. Þeir hjálpa þér að halda áfram að berjast hinni góðu baráttu. 19  Varðveittu líka trúna og góða samvisku en henni hafa sumir varpað frá sér og beðið skipbrot á trú sinni. 20  Þeirra á meðal eru Hýmeneus og Alexander sem ég hef gefið Satan á vald til að ögunin kenni þeim að hætta að guðlasta.

Neðanmáls

Sem þýðir ‚sá sem heiðrar Guð‘.
Eða „þessari fyrirskipun“.
Orðrétt „löglega“.
Eða „þá sem sýna ekki tryggan kærleika“.
Sjá orðaskýringar, „kynferðislegt siðleysi“.
Orðrétt „karla sem liggja með körlum“.
Eða „þá sem sverja rangan eið“.
Eða „gagnlegu“.
Sjá orðaskýringar.
Eða „þessa fyrirskipun“.