Jakobsbréfið 2:1–26

  • Að mismuna fólki er synd (1–13)

    • Kærleikur, hið konunglega lagaákvæði (8)

  • Trúin dauð ef verkin vantar (14–26)

    • Illir andar trúa og óttast (19)

    • Abraham kallaður vinur Jehóva (23)

2  Bræður mínir og systur, varla haldið þið ykkur við trúna á dýrlegan Drottin okkar Jesú Krist ef þið mismunið fólki.  Segjum að maður með gullhringa á fingrum og í fínum fötum komi á samkomu hjá ykkur og að fátækur maður í óhreinum fötum komi líka.  Horfið þið þá með velþóknun á manninn í fínu fötunum og segið: „Fáðu þér sæti hérna á góðum stað,“ en við fátæka manninn: „Þú mátt standa,“ eða: „Sestu hérna á gólfið við fætur mér“?*  Eruð þið þá ekki að gera fólki mishátt undir höfði og orðin dómarar sem dæma af illum hvötum?  Heyrið, kæru trúsystkini. Valdi Guð ekki þá sem eru fátækir í augum heimsins til að vera auðugir í trú og til að erfa ríkið sem hann lofaði þeim sem elska hann?  En þið hafið lítilsvirt hinn fátæka. Eru það ekki hinir ríku sem kúga ykkur og draga ykkur fyrir dómstóla?  Lasta þeir ekki hið góða nafn sem ykkur var gefið?  Ef þið haldið hið konunglega lagaákvæði samkvæmt ritningarstaðnum: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig,“ þá gerið þið vel.  En ef þið haldið áfram að mismuna fólki syndgið þið og lagaákvæðið sannar að þið eruð brotleg.* 10  Ef einhver hlýðir lögunum í heild en tekst ekki að halda eitt af ákvæðunum er hann orðinn brotlegur við lögin í heild. 11  Sá sem sagði: „Þú skalt ekki fremja hjúskaparbrot,“ sagði líka: „Þú skalt ekki myrða.“ Þó að þú fremjir ekki hjúskaparbrot ertu orðinn lögbrjótur ef þú fremur morð. 12  Haldið áfram að tala og hegða ykkur eins og þeir sem verða dæmdir eftir lögum frelsisins.* 13  Þeim sem er ekki miskunnsamur verður ekki sýnd miskunn þegar hann er dæmdur. Miskunnsemi hrósar sigri yfir dómi. 14  Hvaða gagn gerir það, bræður mínir og systur, ef einhver segist hafa trú en sýnir það ekki í verki? Varla getur slík trú bjargað honum. 15  Ef bróðir eða systir eru klæðalítil* og skortir daglegt fæði, 16  og eitthvert ykkar segir við þau: „Farið í friði, haldið á ykkur hita og borðið nægju ykkar,“ en þið gefið þeim ekki það sem þau þarfnast,* hvaða gagn gerir það? 17  Eins er líka trúin ein og sér dauð ef verkin vantar. 18  Nú segir samt einhver: „Þú hefur trú en ég hef verk. Sýndu mér trú þína án verkanna og ég skal sýna þér trú mína með verkum mínum.“ 19  Þú trúir að til sé einn Guð, er það ekki? Það er í sjálfu sér gott. En illu andarnir trúa því líka og skjálfa af ótta. 20  Fáfróði maður, þarftu sönnun fyrir því að trúin sé gagnslaus ef verkin vantar? 21  Var ekki Abraham faðir okkar lýstur réttlátur vegna verka sinna þegar hann lagði Ísak son sinn á altarið til að fórna honum? 22  Þú sérð að trú hans birtist í verkunum og verkin fullkomnuðu trúna. 23  Ritningarstaðurinn rættist sem segir: „Abraham trúði á Jehóva* og þess vegna var hann talinn réttlátur,“* og Jehóva* kallaði hann vin sinn. 24  Þú sérð að maður er lýstur réttlátur vegna verka sinna en ekki aðeins vegna trúar. 25  Var ekki vændiskonan Rahab sömuleiðis lýst réttlát vegna verka sinna eftir að hún tók með gestrisni á móti sendiboðunum og lét þá fara burt aðra leið? 26  Rétt eins og líkaminn er dauður án anda* er trúin dauð án verka.

Neðanmáls

Orðrétt „við fótaskemil minn“.
Eða „ávítar ykkur fyrir lögbrot“.
Eða „lögum fólks sem er frjálst“.
Orðrétt „nakin“.
Orðrétt „það sem líkaminn þarfnast“.
Sjá orðaskýringar.
Eða „og það var reiknað honum til réttlætis“.
Sjá orðaskýringar.
Eða „andardráttar“.