Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hefurðu miklar mætur á bók Jehóva?

Hefurðu miklar mætur á bók Jehóva?

,Þegar þið veittuð viðtöku orði Guðs þá tókuð þið við því sem Guðs orði – eins og það í sannleika er.‘ – 1. ÞESS. 2:13.

SÖNGVAR: 114, 113

1-3. Hvernig hefur missættið milli Evodíu og Sýntýke getað komið upp og hvernig er hægt að komast hjá slíkum vandamálum? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

ÞJÓNAR Jehóva hafa miklar mætur á Biblíunni, heilagri bók hans. Þar sem við erum ófullkomin þurfum við öll að fá biblíulegar leiðbeiningar af og til. Hvernig bregðumst við við þeim? Hugsum um Evodíu og Sýntýke, kristnar konur á fyrstu öld. Alvarlegt missætti kom upp á milli þessara andasmurðu kvenna. Um hvað snerist það? Ekki er greint frá því í Biblíunni en ímyndum okkur að eftirfarandi hafi gerst.

2 Segjum að Evodía hafi boðið nokkrum trúsystkinum í mat og átt ánægjulega stund með þeim. Sýntýke var ekki boðið en frétti af því hvað allir höfðu skemmt sér vel. Hún hugsaði ef til vill: Ég trúi því ekki að Evodía hafi ekki boðið mér! Ég sem hélt að við værum bestu vinkonur. Sýntýke fannst hún vera svikin. Hún fór að líta Evodíu hornauga og vera tortryggin í garð hennar. Hún ákveður því að halda sitt eigið matarboð og býður sömu gestum – en ekki Evodíu. Missættið milli systranna tveggja gæti hafa raskað friðinum í söfnuðinum öllum. Biblían segir ekki hvernig fór að lokum en það getur verið að systurnar hafi brugðist vel við kærleiksríkum ráðum Páls postula. – Fil. 4:2, 3.

3 Svipaðar aðstæður valda stundum erfiðleikum í söfnuðum þjóna Jehóva nú á dögum. En hægt er að leysa slík vandamál og jafnvel komast hjá þeim ef við förum eftir ráðunum sem orð Guðs, Biblían, veitir okkur. Og ef við höfum miklar mætur á orði Guðs látum við það leiða okkur í lífinu. – Sálm. 27:11.

BÓK GUÐS OG MANNLEGAR TILFINNINGAR

4, 5. Hvaða ráð fáum við í orði Guðs um að hafa stjórn á tilfinningunum?

4 Það er ekki auðvelt að hafa stjórn á tilfinningunum þegar okkur finnst við vera sniðgengin eða órétti beitt. Það getur verið niðurdrepandi ef illa er komið fram við okkur vegna þjóðernis, hörundslitar eða annars sem gerir að verkum að við skerum okkur úr. Og ekki bætir úr skák ef sá sem særir okkur er bróðir eða systir í söfnuðinum. Veitir orð Guðs okkur leiðbeiningar sem hjálpa okkur að bregðast rétt við ef þessi ljóta hlið ófullkomleikans beinist að okkur?

5 Jehóva hefur fylgst með samskiptum manna allt frá upphafi mannkyns. Hann tekur eftir tilfinningum okkar og verkum. Hugsanir okkar, þar á meðal þær sem stjórnast af tilfinningum, geta leitt til þess að við segjum eða gerum eitthvað sem við sjáum síðan eftir. Það er vissulega skynsamlegt að fara eftir ráðum Biblíunnar um að hafa stjórn á skapinu og vera ekki fljót til að móðgast. (Lestu Orðskviðina 16:32; Prédikarann 7:9.) Við þurfum eflaust öll að leggja okkur fram um að taka ekki framkomu annarra of nærri okkur og vera dugleg að fyrirgefa. Í augum Jehóva og Jesú er mjög mikilvægt að við fyrirgefum. (Matt. 6:14, 15) Þarft þú að vera fúsari til að fyrirgefa eða hafa betri stjórn á tilfinningunum?

6. Hvers vegna ættum við að varast biturð?

6 Fólk, sem tekst ekki að hafa stjórn á tilfinningunum, verður oft biturt. Þar af leiðandi langar aðra kannski ekki að umgangast það. Sá sem er bitur getur haft neikvæð áhrif á söfnuðinn. Hann reynir kannski að fela biturð sína eða jafnvel hatur, en ef neikvæðar hugsanir leynast í hjarta hans verður það ,opinbert í söfnuðinum‘. (Orðskv. 26:24-26) Öldungarnir geta ef til vill hjálpað slíkum einstaklingum að sjá að það á alls ekki heima í söfnuði Guðs að vera bitur, hata og ala með sér gremju. Það kemur skýrt fram í dýrmætu orði hans. (3. Mós. 19:17, 18; Rómv. 3:11-18) Tekurðu undir það?

HÖFUM HUGFAST HVERNIG JEHÓVA LEIÐIR OKKUR

7, 8. (a) Hvernig leiðir Jehóva jarðneskan hluta safnaðar síns? (b) Nefndu nokkur fyrirmæli sem koma fram í orði Guðs og hvers vegna við ættum að hlýða þeim.

7 Jehóva leiðir og nærir þá sem tilheyra jarðneskum hluta safnaðar hans. Hann gerir það fyrir milligöngu ,hins trúa og hyggna þjóns‘ sem fylgir leiðsögn Krists. Og Kristur er höfuð safnaðarins. (Matt. 24:45-47; Ef. 5:23) Þessi þjónn virðir innblásið orð Guðs, eða boðskap, og metur það mikils, rétt eins og hið stjórnandi ráð á fyrstu öld gerði. (Lestu 1. Þessaloníkubréf 2:13.) Hvaða fyrirmæli eða leiðbeiningar koma fram í Biblíunni okkur til gagns? Lítum á nokkrar þeirra.

8 Biblían bendir okkur á að við eigum að sækja samkomur reglulega. (Hebr. 10:24, 25) Hún hvetur okkur til að vera einhuga í því sem við trúum og kennum. (1. Kor. 1:10) Orð Guðs segir okkur líka að láta ríki hans ganga fyrir í lífinu. (Matt. 6:33) Það leggur áherslu á þá skyldu okkar að boða trúna hús úr húsi, opinberlega og óformlega. (Matt. 28:19, 20; Post. 5:42; 17:17; 20:20) Einnig kemur fram að kristnir öldungar eigi að halda söfnuði Guðs hreinum. (1. Kor. 5:1-5, 13; 1. Tím. 5:19-21) Og Jehóva gefur fyrirmæli um að allir sem tilheyra söfnuði hans eigi að vera hreinir bæði líkamlega og andlega. – 2. Kor. 7:1.

9. Hver er eina boðleiðin sem er notuð til að hjálpa okkur að skilja orð Guðs?

9 Sumum finnst að þeir geti sjálfir túlkað Biblíuna. En Jesús hefur útvalið ,trúa þjóninn‘ til að sjá alfarið um að úthluta andlegri fæðu. Frá árinu 1919 hefur Jesús Kristur notað þennan þjón til að hjálpa fylgjendum sínum að skilja bók Guðs og fara eftir því sem stendur í henni. Þegar við hlýðum leiðbeiningum Biblíunnar stuðlum við að hreinleika, friði og einingu í söfnuðinum. Hvert og eitt okkar ætti að spyrja sig: Er ég trúr þeirri boðleið sem Jesús notar nú á dögum?

HIMNAVAGN JEHÓVA ER Á HRAÐRI FERÐ

10. Hvernig er himneskum hluta safnaðar Jehóva lýst í bók Esekíels?

10 Í rituðu orði Jehóva fáum við innsýn í himneskan hluta alheimssafnaðar hans. Til dæmis sá Esekíel spámaður í sýn himnavagn sem táknaði þennan hluta safnaðarins. (Esek. 1:4-28) Jehóva ekur þessum vagni og hann fer hvert sem andi hans knýr hann til að fara. Himneskur hluti safnaðarins hefur síðan áhrif á jarðneskan hluta hans. Himnavagninn hefur sannarlega verið á hraðri ferð. Hugsum um allar þær skipulagsbreytingar sem orðið hafa á undanförnum áratugum – og höfum hugfast að það er Jehóva sem hefur komið þeim til leiðar. Kristur og heilagir englar hans eru við það að eyða þessum illa heimi og þannig nálgast himnavagn Jehóva óðfluga það markmið að drottinvald hans verði réttlætt og heilagt nafn hans helgað.

Við erum innilega þakklát fyrir alla sjálfboðaliðana sem vinna sleitulaust við byggingarframkvæmdir. (Sjá 11. grein.)

11, 12. Nefndu dæmi um það sem söfnuður Jehóva hefur komið til leiðar.

11 Skoðum hverju jarðneskur hluti safnaðar Guðs hefur komið til leiðar á þessum síðustu dögum. Byggingarframkvæmdir. Hundruð verkamanna voru önnum kafnir við að byggja nýjar aðalstöðvar Votta Jehóva í Warwick í New York. Og þúsundir sjálfboðaliða vinna hörðum höndum á vegum hönnunar- og byggingardeildarinnar við að reisa ríkissali og stækka deildarskrifstofur um allan heim. Við erum innilega þakklát þessum fjölda fúsra sjálfboðaliða sem vinnur sleitulaust við slíkar framkvæmdir. Munum að Jehóva blessar boðbera ríkis síns um heim allan sem trúfastir gefa það sem þeir geta til að styðja þessar framkvæmdir fjárhagslega. – Lúk. 21:1-4.

12 Menntun. Lítum á ýmsa skóla sem veita fræðslu frá Guði. (Jes. 2:2, 3) Við höfum Brautryðjendaskólann, Skólann fyrir boðbera Guðsríkis, Gíleaðskólann, Skólann fyrir nýliða á Betel, Skólann fyrir farandhirða og eiginkonur þeirra, Skólann fyrir safnaðaröldunga, Ríkisþjónustuskólann og Skólann fyrir bræður í deildarnefndum og eiginkonur þeirra. Jehóva hefur greinilega yndi af að fræða þjóna sína. Einnig er hægt að fá biblíufræðslu á vefsetri okkar, jw.org, þar sem rit eru í boði á hundruðum tungumála. Þar má til dæmis finna efni fyrir börn og fjölskyldur og einnig er hægt að skoða fréttir af söfnuðinum. Hefur þú notað jw.org í boðuninni og í tilbeiðslustund fjölskyldunnar?

SÝNUM JEHÓVA HOLLUSTU OG STYÐJUM SÖFNUÐ HANS

13. Hvaða ábyrgð höfum við sem trúfastir þjónar Jehóva?

13 Það er mikill heiður að fá að tilheyra söfnuði Jehóva. En því fylgir ákveðin ábyrgð að kynnast meginreglum Guðs og vita til hvers hann ætlast af okkur. Við þurfum að gera það sem er rétt og verja drottinvald hans. Þar sem siðferðishnignunin verður æ meira áberandi í heiminum þurfum við að líkja eftir Jehóva og ,hata illt‘. (Sálm. 97:10) Við neitum að taka undir með óguðlegum og „kalla hið illa gott og hið góða illt“. (Jes. 5:20) Við viljum þóknast Guði og leggjum okkur því fram um að vera líkamlega, siðferðilega og andlega hrein. (1. Kor. 6:9-11) Við elskum Jehóva og treystum á hann. Við kjósum að sýna honum hollustu með því að lifa í samræmi við meginreglurnar sem hann hefur útlistað svo skýrt í dýrmætri bók sinni. Og við gerum okkar ýtrasta til að fylgja þeim heima fyrir, í söfnuðinum, í vinnunni, í skólanum – hvar sem við erum. (Orðskv. 15:3) Skoðum fleiri svið þar sem við getum sýnt Guði hollustu.

14. Hvernig geta kristnir foreldrar sýnt Guði hollustu?

14 Barnauppeldi. Kristnir foreldrar sýna Jehóva hollustu þegar þeir ala börnin upp í samræmi við orð hans. Þeir láta ekki skoðanir samfélagsins, þar sem þeir búa, hafa of mikil áhrif á barnauppeldið. Andi heimsins á ekki heima á kristnum heimilum. (Ef. 2:2) Skírður kristinn faðir hugsar ekki bara: Í okkar landi eru það konurnar sem fræða börnin. Biblían er skýr í þessum málum þegar hún segir: „Feður ... alið [börn ykkar] upp með aga og fræðslu um Drottin.“ (Ef. 6:4) Guðhræddir feður og mæður vilja að börn þeirra séu eins og Samúel en Jehóva var með honum þegar hann óx úr grasi. – 1. Sam. 3:19.

15. Hvernig sýnum við Jehóva hollustu þegar við tökum stórar ákvarðanir?

15 Að taka ákvarðanir. Þegar við tökum stórar ákvarðanir í lífinu getum við sýnt Jehóva hollustu með því að leita leiðsagnar í rituðu orði hans og hjá söfnuðinum. Til að lýsa mikilvægi þess skulum við taka dæmi um viðkvæmt mál sem snertir marga foreldra. Meðal sumra innflytjenda tíðkast að foreldrar sendi nýfædd börn sín til ættingja sem hugsa um þau. Þannig geta foreldrarnir haldið áfram að vinna og afla tekna í landinu sem þeir hafa flust til. Þetta er vissulega persónuleg ákvörðun en við ættum að hafa í huga að við berum ábyrgð á ákvörðunum okkar frammi fyrir Guði. (Lestu Rómverjabréfið 14:12.) Væri skynsamlegt að taka mikilvægar ákvarðanir varðandi fjölskyldu okkar og lífsviðurværi án þess að athuga fyrst hvað Biblían segir? Að sjálfsögðu ekki. Við þurfum á hjálp föður okkar á himnum að halda þar sem við erum ófær um að stýra skrefum okkar. – Jer. 10:23.

16. Hvað þurfti móðir ein að ákveða þegar sonur hennar fæddist, og hvað hjálpaði henni að taka rétta ákvörðun?

16 Kona ein eignaðist lítinn dreng þegar hún bjó erlendis og ætlaði að senda hann til afa hans og ömmu í heimalandinu svo að þau gætu séð um hann. En um það leyti sem drengurinn fæddist þáði hún biblíunámskeið hjá vottum Jehóva. Hún tók góðum framförum og lærði að Guð hefði falið henni þá ábyrgð að ala barnið upp og fræða það um Jehóva. (Sálm. 127:3; Orðskv. 22:6) Konan úthellti hjarta sínu fyrir Jehóva eins og við erum hvött til í Biblíunni. (Sálm. 62:8, 9) Hún talaði við biblíukennarann sinn um það sem henni lá á hjarta og ræddi líka við aðra í söfnuðinum. Þrátt fyrir þrýsting frá ættingjum og vinum ákvað hún að það væri ekki rétt að senda barnið til afa þess og ömmu. Eiginmaður hennar var mjög ánægður að sjá hvernig söfnuðurinn reyndist henni og barninu athvarf. Hann þáði biblíunámskeið og fór að sækja samkomur með konu sinni og barni. Heldurðu að þessari móður finnist Jehóva hafa svarað innilegum bænum hennar? Vafalaust hefur henni fundist það.

17. Hvaða leiðbeiningar höfum við fengið til að aðstoða biblíunemendur?

17 Að fylgja leiðbeiningum. Mikilvæg leið til að sýna Guði hollustu er að fylgja leiðbeiningunum sem við fáum frá söfnuði hans. Hugsum til dæmis um tillögurnar sem við höfum fengið til að aðstoða biblíunemendur okkar. Fljótlega eftir að við hefjum biblíunámskeið í bókinni Hvað kennir Biblían? hefur verið mælt með að nota nokkrar mínútur eftir hverja námsstund til að beina athygli nemandans að söfnuðinum. Við getum gert það með því að sýna myndbandið Hvernig fara samkomur okkar fram? og bæklinginn Hverjir gera vilja Jehóva? Ef nemandi tekur framförum og klárar bókina Hvað kennir Biblían? hefur verið mælt með að við förum yfir bókina Látið kærleika Guðs varðveita ykkur“, jafnvel þó að hann sé búinn að skírast. Söfnuðurinn hefur veitt þessar leiðbeiningar til að nýir lærisveinar verði ,staðfastir í trúnni‘. (Kól. 2:7) Fylgir þú slíkum tillögum sem við fáum frá söfnuði Jehóva?

18, 19. Nefndu nokkrar ástæður til að vera Jehóva þakklát.

18 Við höfum margar ástæður til að vera Jehóva þakklát. Við eigum honum lífið að þakka því að án hans gætum við ekkert gert og værum hreinlega ekki til. (Post. 17:27, 28) Guð hefur líka gefið okkur mjög dýrmæta gjöf – bók sína, Biblíuna. Við lítum á hana sem boðskap frá honum og höfum miklar mætur á henni, rétt eins og kristnir menn í Þessaloníku. – 1. Þess. 2:13.

19 Með ritað orð Jehóva í hendi höfum við nálægt okkur honum og hann hefur nálgast okkur. (Jak. 4:8) Himneskur faðir okkar hefur veitt okkur þann einstaka heiður að fá að tilheyra söfnuði hans. Við metum það mikils. Sálmaritarinn komst fallega að orði þegar hann söng: „Þakkið Drottni því að hann er góður, miskunn hans varir að eilífu.“ (Sálm. 136:1) Orðalagið „miskunn hans varir að eilífu“ kemur 26 sinnum fyrir í 136. sálminum. Ef við sýnum Jehóva og söfnuði hans hollustu fáum við að upplifa sannleiksgildi þessara hjartnæmu orða þar sem okkar bíður eilíft líf.