Matteus segir frá 28:1–20

  • Jesús reistur upp (1–10)

  • Hermönnum mútað til að ljúga (11–15)

  • Fyrirmæli um að gera fólk að lærisveinum (16–20)

28  Eftir hvíldardaginn, þegar birti á fyrsta degi vikunnar, komu María Magdalena og María hin til að líta á gröfina.  Mikill jarðskjálfti hafði orðið því að engill Jehóva* hafði stigið niður af himni, velt steininum frá og sat nú á honum.  Hann var eins og elding að sjá og fötin snjóhvít.  Varðmennirnir skulfu af hræðslu þegar þeir sáu hann og voru lamaðir af ótta.  En engillinn sagði við konurnar: „Verið óhræddar. Ég veit að þið eruð að leita að Jesú sem var staurfestur.  Hann er ekki hér því að hann hefur verið reistur upp eins og hann sagði. Komið og sjáið staðinn þar sem hann lá.  Farið síðan sem skjótast og segið lærisveinunum að hann sé risinn upp frá dauðum. Hann fer á undan ykkur til Galíleu og þar fáið þið að sjá hann. Munið hvað ég hef sagt ykkur.“  Þær flýttu sér þá burt frá gröfinni,* óttaslegnar en mjög glaðar, og hlupu af stað til að færa lærisveinunum fréttirnar.  Jesús kom á móti þeim og sagði: „Sælar!“ Þær fóru til hans, féllu fram fyrir honum, gripu um fætur hans og veittu honum lotningu. 10  Jesús sagði þá við þær: „Verið óhræddar. Farið og segið bræðrum mínum frá svo að þeir fari til Galíleu og þar munu þeir sjá mig.“ 11  Meðan þær voru á leiðinni fóru nokkrir af varðmönnunum inn í borgina og sögðu yfirprestunum frá öllu sem hafði gerst. 12  Yfirprestarnir söfnuðust þá saman ásamt öldungunum og báru saman ráð sín. Þeir gáfu síðan hermönnunum talsvert fé* 13  og sögðu: „Segið að lærisveinar hans hafi komið um nótt og stolið honum meðan þið sváfuð. 14  Og ef landstjórinn fréttir þetta skulum við útskýra málið fyrir honum* svo að þið getið verið áhyggjulausir.“ 15  Þeir tóku þá við fénu* og gerðu eins og þeim var sagt, og þessi saga hefur verið borin út meðal Gyðinga allt fram á þennan dag. 16  En lærisveinarnir 11 fóru til Galíleu, til fjallsins þar sem Jesús hafði sagt að þeir skyldu hittast. 17  Þegar þeir sáu hann veittu þeir honum lotningu* en sumir efuðust. 18  Jesús gekk til þeirra og sagði: „Mér hefur verið gefið allt vald á himni og jörð. 19  Farið því og gerið fólk af öllum þjóðum að lærisveinum, skírið það í nafni föðurins, sonarins og heilags anda 20  og kennið því að halda öll fyrirmæli mín. Og munið að ég er með ykkur alla daga allt þar til þessi heimsskipan* endar.“*

Neðanmáls

Sjá orðaskýringar.
Eða „minningargröfinni“.
Eða „töluvert mikið af silfurpeningum“.
Orðrétt „tala hann til“.
Eða „silfurpeningunum“.
Eða „krupu þeir fyrir honum“.
Eða „öld“. Sjá orðaskýringar.
Eða „allt fram á lokaskeið þessarar heimsskipanar“.