Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jehóva stefnir saman glöðum þjónum sínum

Jehóva stefnir saman glöðum þjónum sínum

„Stefndu fólkinu saman, bæði körlum, konum og börnum ásamt aðkomumönnunum.“ – 5. MÓS. 31:12.

1, 2. Um hvað er fjallað í þessari námsgrein?

ALÞJÓÐAMÓT og umdæmismót hafa verið fastur liður í starfsemi Votta Jehóva svo lengi sem elstu menn muna. Mörg okkar hafa sótt fjölda þessara móta, sumir jafnvel áratugum saman.

2 Þjónar Guðs héldu einnig helgar fjöldasamkomur til forna. Við ætlum að líta á biblíuleg fordæmi fyrir mótunum sem við höldum núna, kanna hvað er líkt með slíkum samkomum fyrr og nú og skoða hvaða gagn við höfum af því að sækja þær. – Sálm. 44:2; Rómv. 15:4.

MÓT SEM MÖRKUÐU ÞÁTTASKIL, BÆÐI FYRR OG NÚ

3. (a) Hvað gerðist á fyrstu fjöldasamkomunni sem sagt er frá í Biblíunni? (b) Hvernig voru Ísraelsmenn kallaðir saman?

3 Fyrsta fjöldasamkoman, sem sagt er frá í Biblíunni, var haldin við rætur Sínaífjalls en Ísraelsmenn söfnuðust þar saman til að fá leiðbeiningar frá Jehóva. Þessi atburður markaði þáttaskil í sögu hreinnar tilbeiðslu. Það var ógleymanlegur dagur fyrir þjóð Jehóva þegar hann sýndi henni mátt sinn og gaf henni lögmálið. (2. Mós. 19:2-9, 16-19; lestu 2. Mósebók 20:18; 5. Mósebók 4:9, 10.) Þessi dagur hafði mikil áhrif á samskipti Guðs við Ísraelsmenn þaðan í frá. Skömmu síðar sagði Jehóva Móse hvernig ætti að kalla þjóðina saman. Hann sagði honum að gera tvo lúðra úr silfri og nota þá til að kalla saman allan söfnuðinn „við dyr samfundatjaldsins“. (4. Mós. 10:1-4) Þú getur rétt ímyndað þér hve spennandi það hefur verið fyrir þjóðina að vera stefnt þar saman.

4, 5. Hvers vegna voru það sérlega þýðingarmiklar samkomur sem Móse og Jósúa efndu til?

4 Móse kallaði þjóðina saman undir lok 40 ára göngu hennar um eyðimörkina. Þessi unga þjóð stóð á tímamótum því að hún var í þann mund að ganga inn í fyrirheitna landið. Þetta var rétti tíminn fyrir Móse til að minna Ísraelsmenn á allt sem Jehóva hafði gert fyrir þá og átti eftir að gera. – 5. Mós. 29:1-15; 30:15-20; 31:30.

5 Það var hugsanlega við þetta tækifæri sem Móse minntist á að þjóðin ætti að safnast saman reglulega til að fræðast. Á laufskálahátíðinni sjöunda hvert ár átti að stefna saman körlum, konum, börnum og aðkomumönnum á stað sem Jehóva myndi velja. Þjóðin átti að hlusta og læra að óttast Jehóva og gæta þess að fylgja lögum hans í einu og öllu. (Lestu 5. Mósebók 31:1, 10-12.) Ljóst var að Jehóva vildi að þjóð hans safnaðist saman með reglulegu millibili til að hugleiða orð hans og vilja. Seinna, eftir að Ísraelsmenn höfðu lagt undir sig fyrirheitna landið, kallaði Jósúa þá saman. Heiðnar þjóðir bjuggu allt um kring og Jósúa vissi að það þyrfti að brýna fyrir þjóðinni að vera Jehóva trú. Og þjóðin sór þess eið að þjóna honum. – Jós. 23:1, 2; 24:1, 15, 21-24.

6, 7. Nefndu mót sem hafa markað þáttaskil í sögu þjóna Jehóva á síðari tímum.

6 Á síðari tímum hafa einnig verið haldin mót sem mörkuðu þáttaskil í sögu þjóna Jehóva – mót þar sem kynntar voru merkar breytingar á starfsháttum safnaðarins og skilningi okkar á vissum ritningarstöðum. (Orðskv. 4:18) Árið 1919 héldu Biblíunemendurnir fyrsta stórmótið eftir fyrri heimsstyrjöldina. Það var haldið í Cedar Point í Ohio í Bandaríkjunum og um 7.000 manns sóttu það. Þá var tilkynnt að gert yrði stórátak til að boða fagnaðarerindið um allan heim. Árið 1922 var haldið níu daga mót á sama stað, og þá flutti Joseph F. Rutherford ræðu þar sem hann hvatti áheyrendur til að boða fagnaðarerindið af krafti. Hann sagði: „Verið trúir og sannir vottar Drottins. Gangið fram í bardaga uns Babýlon er rústir einar. Boðið boðskapinn vítt og breitt. Heimurinn verður að vita að Jehóva er Guð og Jesús Kristur er konungur konunga og Drottinn drottna. Þetta er dagur daganna. Sjáið, konungurinn ríkir! Þið eruð kynningarfulltrúar hans. Þið skuluð því kunngera, kunngera, kunngera konunginn og ríki hans.“ Mótsgestir og fólk Guðs um heim allan tók þessari hvatningu fagnandi.

7 Biblíunemendurnir voru himinlifandi að taka sér nafnið Vottar Jehóva á móti sem haldið var í Columbus í Ohio árið 1931. Á móti í Washington, D.C., árið 1935 benti bróðir Rutherford á hver ,múgurinn mikli‘ væri sem sagt er frá í Opinberunarbókinni að standi „frammi fyrir hásætinu og frammi fyrir lambinu“. (Opinb. 7:9-17) Árið 1942, meðan síðari heimsstyrjöldin var í algleymingi, flutti Nathan H. Knorr spennandi ræðu sem nefndist: „Friður – verður hann varanlegur?“ Hann útskýrði hvert ,skarlatsrauða dýrið‘ í 17. kafla Opinberunarbókarinnar væri og benti á að mikið boðunarstarf myndi fara fram að stríðinu loknu.

Alþjóðamót í New York-borg árið 1950.

8, 9. Hvers vegna hafa sum mót haft sérlega djúpstæð áhrif á viðstadda?

8 Árið 1946 var mótið „Glaðar þjóðir“ haldið í Cleveland í Ohio. Þar flutti bróðir Knorr athyglisverða ræðu sem nefndist: „Vandinn að endurbyggja og stækka.“ Bróðir nokkur lýsir þeim áhrifum sem ræðan hafði á áheyrendur: „Ég stóð fyrir aftan hann á sviðinu þetta kvöld þegar hann talaði um boðunarstarfið og sagði frá áformum um að stækka Betelheimilið og prentsmiðjuna í Brooklyn. Áheyrendaskarinn klappaði aftur og aftur. Maður greindi ekki einstök andlit frá sviðinu en gleðin var augljós.“ Árið 1950 var haldið alþjóðamót í New York-borg. Mótsgestir voru yfir sig hrifnir að fá í hendur Nýheimsþýðingu kristnu Grísku ritninganna. Þetta var fyrsti hluti nýrrar biblíuþýðingar á nútímaensku með nafni Guðs þar sem það á að standa. – Jer. 16:21.

9 Mót hafa einnig verið haldin í löndum þar sem vottar Jehóva voru ofsóttir eða starf þeirra bannað um langt skeið. Þau höfðu djúpstæð áhrif á viðstadda. Adolf Hitler hafði strengt þess heit að útrýma vottum Jehóva úr Þýskalandi. Árið 1955 voru 107.000 vottar saman komnir á leikvangi í Nürnberg þar sem Hitler hafði haldið hersýningar. Margir viðstaddra gátu ekki haldið aftur af gleðitárunum. Árið 1989 voru haldin þrjú mót í Póllandi undir nafninu „Guðrækni“. Alls voru 166.518 viðstaddir, þeirra á meðal fjöldi gesta frá þáverandi Sovétríkjunum og Tékkóslóvakíu, og frá öðrum löndum Austur-Evrópu. Sumir þeirra höfðu aldrei áður sótt samkomu þar sem fleiri en 15 til 20 vottar voru saman komnir. Og þú getur rétt ímyndað þér fögnuðinn á alþjóðamótinu „Kennsla Guðs“ í Kíev í Úkraínu árið 1993 þegar 7.402 létu skírast. Ekki er til þess vitað að fleiri vottar Jehóva hafi skírst samtímis. – Jes. 60:22; Hag. 2:7.

10. Hvaða mót eru þér sérlega minnisstæð og hvers vegna?

10 Vel má vera að ákveðin umdæmismót eða alþjóðamót séu þér sérlega minnisstæð. Manstu eftir fyrsta mótinu sem þú sóttir eða kannski mótinu þegar þú lést skírast? Þessi mót mörkuðu þáttaskil í tilbeiðslu þinni á Jehóva. Varðveittu þessar góðu minningar! – Sálm. 42:5, Biblían 1981.

GLEÐIHÁTÍÐIR ÞRISVAR Á ÁRI

11. Hvaða hátíðir áttu Ísraelsmenn að sækja á hverju ári?

11 Jehóva gerði þá kröfu að Ísraelsmenn söfnuðust saman í Jerúsalem þrisvar á ári til að halda hátíðir. Þetta voru hátíð ósýrðu brauðanna, viknahátíðin (síðar kölluð hvítasunna) og laufskálahátíðin. Jehóva gaf eftirfarandi fyrirmæli um þessar hátíðir: „Þrisvar á ári skulu allir karlmenn meðal þín sjá auglit Drottins.“ (2. Mós. 23:14-17) Margir fjölskyldufeður tóku alla fjölskylduna með því að þeir vissu hve hátíðirnar voru mikilvægur þáttur í tilbeiðslu þeirra. – 1. Sam. 1:1-7; Lúk. 2:41, 42.

12, 13. Hvað þýddi það fyrir marga Ísraelsmenn að sækja hinar árlegu hátíðir?

12 Veltum fyrir okkur hvað það hefur þýtt fyrir ísraelska fjölskyldu að fara slíka ferð. Jósef og María þurftu til dæmis að ferðast um 100 kílómetra hvora leið milli Nasaret og Jerúsalem. Hve lengi heldurðu að þú yrðir að ganga slíka vegalengd með ung börn þér við hlið? Frásagan af því þegar Jesús heimsótti Jerúsalem sem drengur ber með sér að vinir og ættingjar hafa gjarnan ferðast saman. Það hefur örugglega verið eftirminnilegt fyrir þau að ganga saman, elda saman og finna hentugan svefnstað á ókunnum slóðum. Við vitum að leiðin hefur samt verið nógu örugg til að hægt væri að gefa 12 ára dreng eins og Jesú töluvert frjálsræði. Hugsaðu þér hve ógleymanlegt þetta hlýtur að hafa verið, ekki síst fyrir börnin. – Lúk. 2:44-46.

13 Eftir að Ísraelsmenn höfðu dreifst til margra landa sóttu þeir hátíðirnar þaðan. Á hvítasunnu árið 33 komu Gyðingar og trúskiptingar til Jerúsalem frá stöðum eins og Ítalíu, Líbíu, Krít, Litlu-Asíu og Mesópótamíu. Þeir kunnu greinilega að meta þessar hátíðir. – Post. 2:5-11; 20:16.

14. Hvernig var það Ísraelsmönnum til góðs að sækja hinar árlegu hátíðir?

14 Fyrir trúa Ísraelsmenn var það hápunktur ferðarinnar að tilbiðja Jehóva ásamt þúsundum þakklátra hátíðargesta. Hvaða áhrif ætli þetta hafi haft á viðstadda? Svarið er að finna í leiðbeiningum Jehóva til þjóðar sinnar varðandi laufskálahátíðina: „Þú skalt gleðjast á hátíð þinni, þú og synir þínir og dætur, þrælar þínir og ambáttir ásamt Levítunum, aðkomumönnunum, munaðarleysingjum og ekkjum sem búa í borg þinni. Þú skalt halda Drottni, Guði þínum, hátíð í sjö daga á staðnum sem Drottinn mun velja. Þegar Drottinn, Guð þinn, hefur blessað þig með allri uppskeru þinni og í öllu sem þú tekur þér fyrir hendur skaltu fagna stórum.“ – 5. Mós. 16:14, 15; lestu Lúkas 11:28.

VERUM ÞAKKLÁT FYRIR MÓTIN

15, 16. Hvaða fórnir hefurðu þurft að færa til að sækja mót? Af hverju er það þess virði?

15 Við getum dregið ýmsa lærdóma af hátíðunum sem haldnar voru í Jerúsalem. Þótt ýmislegt hafi breyst í aldanna rás er margt hliðstætt með mótunum, sem haldin eru á okkar tímum, og hátíðum fortíðar. Menn þurftu að færa vissar fórnir til að sækja hátíðirnar forðum daga. Margir þurfa líka að færa fórnir til að sækja mótin en það er vel þess virði. Þessar hátíðir voru mikilvægur þáttur tilbeiðslunnar og mótin eru það sömuleiðis. Þar fáum við upplýsingar og skýringar sem eru okkur nauðsynlegar til að varðveita náið samband við Guð. Mótin vekja með okkur löngun til að fara eftir því sem við lærum, við fáum hjálp til að forðast vandamál og hvatningu til að einbeita okkur að því sem uppbyggir og endurnærir í stað þess að beina kröftum okkar að því sem íþyngir. – Sálm. 122:1-4.

Suður-Kórea

16 Mótin eru alltaf jafn gleðilegir viðburðir fyrir þá sem sækja þau. Í fréttariti var sagt frá fjölmennu móti sem haldið var árið 1946. Þar stóð: „Það var hrífandi sjón að sjá þúsundir votta saman komna, og enn ánægjulegra að hlýða á allan fjöldann hefja upp raustina við undirleik stórrar hljómsveitar, og syngja Jehóva fagnandi lof svo að undir tók í áhorfendapöllunum.“ Síðan sagði: „Mótsgestir skráðu sig hópum saman hjá sjálfboðadeildinni og mönnuðu öll þjónustustörfin. Þeir fögnuðu því að geta þjónað meðbræðrum sínum.“ Hefur þú upplifað eitthvað svipað á umdæmismótum eða alþjóðamótum? – Sálm. 110:3; Jes. 42:10-12.

17. Hvernig hefur skipulag mótanna breyst?

17 Mótin eru að ýmsu leyti öðruvísi skipulögð en áður. Sumir muna þá tíð þegar þau gátu verið átta daga löng og stóðu oft frá morgni til kvölds. Boðunarstarf var fastur liður á mótunum. Dagskráin hófst gjarnan klukkan níu að morgni og gat staðið til klukkan níu að kvöldi. Sjálfboðaliðar unnu hörðum höndum að því að hafa til morgunverð, hádegisverð og kvöldverð handa viðstöddum. Núna er mótsdagskráin styttri og fólk tekur með sér nesti þannig að allir geti nýtt sér andlegu fæðuna enn betur.

Mósambík

18, 19. Hvað finnst þér ánægjulegast við mótin og hvers vegna?

18 Á mótunum hafa lengi verið fastir liðir sem við hlökkum til. Þar fáum við andlegan „mat á réttum tíma“ sem veitir okkur betri skilning á kenningum og spádómum Biblíunnar. (Matt. 24:45) Við fáum andlegu fæðuna bæði í ræðum og í nýjum ritum sem kynnt eru á mótunum. Mörg nýju ritin eru hjálpargögn til að skýra sannleika Biblíunnar fyrir áhugasömum. Biblíuleikrit hjálpa bæði ungum sem öldnum að líta í eigin barm og sjá hvernig þeir geti spornað gegn óguðlegum hugsunarhætti heimsins. Þegar skírnarræðan er flutt fáum við öll tækifæri til að hugleiða hvernig við forgangsröðum í lífinu. Við njótum sömuleiðis þeirrar gleði að sjá aðra skírast til tákns um að þeir séu vígðir Jehóva.

19 Mótin hafa löngum verið mikilvægur þáttur sannrar tilbeiðslu og hjálpað fólki Jehóva að þjóna honum dyggilega á erfiðum tímum. Þau hvetja okkur til að vera ánægð og ötul í þjónustu hans, gefa okkur tækifæri til að eignast nýja vini og skilja hvað það þýðir að tilheyra alþjóðlegu bræðralagi. Mótin eru mikilvæg leið sem Jehóva notar til að blessa þjóna sína og annast þá. Ættum við ekki öll að gera ráðstafanir til þess að sækja hvert einasta mót og missa ekki af einum einasta dagskrárlið? – Orðskv. 10:22.