Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Friður í þúsund ár – og að eilífu

Friður í þúsund ár – og að eilífu

„Svo að Guð verði allt í öllu.“ – 1. KOR. 15:28.

1. Hvaða spennandi framtíð á „mikill múgur“ manna í vændum?

HUGSAÐU þér allt það góða sem sterk stjórn gæti gert fyrir þegna sína á þúsund árum ef réttlátur og umhyggjusamur valdhafi væri við stjórnvölinn. „Mikill múgur“ manna á margt gott í vændum. Þeir komast lifandi úr „þrengingunni miklu“ en í henni líður hinn núverandi illi heimur undir lok. – Opinb. 7:9, 14.

2. Hvað hafa mennirnir mátt þola síðastliðin 6.000 ár?

2 Mennirnir hafa reynt að stjórna og ráða málum sínum sjálfir síðastliðin 6.000 ár. Það hefur haft skelfilegar þjáningar í för með sér. Biblíuritari skrifaði endur fyrir löngu: „Einn maður drottnar yfir öðrum honum til ógæfu.“ (Préd. 8:9) Og hver er staðan núna? Auk uppreisna og styrjalda blasa við ægileg vandamál eins og fátækt, sjúkdómar, umhverfisspjöll, loftslagsbreytingar og margt annað. Þjóðarleiðtogar vara við að það muni hafa hrikalegar afleiðingar fyrir mennina að halda áfram á sömu braut.

3. Hvað gerist undir þúsund ára stjórn Krists?

3 Ríki Guðs í höndum konungsins Jesús Krists og 144.000 meðstjórnenda hans á eftir að vinna markvisst að því að bæta allt það tjón sem mennirnir og heimili þeirra, jörðin, hafa orðið fyrir. Þúsundáraríkið kemur því til leiðar að þetta hughreystandi loforð Jehóva Guðs rætist: „Ég skapa nýjan himin og nýja jörð og hins fyrra verður ekki minnst framar og það skal engum í hug koma.“ (Jes. 65:17) Hvaða stórkostlegu atburðir eiga eftir að gerast í framtíðinni? Spádómar Biblíunnar gefa okkur forsmekk af þessum atburðum sem við eigum eftir að sjá. – 2. Kor. 4:18.

„MENN MUNU REISA HÚS OG . . . PLANTA VÍNGARÐA“

4. Hvers konar húsnæði þurfa margir að gera sér að góðu?

4 Alla langar til að eiga gott heimili þar sem fjölskyldan á sér öruggt skjól. Í heimi nútímans er hins vegar alvarlegur skortur á viðunandi húsnæði. Fólki er hrúgað saman í yfirfullum borgum. Margir verða að gera sér að góðu bráðabirgðahúsnæði eða hreysi í fátækrahverfi. Hjá þeim er það bara fjarlægur draumur að eignast eigið húsnæði.

5, 6. (a) Hvernig rætast Jesaja 65:21 og Míka 4:4? (b) Hvernig getum við orðið þess aðnjótandi sem lýst er í þessum spádómum?

5 Allir munu eiga sér gott heimili þegar Guðsríki hefur tekið völd. Í einum spádómi Jesaja segir: „Menn munu reisa hús og búa í þeim, planta víngarða og neyta ávaxta þeirra.“ (Jes. 65:21) En málið snýst ekki bara um að eiga húsnæði. Margir búa nú þegar í eigin húsnæði og sumir eiga jafnvel stórhýsi eða heilt sveitasetur. En það er alltaf hætta á þeir að missi húsnæðið vegna fjárhagserfiðleika eða þá að þjófar eða aðrir misindismenn brjótist inn. Það verður harla ólíkt þegar Guðsríki hefur tekið völd. Míka spámaður skrifaði: „Þá munu menn sitja óhræddir, hver undir sínum vínviði eða fíkjutré.“ – Míka 4:4.

6 Hvað ættum við að gera fyrst við eigum þessar unaðslegu framtíðarhorfur? Öll þurfum við auðvitað að hafa þak yfir höfuðið. En væri ekki skynsamlegt að einbeita sér að loforði Jehóva í stað þess að streitast við að eignast draumahúsið núna – og sökkva sér jafnvel í skuldir til þess? Munum hvað Jesús sagði um sjálfan sig: „Refar eiga greni og fuglar himins hreiður en Mannssonurinn á hvergi höfði sínu að að halla.“ (Lúk. 9:58) Jesús hefði hæglega getað byggt eða keypt besta hús sem hugsast getur. Af hverju gerði hann það ekki? Hann vildi greinilega ekki flækja sig í neinu sem hefði getað hindrað hann í að láta ríki Guðs ganga fyrir. Getum við líkt eftir honum og haldið auga okkar heilu – lausu við efnishyggju og áhyggjur? – Matt. 6:33, 34.

„ÚLFUR OG LAMB VERÐA SAMAN Á BEIT“

7. Hvers konar samband átti að vera milli manna og dýra samkvæmt fyrirmælum Jehóva?

7 Maðurinn var síðasta verk Jehóva á löngu sköpunarferli hér á jörð, hátindur jarðneskra sköpunarverka hans. Jesús, frumgetinn sonur hans, vann með honum að sköpun allra hluta. Jehóva sagði honum hvaða verkefni mennirnir ættu að fá: „Vér viljum gera manninn eftir vorri mynd, líkan oss. Hann skal drottna yfir fiskum sjávarins, fuglum loftsins, búfénu, villidýrunum og allri jörðinni og öllum skriðdýrum sem skríða á jörðinni.“ (1. Mós. 1:26) Adam og Eva og allir menn í framhaldi af því fengu það umboð að ráða yfir dýrum jarðar.

8. Hvaða tilfinningar birtast oft í fari dýra?

8 Geta mennirnir virkilega ráðið yfir öllum dýrunum og lifað í friði við þau? Margir mynda afar náin tengsl við gæludýrin sín, svo sem hunda og ketti. En hvað um villidýr? Í greinargerð nokkurri segir: „Vísindamenn, sem hafa verið í nánum tengslum við dýr og rannsakað þau, hafa komist að raun um að öll spendýr eru tilfinningaverur.“ Við vitum auðvitað að dýr geta hræðst eða verið grimm ef þeim er ógnað, en eru þau fær um að sýna það sem kalla mætti hlýjar tilfinningar? Í greinargerðinni segir: „Fegursti eiginleiki spendýranna kemur í ljós þegar þau annast ungviðið – þá sýna þau ástúð svo um munar.“

9. Hvaða breytinga megum við vænta á samskiptum manna og dýra?

9 Það ætti ekki að koma okkur á óvart að lesa í Biblíunni að friður verði milli manna og dýra. (Lestu Jesaja 11:6-9; 65:25.) Af hverju? Þegar Nói og fjölskylda hans yfirgáfu örkina eftir flóðið sagði Jehóva við þau: „Öll dýr jarðarinnar . . . skulu óttast ykkur og hræðast.“ Þetta var dýrunum til verndar. (1. Mós. 9:2, 3) Ætli Jehóva geti ekki dregið úr þessum ótta og hræðslu svo að samskipti manna og dýra verði með þeim hætti sem hann ákvað í upphafi? (Hós. 2:18) Allir sem fá að búa á jörðinni á þeim tíma eiga mikla ánægju í vændum.

„HANN MUN ÞERRA HVERT TÁR“

10. Hvers vegna grætur fólk?

10 Þegar Salómon horfði upp á „alla þá kúgun sem viðgengst undir sólinni“ sagði hann mæðulega: „Þar streyma tár hinna undirokuðu en enginn huggar þá.“ (Préd. 4:1) Ástandið er svipað núna, ef ekki verra. Hafa ekki allir haft ástæðu einhvern tíma til að gráta? Stundum fellum við reyndar gleðitár. En yfirleitt er það sorg eða kvöl sem býr að baki tárunum.

11. Hvaða frásaga Biblíunnar hreyfir sérstaklega við þér?

11 Í Biblíunni segir frá mörgum tilfinningaþrungnum stundum í lífi fólks. Þegar Sara dó 127 ára að aldri segir að Abraham hafi ,harmað hana og grátið‘. (1. Mós. 23:1, 2, Biblían 1981) Tengdadætur Naomi, sem báðar voru ekkjur, „fóru að gráta“ þegar hún kvaddi þær og „þær brustu aftur í grát“ eftir að hafa talað saman um stund. (Rut. 1:9, 14) Þegar Hiskía konungur veiktist og var að dauða kominn bað hann til Guðs og „grét ákaflega“. Jehóva var snortinn af tárum hans og læknaði hann. (2. Kon. 20:1-5) Eins snertir það tilfinningar okkar að lesa frásöguna af því þegar Pétur postuli afneitaði Jesú en Pétur „gekk út og grét beisklega“ þegar hann heyrði hanann gala. – Matt. 26:75.

12. Hvernig hljóta allir menn huggun í þúsundáraríkinu?

12 Við mennirnir þörfnumst þess sárlega að fá huggun og hughreystingu í öllum raunum okkar, stórum sem smáum. Það er einmitt það sem þegnar Krists fá að upplifa í þúsundáraríkinu. Þá mun Guð „þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til.“ (Opinb. 21:4) Það er dásamlegt til þess að vita að harmur, vein og kvöl verði ekki framar til. En Guð lætur ekki staðar numið þar heldur lofar einnig að útrýma síðasta óvini mannkyns – dauðanum. Hvernig gerist það?

„ALLIR ÞEIR SEM Í GRÖFUNUM ERU MUNU . . . GANGA FRAM“

13. Hvaða áhrif hefur dauðinn haft á mennina síðan Adam syndgaði?

13 Dauðinn hefur ríkt eins og konungur yfir mannkyninu allar götur síðan Adam syndgaði. Hann hefur verið ósigrandi óvinur manna, óumflýjanleg endalok allra og valdið ómældum harmi og sorg. (Rómv. 5:12, 14) Milljónir manna lifa meira að segja „allan sinn aldur undir ánauðaroki af ótta við dauðann“. – Hebr. 2:15.

14. Hvernig verður dauðinn að engu gerður?

14 Í Biblíunni er talað um þann tíma þegar „síðasti óvinurinn“, það er að segja dauðinn, „verður að engu gerður“. (1. Kor. 15:26) Nefna má tvo hópa sem eiga eftir að njóta góðs af því. Mikill múgur manna, sem er á lífi núna, á fyrir sér að lifa áfram þegar nýi heimurinn gengur í garð og á eilíft líf í vændum. Þeir milljarðar, sem hafa dáið, geta síðan fengið upprisu. Geturðu gert þér í hugarlund hve gleðilegt og spennandi það verður fyrir fyrrnefnda hópinn að taka á móti þeim síðarnefnda? Með því að lesa og hugleiða frásögur í Biblíunni af upprisu fólks getum við fengið forsmekk af því. – Lestu Markús 5:38-42; Lúkas 7:11-17.

15. Hvernig ætli þú bregðist við þegar þú sérð látna ástvini rísa upp frá dauðum?

15 Taktu eftir hvernig viðbrögðum fólks er lýst í þessum frásögum. „Menn urðu frá sér numdir af undrun“ og „þeir vegsömuðu Guð“. Ef til vill hefðir þú líka brugðist þannig við ef þú hefðir verið á staðnum þegar þetta gerðist. Það verður ólýsanlegur fögnuður og gleði að sjá ástvini sína rísa upp frá dauðum. Jesús sagði: „Sú stund kemur þegar allir þeir sem í gröfunum eru munu heyra raust hans og ganga fram.“ (Jóh. 5:28, 29) Við höfum aldrei upplifað neitt slíkt en við getum verið viss um að það verði eitthvað það stórkostlegasta sem við eigum eftir að sjá.

GUÐ VERÐUR „ALLT Í ÖLLU“

16. (a) Hvers vegna ættum við að tala af eldmóði um framtíðina sem við eigum í vændum? (b) Hvað skrifaði Páll til að hvetja og uppörva kristna menn í Korintu?

16 Allir sem eru Jehóva trúir á þessum erfiðu tímum eiga unaðslega framtíð í vændum. Þó að hinir stórkostlegu atburðir, sem lýst hefur verið, séu enn ókomnir er mikilvægt að hafa þá skýrt í huga til að einbeita okkur að því sem máli skiptir og láta ekki glepjast af tálbeitum þessa heims. (Lúk. 21:34; 1. Tím. 6:17-19) Við skulum tala af eldmóði um framtíðina og vonina í biblíunámi fjölskyldunnar, í samræðum við trúsystkini og þegar við ræðum við biblíunemendur og áhugasama. Þannig höldum við voninni lifandi í hugum okkar og hjörtum. Páll postuli gerði það í uppörvandi bréfi sem hann skrifaði trúsystkinum. Hann fór með þau allt til loka þúsundáraríkisins, ef svo má að orði komast. Reyndu að gera þér í hugarlund hvað felst raunverulega í orðum hans í 1. Korintubréfi 15:24, 25, 28. – Lestu.

17, 18. (a) Í hvaða skilningi var Jehóva „allt í öllu“ við upphaf mannkynssögunnar? (b) Með hvaða hætti kemur Jesús á friði og einingu á nýjan leik?

17 Það er varla hægt að lýsa því betur hvernig lífið verður í lok þúsund áranna en að segja „að Guð verði allt í öllu“. Hvað merkir það? Hugsaðu aftur í tímann meðan Adam og Eva voru enn fullkomin, bjuggu í Eden og tilheyrðu friðsamri alheimsfjölskyldu Jehóva. Drottinn alheims ríkti milliliðalaust yfir öllum sköpunarverum sínum á himni og jörð. Þær gátu haft beint samband við hann, tilbeðið hann og notið blessunar hans. Hann var „allt í öllu“.

Jesús afhendir föður sínum ríkið eftir að hafa lokið því verki sem honum var falið.

18 Þetta góða samband rofnaði þegar mennirnir gerðu uppreisn gegn drottinvaldi Jehóva, undir áhrifum Satans. Síðan 1914 hefur Messíasarríkið hins vegar unnið markvisst að því að koma á friði og einingu á nýjan leik. (Ef. 1:9, 10) Í þúsundáraríkinu fáum við að sjá stórfenglega atburði gerast. Síðan kemur „endirinn“, það er að segja endir Messíasarríkisins. Hvað gerist þá? Jesús er ekki metnaðargjarn þó að honum sé gefið „allt vald . . . á himni og jörðu“. Hann hefur engan áhuga á að hrifsa völdin af Jehóva heldur „selur ríkið Guði föður í hendur“. Hann notar háa stöðu sína og vald „Guði föður til dýrðar“. – Matt. 28:18; Fil. 2:9-11.

19, 20. (a) Hvernig geta allir þegnar Guðsríkis sýnt að þeir viðurkenni drottinvald Jehóva? (b) Hvaða stórfenglega framtíð bíður okkar?

19 Þegar hér er komið sögu eru allir þegnar Guðsríks á jörð orðnir fullkomnir. Þeir eru auðmjúkir og fara að dæmi Jesú með því að viðurkenna drottinvald Jehóva fúslega. Þeir fá tækifæri til að sýna það með því að standast lokaprófið. (Opinb. 20:7-10) Eftir það verða allir uppreisnarseggir, bæði englar og menn, fjarlægðir fyrir fullt og allt. Það verða miklir fagnaðartímar. Þjónar Jehóva um alheim allan munu þá lofa hann. Og Jehóva verður „allt í öllu“. – Lestu Sálm 99:1-3.

20 Hugleiðir þú að staðaldri allar þær dásemdir sem ríki Guðs á eftir að færa mönnum innan tíðar? Læturðu það vera þér hvatning til að einbeita þér að því að gera vilja hans? Gætirðu þess að láta ekki falskar vonir og innantóma hughreystingu heimsins leiða þig út af sporinu? Ertu ákveðnari en nokkru sinni fyrr í að styðja og verja drottinvald Jehóva? Sýndu í verki að þú þráir að gera það að eilífu. Þá færðu að búa við frið og farsæld um þúsund ár – og að eilífu!