Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hjálpaðu þeim að snúa aftur sem fyrst

Hjálpaðu þeim að snúa aftur sem fyrst

Hjálpaðu þeim að snúa aftur sem fyrst

„Til hvers ættum við að fara? Þú hefur orð eilífs lífs.“ — JÓH. 6:68.

1. Hvað sagði Pétur þegar margir af lærisveinum Jesú yfirgáfu hann?

„ÆTLIÐ þið að fara líka?“ spurði Jesús postulana eftir að margir af lærisveinunum höfðu hafnað einni af kenningum hans og yfirgefið hann. „Drottinn, til hvers ættum við að fara?“ svaraði Pétur. „Þú hefur orð eilífs lífs.“ (Jóh. 6:51-69) Það var ekkert annað að fara. Ekki var „orð eilífs lífs“ að finna í gyðingdómi þess tíma og þau er sannarlega ekki að finna nú á dögum í Babýlon hinni miklu, heimsveldi falskra trúarbragða. Fyrir þá sem hafa villst frá hjörðinni en langar til að þóknast Jehóva er „mál að rísa af svefni“ og snúa aftur inn í sauðabyrgið. — Rómv. 13:11.

2. Hvað ætti að hafa í huga varðandi trúnaðar- eða dómnefndarmál?

2 Jehóva sýndi týndum sauðum af Ísraelsætt umhyggju sína. (Lestu Esekíel 34:15, 16.) Safnaðaröldunga langar líka til að hjálpa sauðum Jehóva sem hafa villst frá hjörðinni og það er jafnframt skylda þeirra. Segjum að boðberi hafi fengið það verkefni að aðstoða óvirkan sem óskar hjálpar við biblíunám. Hvað á hann að gera ef hann kemst að raun um að hinn óvirki hefur framið alvarlega synd? Hann ætti ekki að ætla sér að leiðbeina hinum óvirka í máli sem á að vera trúnaðar- eða dómnefndarmál heldur leggja til að hann tali við öldungana. Ef hann gerir það ekki ætti boðberinn sjálfur að gera öldungunum viðvart. — 3. Mós. 5:1; Gal. 6:1.

3. Hvernig brást maðurinn með 100 sauðina við þegar hann fann týnda sauðinn?

3 Í greininni á undan var minnst á dæmisögu Jesú um mann sem átti 100 sauði. Þegar einn vantaði í hjörðina skildi hann hina 99 eftir og tók að leita að hinum týnda. Gladdist hann ekki þegar hann fann týnda sauðinn? (Lúk. 15:4-7) Við gleðjumst líka þegar einn af sauðum Guðs, sem hefur vantað í hjörðina, snýr aftur. Öldungar og aðrir í söfnuðinum hafa sennilega sýnt hinum óvirka kærleika sinn með því að heimsækja hann. Þá langar líka til að sjá hann snúa aftur inn í sauðabyrgið og njóta stuðnings, verndar og blessunar Jehóva. (5. Mós. 33:27; Sálm. 91:14; Orðskv. 10:22) Hvernig geta þeir borið sig að ef þeir fá tækifæri til að hjálpa óvirkum?

4. Hvað má sjá af Galatabréfinu 6:2 og 5?

4 Kannski geta þeir hvatt hinn óvirka til að snúa aftur til safnaðarins með því að sýna honum fram á að Jehóva elski sauði sína og ætlist ekki til meira af okkur en við getum gert. Það felur meðal annars í sér að lesa og hugleiða Biblíuna, sækja samkomur og boða fagnaðarerindið um ríkið. Það gæti verið viðeigandi að lesa Galatabréfið 6:2 og 5 og nefna að kristnir menn geti hjálpast að við að bera byrðar hver annars en hver og einn verði þó að „bera sína byrði“ eða ábyrgð frammi fyrir Jehóva. Enginn getur verið Guði trúr fyrir okkar hönd.

Hafa „áhyggjur þessa lífs“ tekið sinn toll?

5, 6. (a) Af hverju er mikilvægt að hlusta vel þegar óvirk trúsystkini segja frá því sem þeim liggur á hjarta? (b) Hvernig gætirðu sýnt óvirkum fram á að það hafi verið þeim til tjóns að sækja ekki samkomur?

5 Öldungar og aðrir þroskaðir boðberar þurfa að hlusta vel þegar óvirk trúsystkini segja frá því sem þeim liggur á hjarta, til að geta hjálpað þeim. Segjum að þú sért öldungur og sért að heimsækja hjón sem sækja ekki samkomur af því að „áhyggjur þessa lífs“ hafa tekið sinn toll. (Lúk. 21:34) Kannski hafa fjárhagserfiðleikar eða vaxandi fjölskylduábyrgð orðið þess valdandi að þau urðu smám saman óvirk. Þeim finnst þau þurfa að draga úr álaginu en þú gætir bent þeim á að þau leysi ekki vandann með því að einangra sig. Í Orðskviðunum 18:1 segir: „Sérlyndur maður [„sá sem einangrar sig“, NW] fer að eigin geðþótta og hafnar hverju hollráði.“ Þú gætir spurt háttvíslega: „Eruð þið hamingjusamari eftir að þið hættuð að sækja samkomur? Er fjölskyldulífið betra? Er gleði Jehóva enn þá styrkur ykkar?“ — Nehem. 8:10.

6 Ef óvirkir hugleiða slíkar spurningar komast þeir kannski að raun um að þeir eru ekki eins hamingjusamir og þeir voru áður eða sjá ekki hlutina lengur sömu augum og Jehóva. (Matt. 4:4; Lúk 11:28; Hebr. 10:24, 25) Kannski er hægt að leiða þeim fyrir sjónir að þeir fari á mis við gleðina sem fylgir því að boða fagnaðarerindið. (Matt. 28:19, 20) Hvað er þá viturlegt fyrir þá að gera í stöðunni?

7. Hvað getum við hvatt þá til að gera sem hafa villst frá hjörðinni?

7 Jesús sagði: „Hafið gát á sjálfum yður, látið ekki svall og drykkju eða áhyggjur þessa lífs ná tökum á yður . . . Vakið því allar stundir og biðjið svo að þér megið umflýja allt þetta sem koma á.“ (Lúk. 21:34-36) Ef einhver hefur villst frá hjörðinni en þráir að njóta aftur hamingjunnar, sem hann þekkti áður, er hægt að hvetja hann til að biðja um heilagan anda og hjálp Guðs, og til að breyta í samræmi við bænir sínar. — Lúk. 11:13.

Hneyksluðust þeir á einhverju?

8, 9. Hvernig gæti öldungur rökrætt við óvirkan boðbera sem hneykslaðist eða móðgaðist?

8 Menn eru ófullkomnir svo að stundum kemur til árekstra milli þeirra. Það gæti orðið til þess að einhver móðgaðist eða hneykslaðist. Sumir hafa hneykslast á því að virtur safnaðarmaður braut gegn meginreglum Biblíunnar. Ef eitthvað slíkt varð til þess að hinn óvirki hætti að þjóna Jehóva gæti öldungurinn, sem heimsækir hann, minnt hann á að það sé aldrei við Jehóva að sakast þó að einhver hneykslist. Er þá nokkur ástæða til að slíta sambandinu við hann eða söfnuð hans? Ættum við ekki frekar að halda áfram að þjóna Jehóva í trausti þess að „dómari allrar jarðarinnar“ viti hvað átti sér stað og taki rétt á málinu? (1. Mós. 18:25; Kól. 3:23-25) Ef einhver hrasaði og dytti myndi hann varla ákveða að liggja bara flatur og reyna ekki einu sinni að standa upp aftur.

9 Öldungur gæti líka reynt að hjálpa hinum óvirka með því að nefna að með tímanum geti hneykslunarefnið virst frekar lítilvægt. Kannski er það ekki lengur fyrir hendi. Ef hinn óvirki móðgaðist eða hneykslaðist á sínum tíma út af því að hann fékk einhverja ögun gæti verið gott fyrir hann að hugleiða málið og ræða við Jehóva í bæn. Þá kemst hann ef til vill að raun um að hann verðskuldaði að einhverju leyti ögunina sem hann fékk og hefði ekki átt að bregðast svona við. — Sálm. 119:165; Hebr. 12:5-13.

Voru þeir ósammála einhverri kenningu?

10, 11. Hvernig gæti verið gott að rökræða við þá sem voru ósammála einhverri biblíukenningu?

10 Sumir hafa ef til vill yfirgefið hjörð Guðs vegna þess að þeir voru ekki sammála einhverri biblíukenningu. Ísraelsmenn voru fljótir að ‚gleyma verkum Guðs‘ í þeirra þágu eftir að hann frelsaði þá úr ánauðinni í Egyptalandi og þeir „biðu ekki ráða hans“. (Sálm. 106:13) Það getur verið gott að minna á að hinn „trúi og hyggni þjónn“ sér okkur fyrir andlegri fæðu í hæsta gæðaflokki. (Matt. 24:45) Hinn óvirki lærði sannleikann á sínum tíma með því að nýta sér hana. Af hverju ætti hann þá ekki að „lifa í sannleikanum“ á nýjan leik? — 2. Jóh. 4.

11 Þegar öldungur leitast við að hjálpa þeim sem hafa villst frá hjörð Guðs gæti hann minnst á lærisveinana sem höfnuðu einni af kenningum Jesú og yfirgáfu hann. (Jóh. 6:53, 66) Þegar þeir hættu að umgangast Krist og trúa fylgjendur hans misstu þeir gleðina og kunnu ekki lengur að meta andleg sannindi. Hafa þeir sem eru hættir að sækja safnaðarsamkomur fundið staðgóða andlega fæðu annars staðar? Nei, hana er hvergi annars staðar að finna.

Drýgðu þeir alvarlega synd?

12, 13. Hvernig er hægt að hjálpa einstaklingi, sem hefur villst frá hjörðinni, ef hann viðurkennir að hann hafi drýgt alvarlega synd?

12 Sumir hætta að boða fagnaðarerindið og sækja samkomur af því að þeir hafa drýgt alvarlega synd. Þeir hugsa kannski sem svo að þeim verði vikið úr söfnuðinum ef þeir játa syndina fyrir öldungunum. En þeim verður ekki vikið úr söfnuðnum ef þeir eru hættir að brjóta boð Biblíunnar og þeir iðrast í einlægni. (2. Kor. 7:10, 11) Þeir fá öllu heldur hlýjar móttökur þegar þeir snúa aftur og öldungarnir munu aðstoða þá eftir þörfum.

13 Segjum að þú sért þroskaður boðberi sem hefur verið falið að liðsinna óvirkum einstaklingi. Hvað áttu að gera ef hann segir þér að hann hafi gert sig sekan um alvarlega synd? Eins og áður var bent á ættirðu ekki að reyna að taka á málinu sjálfur heldur skaltu hvetja hann til að tala við öldungana. Ef hann vill ekki gera það sýnirðu að þú lætur þér annt um nafn Jehóva og andlega heill safnaðarins með því að fylgja leiðbeiningum Guðs varðandi slík mál. (Lestu 3. Mósebók 5:1.) Öldungarnir vita hvernig á að aðstoða þá sem langar til að snúa aftur og lifa í samræmi við vilja Guðs. Ef til vill þarf að veita þeim kærleiksríka ögun. (Hebr. 12:7-11) Öldungarnir aðstoða hinn óvirka ef hann viðurkennir að hann hafi syndgað gegn Guði, er hættur að gera hið ranga og iðrast í einlægni, og hann getur hlotið fyrirgefningu Jehóva. — Jes. 1:18; 55:7; Jak. 5:13-16.

Sonur sem sneri aftur

14. Endursegðu dæmisögu Jesú um glataða soninn.

14 Þegar við reynum að hjálpa sauð, sem hefur villst frá hjörðinni, gætum við kannski bent honum á dæmisögu Jesú í Lúkasi 15:11-24. Þar segir frá ungum manni sem sólundar föðurarfinum í óhófsömum lifnaði. Að síðustu fær hann andstyggð á spilltu líferni sínu. Hann er sársvangur, haldinn heimþrá og hefur ákveðið sig — hann ætlar heim. Hann er enn langt í burtu þegar faðir hans kemur auga á hann, hleypur til móts við hann, fellur um háls honum og kyssir hann fagnandi. Þessi dæmisaga getur verið þeim sem hafa fjarlægst hjörðina hvöt til að snúa aftur í sauðabyrgið. Þar eð þessu heimskerfi verður eytt innan skamms ætti hann að ‚snúa heim‘ tafarlaust.

15. Af hverju fjarlægjast sumir söfnuðinn?

15 Fæstir sem fjarlægjast söfnuðinn eru nákvæmlega eins og glataði sonurinn. Hjá sumum gerist þetta smám saman, ekki ósvipað og bát rekur hægt frá landi. Áhyggjur lífsins leggjast svo þungt á suma að þeir hætta að rækta sambandið við Jehóva. Og svo eru þeir sem hneykslast á einhverjum í söfnuðinum eða fara af því að þeir eru ósammála einhverri biblíukenningu. Fáeinir gera sig seka um að brjóta boðorð Biblíunnar. En ráðleggingarnar, sem gefnar eru í greininni varðandi tilfelli af þessu tagi, geta hjálpað þér að liðsinna þeim sem hafa yfirgefið söfnuðinn einhverra orsaka vegna, og hvatt þá til að snúa aftur áður en það er um seinan.

„Velkominn heim, vinur!“

16-18. (a) Hvernig hjálpaði öldungur nokkur bróður sem hafði verið óvirkur árum saman? (b) Af hverju varð bróðirinn óvirkur, hvaða hjálp fékk hann og hvernig tók söfnuðurinn honum?

16 Safnaðaröldungur segir: „Öldungaráðið okkar leggur mikla áherslu á að heimsækja þá sem eru óvirkir. Mér varð hugsað til bróður sem ég hafði leiðbeint og hjálpað að kynnast sannleikanum. Hann hafði verið óvirkur í ein 25 ár og átti í miklum erfiðleikum um þessar mundir. Ég benti honum á hvernig meginreglur Biblíunnar gætu hjálpað honum. Nokkru seinna byrjaði hann að sækja samkomur og þáði biblíunámskeið til að verða enn ákveðnari í að snúa aftur til hjarðarinnar.“

17 Af hverju varð bróðirinn óvirkur? Hann segir: „Ég fór að hugsa meira um veraldleg markmið en sambandið við Jehóva. Síðan hætti ég að stunda sjálfsnám, taka þátt í boðunarstarfinu og sækja samkomur. Áður en ég vissi af var ég kominn langt frá söfnuðinum. En öldungurinn sýndi mér persónulegan og einlægan áhuga og það hjálpaði mér að snúa aftur.“ Eftir að bróðirinn þáði aðstoð við biblíunám dró úr erfiðleikum hans. „Ég áttaði mig á að það sem vantaði í líf mitt var kærleikur og leiðsögn Jehóva og safnaðar hans,“ segir hann.

18 Hvernig var bróðurnum tekið í söfnuðinum? „Mér líður eins og glataða syninum sem Jesús Kristur talaði um,“ segir hann. „Ein af eldri systrunum, sem var í söfnuðinum fyrir 30 árum og þjónar Jehóva dyggilega enn þá, sagði við mig: ‚Velkominn heim, vinur!‘ Það snerti mig djúpt. Ég var kominn heim. Og mig langar til að þakka fyrir kærleikann, hlýjuna, þolinmæðina og áhugann sem þessi öldungur og allur söfnuðurinn sýndi mér. Kærleikur þeirra til Jehóva og náungans hjálpaði mér að snúa aftur.“

Hvettu þá til að snúa aftur þegar í stað

19, 20. Hvernig geturðu hvatt óvirka til að snúa þegar í stað til safnaðarins og hvernig geturðu sýnt þeim fram á að Guð ætlast ekki til of mikils af okkur?

19 Við lifum á síðustu dögum og núverandi heimskerfi er í þann mund að líða undir lok. Hvettu því óvirka til að sækja safnaðarsamkomur og byrja á því þegar í stað. Bentu þeim á að Satan sé að reyna að spilla sambandi þeirra við Guð og telja þeim trú um að þeir geti létt sér byrðar lífsins með því að snúa baki við sannri tilbeiðslu. Þú getur fullvissað þá um að eina leiðin til að hljóta raunverulega hvíld sé fólgin í því að fylgja Jesú dyggilega. — Lestu Matteus 11:28-30.

20 Minntu hina óvirku á að Jehóva vænti þess að við gerum okkar besta. Skömmu áður en Jesús dó smurði María, systir Lasarusar, hann með dýrri ilmolíu en var gagnrýnd fyrir. Jesús sagði þá: „Látið hana í friði . . . Hún gerði það sem í hennar valdi stóð.“ (Mark. 14:6-8) Jesús hrósaði fátæku ekkjunni sem lagði tvo smápeninga í fjárhirslu musterisins. Hún gerði líka það sem í hennar valdi stóð. (Lúk. 21:1-4) Flest okkar geta sótt safnaðarsamkomur og boðað fagnaðarerindið. Margir sem eru óvirkir núna geta það líka með hjálp Jehóva.

21, 22. Um hvað geturðu fullvissað þá sem snúa aftur til Jehóva?

21 Ef einhver sem hefur villst frá hjörðinni er hikandi við að hitta trúsystkini sín á ný gætirðu minnt hann á gleðina sem fylgdi heimkomu glataða sonarins. Söfnuðurinn gleðst líka þegar týndir sauðir snúa aftur. Hvettu þá til að standa gegn djöflinum og nálægja sig Guði þegar í stað. — Jak. 4:7, 8.

22 Þeir sem snúa aftur til Jehóva eiga gleðilegar móttökur í vændum. (Harmlj. 3:40) Þeir áttu eflaust margar ánægjustundir áður fyrr í þjónustu Jehóva og þeir mega treysta að þeirra bíður margs konar blessun í framtíðinni.

Hvert er svarið?

• Hvernig er hægt að hjálpa trúsystkini sem hneykslaðist og fjarlægðist söfnuðinn?

• Hvernig væri hægt að rökræða við einstakling sem yfirgaf söfnuðinn af því að hann var ósammála einhverri kenningu?

• Hvernig er hægt að hjálpa þeim sem er hikandi við að snúa aftur til safnaðarins?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 13]

Hlustum vel þegar óvirk trúsystkini segja frá því sem þeim liggur á hjarta.

[Mynd á blaðsíðu 15]

Dæmisaga Jesú um glataða soninn getur verið sumum hvöt til að snúa aftur.